2025-11-22

Að sækja að glæpahópum úr öllum áttum - en lærum af mistökum Svía

Það er fagnaðarefni ef íslensk stjórnvöld ætla loksins að bregðast af alvöru við þeirri þróun sem ríkislögreglustjóri lýsti í nýrri skýrslu sinni um skipulagða brotastarfsemi. Dómsmálaráðherra segir stefnt að því að efla löggæslu, styrkja landamærin og þrengja að brotahópum „úr öllum áttum“. Þetta lýsir góðum vilja — en reynsla nágrannalanda okkar, einkum Svía, sýnir að slíkum yfirlýsingum verður að fylgja eftir með markvissum aðgerðum. Annars gerist ekki neitt.

Ný skýrsla frá ríkislögreglustjóra er í raun rauð viðvörun. Skipulögð brotastarfsemi hefur þegar komið sér fyrir hér á landi, með netglæpum, peningaþvætti, mansali og vaxandi nýliðun ungmenna. Alþjóðlegir hópar vinna þvert á landamæri og nýta sér veikleika kerfisins. Við höfum ekki efni á að bregðast seint við — því þegar kemur að skipulagðri brotastarfsemi er hver dagur sem tapast dýru verði keyptur síðar.

Ætlar ráðherra að gera það sem þarf — eða það sem hljómar vel?
Í svari sínu á Alþingi talaði dómsmálaráðherra um aðgerðir „á öllum sviðum“, þar á meðal á landamærum, hjá skattinum, í fjármálaeftirliti og með auknum heimildum lögreglu. Þetta eru allt skref sem skipta máli — en stóru spurningarnar eru hvort þau verði nógu róttæk, nógu markviss og nógu hröð? Við höfum nefnilega heyrt svona fyrirheit áður. Á meðan stjórnmálin festast aftur og aftur í málþófi, veikburða verkstjórn sem endar í nauðasamningum við þinglok og innbyrðis átökum heldur skipulögð brotastarfsemi áfram að nýta sér glufur í kerfinu.

Lærdómurinn frá Svíþjóð – hvað Ísland má ekki endurtaka
Svíar eru nú í miðju neyðarástandi eftir rúman áratug af vaxandi skipulagðri brotastarfsemi. Dalen-gengið, eitt versta glæpanet landsins, var stofnað af unglingum í venjulegu hverfi árið 2014. Nokkrum árum síðar var það orðið alþjóðlegt ofbeldisnet sem tengdist morðum, sprengjum og vopnasmygli. Svíar hertu refsingar, endurskoðuðu lög, settu fram aðgerðaráætlun og eru nú að lækka aldur sakarábyrgðar úr 15 í 13 ár — en samt heldur ofbeldið áfram. Ástæðan er sú að þeir misstu af fyrstu tveimur stigunum: nýliðun ungs fólks og peningaþvætti í löglegri starfsemi. Skipulagning á sér stað löngu áður en byssur og sprengjur birtast í fjölmiðlum. Þegar lagasetningin loksins kom var vandinn orðinn kerfislægur og landlægur.

Skýrslan sýnir að Ísland er á sama stigi nú og Svíþjóð var fyrir rúmum áratug. Ungmenni eru þegar farin að taka að sér verkefni fyrir brotahópa. Glufur í fyrirtækjaskrá og fjármagnsflæði gera peningaþvætti auðvelt. Heimildir lögreglu til að fylgjast með flóknum netglæpum eru of þröngar og upplýsingaflæði á milli stofnana er of hægfara til að stöðva þróunina.

Ef ekki verður gripið inn í núna strax, mun Ísland fara sömu leið — nema hraðar, því okkar innviðir eru veikari og samfélagið minna og berskjaldaðra.

Peningaþvætti – veikasti hlekkurinn
Flestir ofmeta beinar aðgerðir gegn ofbeldi svo sem árangursríkar morðrannsóknir, þó þær séu góðar og nauðsynlegar í sjálfum sér — en vanmeta peninga­flæðið sem knýr skipulagða brotastarfsemi áfram. Er það kannski rótgróið dálæti okkar á spennusögum sem veldur? Það er kannski erfitt að skrifa spennusögu um vinnu endurskoðandans en það er samt nákvæm endurskoðunarvinna sem fellir glæpasamtökin. Skýrslan er skýr: upptaka ólögmætra fjármuna er erfið, seinvirk og oft árangurslítil. Íslensk fyrirtækjaskrá er veik, eftirlit með grunsamlegum færslum er takmarkað og þeir sem vilja þvætta fé geta gert það hér með litlum tilkostnaði.

Þetta eru bráðum aldargömul sannindi. Það voru ekki morðrannsóknirnar sem felldu Al Capone einn alræmdasta glæpamann síðustu aldar — heldur skattarannsóknir. Peningarnir eru blóðflæði skipulagðrar brotastarfsemi. Ef við lokum ekki fyrir það blóðflæði, þá lokum við ekki fyrir brotastarfsemina. 

Hvað þarf að gerast hér — og af hverju það má ekki bíða
Ef stjórnvöld ætla sér að grípa til alvöru aðgerða þarf að stöðva nýliðun ungmenna áður en hún verður stigveldi, loka fyrir peningaþvættisleiðir strax, samræma upplýsingaflæði milli stofnana og veita lögreglu sambærilegar heimildir og systurlönd okkar búa við. Það er líka nauðsynlegt að hætta að trufla störf Alþingis með friðhelgisröksemdafærslum sem vernda glæpamennina frekar en fólkið sem þeir svíkja, misnota og taka af lífi ef þeim þóknast svo.

Að öðrum kosti verður Ísland ekki landið þar sem brotahópum er mætt — heldur landið þar sem þeir ná að styrkja stöðu sína, finna ró og nýliðun og byggja upp starfsemi í friði á meðan stjórnmálin deila um formsatriði eða önnur fræðileg atriði í keisarans skeggi. Alþingi er ekki málstofa um fræðileg atriði heldur aðgerðasveit  sem starfar í umboði almennings. 

Birtist 18.11.2025 á slóðinni: https://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/2319757/

Athugasemdir

Ásgrímur Hartmannsson

Ríkið hleypti glæpahópunum viljandi inn í landið.

Við búum á eyju, það eru ekki kjarnorkuvísindi að halda þeim frá.

Allar heimildir lögreglu eru bara til þess að láta hana herja á almenning, það stendur ekki annað til en að hleypa fleiri glæponum til landsins.

Ásgrímur Hartmannsson, 18.11.2025 kl. 16:17

---

Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið, Ásgrímur.

Þótt Ísland sé eyja er það ekki einangrað frá alþjóðlegum stafrænum innviðum. Nýlega kom í ljós að vafasöm erlend samtök hafa notað íslenska netþjóna [1] eða hýsingarþjónustu vegna veikrar löggjafar um upplýsingaflæði, rekjanleika og peningaþvætti, ekki vegna þess að "ríkið hafi hleypt þeim inn".

Íslensk lögregla getur ekki gert mikið á meðan lagabreytingar tefjast, heimildir eru þröngar og kerfið nær ekki utan um stafræna brotaheiminn. Þetta snýst því meira um glufur í lögum en einhverja viljandi stefnu. Við vinnum bara ekki nógu markvisst að öryggismálum.

Sjá: https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-11-16-grunsamleg-mannrettindasamtok-vista-vefsidu-sina-a-islandi-459003

Ragnar Geir Brynjólfsson, 18.11.2025 kl. 21:17

---

Ragnar Geir Brynjólfsson

Í pistlinum "Skipulögð brotastarfsemi: Rauð viðvörun sem stjórnvöld mega ekki hunsa" skrifaði ég:

"Stundum heyrist að rýmri rannsóknarheimildir, betra upplýsingaflæði milli stofnana og skýrari skilgreining á skipulagðri brotastarfsemi gangi of nærri friðhelgi einkalífsins eða stangist á við mannréttindi. Íslensk stjórnmálaumræða hefur ekki einu sinni verið einhuga um hvort rétt sé að styrkja verkfæri lögreglu eða eftirlitsstofnana. Í gegnum árin hafa þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu mótmælt lagabreytingum í nafni mannréttinda sem þeir skilgreina á mjög þröngan og hugmyndafræðilegan hátt. Það er göfugt að verja réttindi borgaranna en þegar það er gert þannig að ríkið má ekki verja borgarana gegn glæpahópum, þá verður niðurstaðan sú að glæpamenn fá meira frelsi en fólkið sem þeir svíkja og misnota."

Ragnar Geir Brynjólfsson, 18.11.2025 kl. 21:25

Engin ummæli: