Færslur

2009-08-23

Við Reynisdranga

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Kemur aldan klettinn við
kalt er brim í faldinn.
Þú sækir afla á sjávarmið
sértu illa haldinn.

2009-08-02

Nýr íslenskur texti við „Hallelujah“ eftir Leonard Cohen

Hér á eftir kemur nýr íslenskur texti eftir færsluhöfund við lagið Hallelujah eftir kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen. Lagið er fallegt, tilfinningaþrungið en þó einfalt eins og sum önnur laga Cohen en enski frumtextinn hentar ekki til kirkjusöngs. Þessi eftirfarandi texti byggir því að litlu leyti á upprunalegum texta söngvaskáldsins en er ætlaður til þess að nota þegar lagið er flutt á trúarlegum samkomum.

Við textagerðina var stuðst við Fyrri Samúelsbók, kafla 16, vers 23 og Davíðssálma 137, 130 og 146-149 í þessari röð.

Hallelúja

Er Davið sló sinn helga hljóm
á hörpuna og hóf upp róm
þá bráð' af Sál og 'ann sagði ert það þú já.
Úr ferund í fimmund lagið fer
til hæða sálin lyftir sér
og snortinn mælir höldur - hallelúja.

Viðlag:
Hallelúja - hallelúja
Hallelúja - hallelúja.

Í Babýlon við vötnin ströng,
þeir heimtuð' af oss gleðisöng
og allt við höfðum misst þar nema trúna.
Frá gráti yfir í gleðitár
það græðir hjartans dýpstu sár
er heyrist beðið hljóðlátt - hallelúja.

Viðlag.

Úr djúpinu ég ákalla þig,
ó Drottinn viltu heyra mig
og von mín ávallt fær mig til að segja.
Hið eina sanna lausnar mál
er morgunljómi í minni sál,
finn miskunn þér í hjarta - hallelúja.

Viðlag.

Ó syngið Drottni nýjan söng
er þíðir hrímuð hjarta göng
já látum okkur hefja róminn núna.
Hann rekur réttar kúgaðra
og mettar munna hungraðra
með einu himna orði - hallelúja.

Viðlag.

Höfundur texta: Ragnar Geir Brynjólfsson. Gítargrip við lagið má finna á gitargrip.is.