Færslur

2009-04-05

Sagan af Kópi

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Sagan af Kópi byrjar einn sumardag í Flóanum árið 1968. Sólin skein og fjallahringurinn skartaði sínu fegursta og tíbráin titraði þegar litið var í áttina til hafs. Ég var að fara út eftir kaffi. Þá renndi bíll í hlað á Galtastöðum og lítil stúlka kom út ír bílnum með fallegan hvolp í fanginu. Hún heilsaði mér og sagði: „Vantar þig ekki hund?" Ég sagði „nei". Hún fór vonsvikin aftur inn í bílinn. En svo vildi til að dyrnar inn í bæinn voru opnar og Dísa heyrði til okkar. Hún sagði: „Taktu hvolpinn af henni, þú getur þá fargað honum ef hann verður vandræðagripur." Ég hljóp að bílnum þar sem hann var að snúa við, opnaði dyrnar og sagði við súlkuna: „ég skal geyma hundinn fyrir þig." Bjart bros færðist yfir varir stúlkunnar. „Hann heitir Kópur. Við erum úr Kópavoginum. Það eru tveir aðrir hvolpar heima og við vorum að vita hvort einhver vildi ekki eiga þennan úti í sveit. Ég er svo glöð yfir því að þú vilt eiga hann af því þá þarf hann ekki að deyja." Stúlkan faðmaði og kyssti hvolpinn þegar hún kvaddi hann. „Bless Kópur minn" sagði hún og nokkur tár komu niður kinnar hennar þegar hún fór inn í bílinn. Kópur var svartur með hvíta bringu og trýni, með dökkgulum svæðum á milli, mjög fallegur.


Erlingur, 15 ára fór strax að leika sér við hvolpinn. Ragnar, 7 ára var á næsta bæ. Þegar hann kom heim trúði hann varla að við ættum svona fallegan hvolp. Það kom fljótt í ljós að Kópur var mjög skynsamur hundur. Strákarnir léku sér mikið við hann. Þeir kenndu honum að sækja allt sem kastað var, spýtur og bolta. Þeir földu fyrir honum allskonar hluti og alltaf fann Kópur þá aftur, vildi þá ekki sleppa því og hafði gaman af að láta strákana elta sig. Hann var mjög hlýðinn og fljótur að læra. Einu tók hann upp á þegar hann var fullvaxinn hundur. Hann fór að hlaupa í kindur og hesta og vildi ekki hætta því. Eftir eina slíka ferð fékk hann skell á rassinn og hann stökk aldrei framar í fénað eftir það.


Á fyrri hluta ævi Kóps vorum við með heimalning, svartan hrút. Þegar búið var að gefa honum pelann kom Kópur og sleikti hann í framan. Hrússa líkaði þetta vel og hann stóð alveg kyrr. Þeir léku sér mikið saman. Kópur fékk hrútinn til að elta sig. Hann reyndi að stanga Kóp sem hljóp alltaf undan. Þeir tóku svo leikhlé, lögðust á túnið skammt frá hvor öðrum og horfðust í augu, alltaf tilbúnir að byrja aftur. Eftir því sem hrúturinn stækkaði varð leikurinn hraðari og æstari. Dag einn síðsumars, rétt áður en hrússi hvarf af vettvangi voru þeir að leika sér og ég sá að í þetta skipti var leikurinn óvenju harður. Þeir voru við götu sem lá fram að fjárhúsum. Þar voru nokkrar þúfur. Allt í einu heyrði ég Kóp væla og væla. Vælið hætti ekki. Ég fór því og athugaði hvernig ástandið væri hjá þeim. Greinilegt var að Kópur hafði ekki komist undan einni atlögu hrútsins og hafði lent á bakinu milli þúfna. Svartur lá svo á maganum ofan á honum, teygði frá sér afturlappirnar og lagði aðra framlöppina yfir hálsinn á Kóp, undir kjálkana svo hann gat ekki glefsað. Hann hélt Kóp alveg föstum svo hann gat ekkert gert nema vælt. Ég tók hrússa ofan af Kóp og hann var feginn að losna. Svartur stóð gleitt og horfði á Kóp sigri hrósandi með glampa í augum eins og hann vildi segja: „Í þetta skipti hafði ég betur." Eftir þetta atvik hætti Kópur mikið til að stríða hrússa.


Kópur var duglegur að þefa uppi mink. Einu sinni sá ég hann koma hlaupandi á eftir einum sem stakk sér beint í Galtastaðaflóðið. Kópur stakk sér á eftir. Þetta var á hans yngri árum og fáir hundar voru jafn duglegir að synda og hann. Minkurinn kafaði hvað eftir annað en alltaf styttist kafsundið. Loks hætti minkurinn að kafa, en synti í hringi. Kópur fór styttri hring, náði loks minknum og kom með hann dauðan að landi.


Strákarnir voru sífellt að leika sér við Kóp. Þegar snjór var á veturna lét Ragnar Kóp draga snjóþotu. Hann batt band í hálsólina, settist á snjóþotuna og kastaði spýtu eins langt og hann gat. Þá hljóp Kópur af stað en Ragnar sat á snjóþotunni og hafði mikið gaman af. Síðan var spýtunni kastað aftur og aftur. Stundum þegar þeir voru komnir langt út á tún þá kallaði ég í Kóp sem kom þá á harðaspretti heim. Bæði Ragnar og Kópur höfðu mikið gaman af. Kópur var með stærri hundum og fór nokkuð létt með þetta.


Kópur fór alltaf með mér á fjárhúsin. Á meðan ég gaf kindunum lék hann sér við þær. Hann fór með mér í fjósið og lá í fóðurganginum á meðan ég var að mjólka. Hann var ómissandi þegar verið var að sækja kýrnar á sumrin. Þegar fjósið og hlaðan var byggð var Kópur alltaf á iði í kringum smiðina. Þeir höfðu gaman af honum. Hann lá skammt frá þeim með spýtu fyrir framan sig sem þeir köstuðu stundum eða földu. Einu sinni settu þeir spýtuna upp á vinnupallinn. Kópur gafst ekki upp heldur klöngraðist upp stigann, en það var eitt það erfiðasta fyrir hann sem ég sá hann gera.


Á yngri árum Kóps gekk hundafár. Hundarnir á bæjunum í kring drápust. Hann fékk þessa pest og varð mjög veikur, lá kyrr og gat ekki hreyft sig. Það var ekki hægt að sjá annað en að hann myndi deyja. Við áttum súlfatöflur. Ég gat komið tveim töflum alveg niður í háls á honum og við sáum að hann reyndi að koma þeim niður með veikum mætti. Næsta dag var hann farinn að depla augunum og var aðeins betri. Ég lét töflur upp í hann og þær runnu niður. Næstu töflur sleikti hann úr hendi minni, var greinilega alveg viss um að þetta hjálpaði honum. Eftir nokkra daga var hann alveg búinn að ná sér eftir þessi veikindi.


Með aldrinum varð hann þungur á sér og nennti ekki að fara þegar ég þurfti að senda hann. Þá skaust hann bakvið háar þúfur og þóttist vera að gera þarfir sínar eða bara lagðist niður og faldi sig. Að lokum veiktist hann mjög alvarlega, gat ekki komið neinu frá sér og kvaldist mikið. Ég fór með hann til dýralæknisins sem sprautaði hann. Hann dó í aftursætinu í bílnum hjá mér og er grafinn hjá gömlu réttinni við Galtastaðaflóðið.


(2004)

Engin ummæli: