Á miðri 12. öld voru Norðurlönd í endurmótun. Landamæri voru óljós, ríki óstöðug og vald dreifðist milli ætta, biskupa og borgaralegra höfðingja. Kirkjan var eina formlega stofnunin, með tungumál og ritmenningu sem náði yfir höf og lönd. Þeir sem kunnu að lesa, skrifa og reikna voru þjónar kirkjunnar. Þeir gátu sumir hverjir jafnvel tjáð sig á hinu alþjóðlega tungumáli lærðra manna – latínu – og þannig átt samskipti við stofnanir og aðra lærða um alla Evrópu.
Á þessum tíma styrkti kristin heimsmynd tengingu Evrópu í eitt menningarlegt net. Páfastóllinn styrkti vald sitt, klaustrin urðu miðstöðvar þekkingar, og nýir skólar risu við dómkirkjur. Nútímaleg stjórnsýsla var að myndast í skjóli trúarinnar. Þeir sem héldu á fjaðurpenna og skinnbókum voru orðnir jafn mikilvægir og þeir sem báru sverðið.
Á þessum tíma var hið andlega net Evrópu þéttara en hið pólitíska. Klaustrin í Frakklandi og Þýskalandi höfðu samskipti við nunnuklaustur á Englandi og munkareglur á Norðurlöndum. Latína var sameiginlegt tungumál og tryggði að hugmyndir, rit og reglur gátu flust milli landa án misskilnings. Þannig varð kirkjan í raun fyrsta „evrópska bandalagið“, löngu áður en ríkin tóku á sig nútímalega mynd.
Vald og skipulag
Á sama tíma voru ríkin sjálf að leita að eigin formgerð og skipulagi. Í Frakklandi voru konungar farnir að búa sér til fastar höfuðstöðvar og embætti. Í Þýskalandi voru hertogar og kjörfurstar í stöðugri togstreitu við keisara og páfa. Í Englandi hafði normönsk stjórnskipan fest rætur með lagaskrám og jarðaskrám.
Á Norðurlöndum voru þessar hugmyndir að berast norður með kirkjunni. Danir, sem höfðu að nafninu til tekið kristni þegar á 10. öld, áttu enn í innanlandserjum. Ættir voru voldugar og áttu sín óðul, konungar voru kjörnir og drepnir, og löndin tengdust lauslega. Kirkjan hafði þó aðgang að hugmyndum um stöðugleika: að vald þyrfti ramma, skrá og merkingu og meðal lærðra manna varðveittist minningin um hið fasta skipulag, lög og frið Rómaveldis.
Það var þessi hugsun sem færðist norður með munkum frá Cluny og Citeaux, og gegnum menntaða menn sem höfðu stundað nám í París. Í þeirri bylgju kemur fram á sviðið ný tegund valds, arftaki hugmyndarinnar sem átti rætur í kristnum keisurum Rómar: sameining trúar og stjórnsýslu, þar sem ríki og kirkja styðja hvort annað, og báðir aðilar telja sig starfa í þjónustu Guðs
Menning og list
Á 12. öld voru listir og byggingar orðnar tæki stjórnsýslunnar jafnt sem trúarinnar. Dómkirkjur risu sem tákn um skipulag og stöðugleika, og í þeim voru myndir af konungum og helgum mönnum Guðs. Í þeim birtist ný hugsun: að samfélagið væri ein heild undir lögum, bæði mannlegum og guðlegum. Dómkirkjan í Hróarskeldu er lifandi minnismerki um þessa arfleifð þar sem finna má undir sama þaki myndir helgra manna frá kaþólskri tíð, kirkjuleiðtoga síðari tíma og konungagrafir.
Steinbogar og hvelfingar urðu form táknrænnar hugsunar, þar sem jafnvægi og hlutföll urðu tákn réttlætis og reglu. Í þessari byggingarlist speglaðist stjórnskipan ríkisins sjálfs. Myndirnar á kirkjuveggjunum, sem síðar urðu listaverk, byrjuðu í raun sem trúfræðsla –myndræn kverkennsla fyrir hina ólæsu alþýðu, sjónræn leið til að kenna sögur ritningarinnar og grundvallargildi trúarinnar. Hugmyndin um gullinsniðið (sectio aurea, proportio divina) sem síðar varð grundvallarhugmynd um hönnun kirkna víða í Evrópu – og síðar einnig á Íslandi, margar kirkjur Íslands eru byggðar í hlutföllum gullinsniðs, – á rætur í þessari hugsun um guðlegt jafnvægi og reglu í sköpuninni.
Á norðurslóðum var þessi menning í mótun. Á Sjálandi og Skáni voru kirkjur reistar í nýjum stíl, og höfuðsetur kirkjunnar í Lundi var orðið að miðstöð lærdóms og byggingalistar. Þar voru steinsmiðir frá Þýskalandi, prestar sem höfðu numið í París, og munkar sem komu með reglur Bernards frá Clairvaux.
Við Eyrarsund
Þegar horft er yfir landakort þess tíma sést að vald og umboð Danmerkur var ekki bundið við Jótland. Það lá um hafið, um sundin milli Sjálands og Skánar. Þar voru leiðirnar milli Norður-Evrópu og Eystrasalts, milli þýskra borga og rússneskra furstadæma. Sá sem réði þessum sundum réði einnig versluninni – og í reynd framtíðinni.
Við og umhverfis Eyrarsund voru helstu bæir Danmerkur á þessum tíma: Hróarskelda á Sjálandi, kirkjusetrið í Lundi á Skáni og hafnarbæirnir sem vörðu siglingarnar milli landanna. Það var þar sem ríkið gat tekið á sig nýja mynd: stjórn sem byggðist á lögum, tekjum og trúarlegum ramma.
Maðurinn sem sá mynstrið
Það var á þessum tíma sem maður nokkur hóf að festa þessa mynd í sessi. Hann var lærður í París, menntaður í guðfræði en einnig með mikla skipulagshæfileika. Hann sá að ríki sem ætlaði að lifa þyrfti bæði lög og anda. Hann sá að valdamiðja landsins sótti ekki styrk sinn til héraða og ættaróðala, heldur til hafsins – þar sem verslun, trú og stjórnsýsla runnu saman í eina heild.
Þegar hann sneri heim til Danmerkur tengdust þræðir sögunnar: kirkjan, konungurinn og ríkið sjálft. Þeir sem áður höfðu ríkt með vopnum hófu að stjórna með skipulagi. Undir merki krossins, sem síðar varð tákn þjóðarinnar, tók ríkið á sig form.
Sagan um þann mann – erkibiskupinn sem átti þátt í að móta ríkið, stofnaði höfuðborgina og skilgreindi vald í anda réttlætis og trúar – er sögð á Kirkjunetinu í dag: [Absalon erkibiskup – guðsmaður, ríkisráðsherra og faðir Kaupmannahafnar - 30. október]
Upprunalega birt á: https://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/2319232