Færslur

2009-03-20

Heitir bærinn Galtastaðir eða Galtarstaðir

Birtist áður á http://www.vina.net/ í des. 2006

Í tilefni af umræðu og fréttaflutningi af fjarskiptamöstrum sem rísa áttu við bæinn Galtastaði á þessu ári langar mig til að tæpa á helstu atriðum um það sem mér er kunnugt um þetta bæjarnafn.
Í öllum þeim fréttum sem ég hef séð í blöðum Suðurlands um málið hefur bærinn alltaf verið nefndur Galtastaðir. Það er í samræmi við málvenju á svæðinu enda kannast enginn hér við að bærinn heiti Galtarstaðir.
Í Morgunblaðinu laugard. 25. nóvember 2006 er frétt af möstrunum á baksíðu og í fréttinni er bærinn ítrekað nefndur Galtarstaðir.
Mér er málið nokkuð skylt því á þessum bæ átti ég heima frá fæðingu árið 1961 og þangað til 1990. Allan þann tíma var bærinn alltaf nefndur Galtastaðir af heimilisfólkinu og mín fjölskylda hafði komið á bæinn 1926 eða 7. Ekki man ég eftir að neinn af okkar nágrönnum hafi nefnt bæinn öðru nafni.
Á kortum af svæðinu og skilti sem komið var upp við bæinn Bár af Gaulverjabæjarhreppi sem áður var stóð Galtastaðir - ekki Galtarstaðir.
Í Íslensku fornbréfasafni er til færsla líklega frá 12. eða 13. öld um álftahreiður í landi Galtastaða og sagt að þau tilheyri Gaulverjabæjarkirkju. Ég er ekki með heimildina tiltæka en ég man þetta örugglega. Í þessari heimild er bærinn nefndur Galtastaðir.
Í jarðabók Árna Magnússonar er bærinn aftur á móti sagður heita Galtarstaðir. Hvað því veldur er ekki gott að segja, hugsanlega svipaður ókunnugleiki og vart varð hjá Mogganum. Nú væri forvitnilegt hvaða skoðanir lesendur hafa á þessu máli. Er þetta bæjarnafn tilvísun í einhvern galta eða er felur nafnið í sér tilvísun í gölt og hafa heimamenn bara verið svona feimnir að nefna bæinn réttu nafni öll þessi árhundruð?

PS.

Ég fékk bréf frá Guðmundi Erlingssyni móðurbróður mínum um þetta og birti hér brot úr því með leyfi hans: "Göltur -- Sbr næturgöltur. Orðið galti þýðir líka ' litil heysáta´ og svo finnst mér endilega að galti væri notað um heystabba í heygörðum. Grýlukvæði Séra Brynjólfs Halldórssonar dáinn 1737.Úr vísu #67

Árdegis fór hún á burtu þaðan
gekk svo rakleiðis að Galtastöðum

Úr vísu #94

Að Galtastöðum gekk hún snemmendis.

Í Hrafns Sögu Sveinbjarnarsonar er maður nefndur Galti. Mér finnst það vera líklegasta skýringin á nafninu Galtastaðir, sbr Baugstaðir, Egilsstaðir, Torfastaðir, Ragnheiðarstaðir eru allir kenndir við menn. Grýlukvæðið er um Galtastaði austur á Héraði. Norðlendingar greiða lokka við Galtará eða státa af fræðimanni sínum, Guðbrandi Vigfússyni frá Galtardal í Dölum. Sunnlendingar og Austfirðingar eiga sína Galtastaði"

Engin ummæli: