Færslur

2012-05-01

Sumartíð


Sumartíð - vögguvísa að vori.

(Íslenskur söngtexti við lagið Summertime eftir George Gershwin.)

Sumartíð, já og sumarblíða.
Langur vetur nú að baki er.
Lóusöngur, lýkur öllum kvíða.
Létt grát þínum angi, lífið mun hjúfra þér.

Einhvern morgun, muntu vakna og vitja,
vængja þinna, hefja söngsins klið.
En fram að þeim tíma, mun ég hjá þér sitja,
og mamma og pabbi standa þér við hlið.

Höfundur texta: Ragnar Geir Brynjólfsson

2009-09-21

Íslenskur texti við þýska þjóðlagið Krambambuli sem nota má sem afmælissöng

Sumir lesenda kannast kannski við þýska stúdentalagið Krambambuli. Sjá hér í flutningi Erich Kunz: http://www.youtube.com/watch?v=l32n5yncfmM&feature=related

Lag þetta er þýskt þjóðlag en þýski textinn er eftir þýska skáldið Christoph Friedrich Wedekind (1709-1777) en hann notaði dulnefnið Crescentius Koromandel. Sá texti er um vín bruggað úr einiviði en þennan íslenska texta sem hér kemur á eftir má sem best nota sem afmælissöng og hnika til orðum svo löng eða stutt nöfn komist fyrir í textanum.

Afmælissöngur.

Það tómlegt er ekki í tímans glasi
og teljast þar árin í reynslusjóð.
Við göngum á fund með gleðifasi
og gjalla látum söngvaljóð.

Viðlag: (x2)
Já höfum nú í hámæli að X (hann/hún) á afmæli
já (hann/hún) á afmæli, já afmæli.

Já tíminn hann upp á okkur lítur,
og andvari hans nemur staðar hljótt.
En augnabliksgleðin hún ekki þrýtur,
og orðin þau hljóma í söngnum ótt.

Viðlag: (x2)
Já höfum nú í hámæli að X (hann/hún) á afmæli
já (hann/hún) á afmæli, já afmæli.

Höf. texta Ragnar Geir Brynjólfsson.

2009-08-23

Við Reynisdranga

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Kemur aldan klettinn við
kalt er brim í faldinn.
Þú sækir afla á sjávarmið
sértu illa haldinn.

2009-08-02

Nýr íslenskur texti við „Hallelujah“ eftir Leonard Cohen

Hér á eftir kemur nýr íslenskur texti eftir færsluhöfund við lagið Hallelujah eftir kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen. Lagið er fallegt, tilfinningaþrungið en þó einfalt eins og sum önnur laga Cohen en enski frumtextinn hentar ekki til kirkjusöngs. Þessi eftirfarandi texti byggir því að litlu leyti á upprunalegum texta söngvaskáldsins en er ætlaður til þess að nota þegar lagið er flutt á trúarlegum samkomum.

Við textagerðina var stuðst við Fyrri Samúelsbók, kafla 16, vers 23 og Davíðssálma 137, 130 og 146-149 í þessari röð.

Hallelúja

Er Davið sló sinn helga hljóm
á hörpuna og hóf upp róm
þá bráð' af Sál og 'ann sagði ert það þú já.
Úr ferund í fimmund lagið fer
til hæða sálin lyftir sér
og snortinn mælir höldur - hallelúja.

Viðlag:
Hallelúja - hallelúja
Hallelúja - hallelúja.

Í Babýlon við vötnin ströng,
þeir heimtuð' af oss gleðisöng
og allt við höfðum misst þar nema trúna.
Frá gráti yfir í gleðitár
það græðir hjartans dýpstu sár
er heyrist beðið hljóðlátt - hallelúja.

Viðlag.

Úr djúpinu ég ákalla þig,
ó Drottinn viltu heyra mig
og von mín ávallt fær mig til að segja.
Hið eina sanna lausnar mál
er morgunljómi í minni sál,
finn miskunn þér í hjarta - hallelúja.

Viðlag.

Ó syngið Drottni nýjan söng
er þíðir hrímuð hjarta göng
já látum okkur hefja róminn núna.
Hann rekur réttar kúgaðra
og mettar munna hungraðra
með einu himna orði - hallelúja.

Viðlag.

Höfundur texta: Ragnar Geir Brynjólfsson. Gítargrip við lagið má finna á gitargrip.is.

2009-07-19

Memphis Tennessee lagið - íslenskur texti

Það hefur líklega verið sumarið 1982 sem við Davíð í Skógsnesi og Eiríkur á Arnarhóli komum saman í Félagslundi á kvöldin til að spila og syngja saman okkur til skemmtunar. Davíð spilaði á orgel, Eiríkur á gítar, ég á bassa og Bói í Önundarholti kom í eitt eða tvö skipti og trommaði með okkur. Einnig Eric frændi minn. Eyvi á Vestri-Hellum kom líka einu sinni a.m.k. og spilaði á harmonikku. Félagslundur var og er samkomuhús í Gaulverjabæjarhreppi, núna Flóahreppi.

Þetta var okkar eigin framtak en ekki félagasamtaka en við nutum samt velvildar þeirra sem sáu um húsið. Við lofuðum að þrífa eftir okkur og ganga vel um og það tókst ágætlega að því er ég best veit. Við veltum fyrir okkur að stofna hljómsveit, komum þó aldrei fram en kölluðum þennan félagsskap okkur til skemmtunar „Baggabandið. “

Við spiluðum mest uppáhalds rokkslagara. Rauluðum lög á borð við „Have you ever seen the rain“ með Creedence Clearwater Revival, „Under my Thumb“ með Rolling Stones, vinsæl lög eftir Bubba og svo lagið Memphis Tennessee í eftirlíkingu af útgáfu Bítlanna.

Í erlendu lögunum fannst mér betra að geta sungið þau með íslenskum texta og því fór ég að reyna að hnoða saman textum. Ég reyndi aðeins við „Have you ever seen the rain“ en var ekki nógu ánægður með útkomuna. Man þó að ég vísaði í liðin rosasumur á Suðurlandi, svo sem '55 og '56, '75 og '76. Ég bjó þó til texta við Memphis lagið sem ég var það ánægður með að ég man hann nokkurn veginn ennþá. Íslenskunin fer hér á eftir.

Upprunaleg mynd textans mun hafa verið gerð af Chuck Berry. Margir aðrir hafa flutt það en frægastir eru þó líklega Elvis Presley og Bítlarnir. Sjá nánari uppl. um lagið og enska textann hér.

Hér kemur svo textinn frá 1982:

Landssími náðu í Memphis Tennessee
é'ra reyna' finna stelpu það er áríðandi því
hún skild' ekk' eftir númer en nafnið hef ég þó
ég veit líka nokkurn veginn alveg hvar hún bjó.

Hjálpaðu mér landssími að finna'na Marie
stelpuna sem hringdi frá Memphis Tennesse
hún bjó fyrir sunnan, ekki langt þar frá
um það bil mílu frá Missisippi á.

Hjálpaðu mér landssími að bæta því við
ég sakni hennar mikið, það þoli enga bið
Mamm'ennar fór frá mér og tók'ana Marie
því reyni ég að finna'na í Memphis Tennessee.

Síðast er ég sá Marie þá veifaði hún mér
og þurrkaði tárin af kinnunum á sér
Marie er bara sex ára, landssími því
bið ég þig að finna'na í Memphis Tennesse.

2009-05-23

Vetur

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Skafrenningur
Fiðlubogi
stormsins


Það hvín í
ýlustráinu
á baðstofuþakinu


Veltandi skafrenningur
þenur bogastrenginn
á ýlustráinu


Brothljóð slitinn
bogastrengur
Vorið kom í nótt


(2003)

2009-05-22

Fegurð Flóans

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum




Í blautri mýrinni
hefur blómflóran
drukkið í sig
daggardropa næturinnar


Fuglasaungur
Andardráttur jarðarinnar
í heitri lognmollu
morgunsins


Síðdegis útræna af hafinu
Léttar bylgjur loftsins
vagga puntstráum


Hillingar til hafsins
Óráðin vindský
á austur og vesturfjöllum


Myndsalur fjallahringsins
Fegurð Flóans
fullkomin


(Desember 2002)