Færslur

2009-03-19

Salzburgarnautið

(Birtist áður á ragnargeir.blog.is)

Salzburgarnautið eða Salzburg Stier er heiti á hljómpípuorgeli sem geymt er í kastalanum í Salzburg, nánar tiltekið Hohensalzburg virkinu stærsta kastalavirki í Evrópu sem gnæfir í meira en 100 metra hæð yfir borginni og sem byrjað var að byggja á 11. öld. Það var erkibiskupinn í Salzburg, Leonard von Keutschach sem jafnframt var hertogi og stjórnandi Salsburgar sem í þá tíð var sjálfstætt hertogadæmi sem lét byggja Salzburgarnautið árið 1502 til að nota það sem klukku og sírenu fyrir borgina. Til að byrja með gat orgelið aðeins gefið frá sér fáa hljóma og þegar þeir glumdu minnti hljómurinn á nautsbaul. Salzborgarar voru því fljótlega farnir að kalla spilverkið í kastalanum 'nautið'. Frá árinu 1502 hefur nautið baulað þrisvar á dag til að gefa borgarbúum til kynna hvað tímanum líður. Fyrir 500 ára afmælið árið 2002 var 'nautið' tekið í gegn og lagfært.

Á þessum tíma hefur 'nautið' þróast talsvert frá því að geta spilað fá tóna yfir í að geta spilað lög. Meðal þeirra sem sömdu lög fyrir Salzburgarnautið var Leopold Mozart faðir Wolfgangs Amadesusar Mozart. Hann endurbætti 'nautið' þannig að hægt var að koma tólf lögum fyrir á tromlunni sem stjórnar spilverkinu og því var hægt að skipta um lag sem nautið spilaði fyrir hvern mánuð ársins.

Nýlega var ég á ferðalagi á þessum slóðum og á skoðunarferð um kastalann var stöðvað við lítinn glugga þar sem hægt var að sjá inn í herbergi 'nautsins'. Ég varð svo hissa yfir því sem ég sá að ég steingleymdi að taka mynd en þetta var eins og að horfa á risavaxna spiladós. Þarna var tromla sem pinnar gengu út úr rétt eins og í litlum spiladósum nema þessi var mjög stór. Á netinu fann ég að tromlan er 5 fet og 7 tommur á lengd og 9,8 tommur í þvermál! Hljómurinn kemur frá orgelpípum sem eru um meter á hæð það mesta. Ekki heyrði ég í 'nautinu' í þetta skiptið en kannski verður það síðar. Gaman væri ef einhver lesenda þessara orða hefur heyrt í því hljóðið. Frá árinu 1997 hefur Salzburgarnautið verið á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimildir:
http://www.salzstier.com/
http://www.salzstier.com/stierpics.htm(Birtist áður á ragnargeir.blog.is)

Engin ummæli: