Færslur

2009-01-29

Austanfjallspolki

Eftir Arndísi Erlingsdóttur frá Galtastöðum í Flóa


Snjólétt er Hellisheiði,
hindruð er ekki leið
um bæi og sveitir
sunnan lands.
Blikandi byggða ljósin,
bárur við Þjórsárósinn
fara í leik og léttan dans.


Knarrarós vitinn vísar
veginn um haf og ísa
veröldin þá verður mín
létt eins og leiftur blossar,
ljúf eins og ástar kossar
gyllt eins og glóandi vín.

Venus í vestri ljómar,
vindharpan skæra ómar
tunglskinið töfrar þetta svið.
Bátar við bryggju festar,
bíða með tómar lestar
sækja á sjávarins mið.

Knarrarós vitinn vísar
veginn um haf og ísa
veröldin þá verður mín
létt eins og leiftur blossar,
ljúf eins og ástar kossar
gyllt eins og glóandi vín.


(Ort 1970-)

2009-01-17

Nell og ég að spila í Riftúni

Þessi mynd er tekin í kaþólsku kapellunni í Riftúni í nóvember 2008. Til vinstri er Nell Brandenburg sem spilaði á orgel og til hægri er ég að spila á fiðlu. Ég hef fengið eitthvað liðlega 10 tíma tilsögn í fiðluleik og það dugar til þess að ég kemst í gegnum einföld lög. Fiðlan og orgelið hljómar vel saman. Þessi fiðlu fékk ég nýja á Ebay fyrir eitthvað um 10 þús. krónur hingað komna. Þetta er líklega kínafiðla, eftirlíking af Stradivarius en samt ótrúlega vel gerð og hún virðist vera úr fiðluviði en ekki krossviði eða gerviefnum. Hún er svo hljómmikil að ég þarf alltaf að hafa hljóðdeyfinn á. Í Riftúni var það alveg nauðsynlegt. Ég átti áður Suzuki fiðlu sem ég spilaði sjaldan á. Sú var með miklu mjórri tón og ég seldi hana. Ég spila stundum á fiðluna í Riftúni við messur þar. Núna er komin Teresusystir sem spilar á orgel og ég spila með henni. Það er eiginlega nauðsynlegt að hafa orgel sem aðalhljóðfæri því ef ekkert er orgelið þá hljómar fiðlan frekar einmana með sinn háa og ákveðna tón, jafnvel þó fólkið taki vel undir.
Posted by Picasa