Birtist áður á www.vina.net í nóvember 2006
Fyrri árin sem ég stundaði nám við Menntaskólann að Laugarvatni (1977-1981) vorum við menntaskólakrakkarnir svo heppin að sá frægi maður og þá þegar þjóðsagnapersóna í lifanda lífi Ólafur Ketilsson ók okkur til og frá staðnum. Þegar ég lít aftur þá skil ég alltaf enn betur og betur að í þessum aldna en harðsnúna rútubílstjóra bjó stórbrotinn og eftirminnilegur persónuleiki. Einu sinni sem oftar sat hann með í bílnum þegar stórum hóp nemenda var ekið en ók ekki sjálfur. Ég man nú ekki hvert en þetta var bíll af stærstu gerð og fullur af nemendum. Ólafur greip hljóðnemann í rútunni og hélt langa tölu algerlega blaðalaust. Ræða hans var á léttu nótunum en þó með alvörugefnum undirtónum. Honum varð tíðrætt í ræðunni um þeytinginn á nútímafólkinu. Hvernig rótleysi fólks væri sífellt að aukast og allt byrjaði þetta með því að konunum væri ekið að heiman og á fæðingardeildina, síðan væri börnunum ekið í skólann og loks væri það á sífelldum þeytingi til og frá í vinnuna. Þannig spann gamli maðurinn fram og til baka og engum leiddist á þeirri leið.
Á síðasta ári Ólafs [sem sérleyfishafa] eða því næstsíðasta sat ég einu sinni sem oftar í rútunni og hittist þannig á að ég sat í næsta sæti fyrir aftan Ólaf. Hann ók ekki bílnum en sat á spjalli við mann að sjá lítillega yngri en hann sjálfur var. Ekkert man ég hvað þeir ræddu en það sem Ólafur sagði var aldrei kveðið í hálfum hljóðum heldur heyrðu nærstaddir hvert orð og það skýrt og greinilega. Þegar við nálguðumst Laugarvatn sagði Ólafur stundarhátt en með þunga svo þeir sem nálægt voru tóku enn betur eftir: „Þegar eg leggst í rúmið þá verður það eilífðarrúmið". Hann sagði þetta nákvæmlega svona. Ekki með 'je' hljóði heldur e- hljóði í eg. Setningin var svo meitluð að ég man hana enn þann dag í dag þó liðin séu meira en 25 ár frá því hún var sögð. Ekki er mér kunnugt um hvernig síðustu ár Ólafs voru en ég hygg að þau hafi verið í þá veru sem hann ætlaði og að ekki hafi hann „lagst í rúmið" fyrr en hann lagðist í eilífðarrúmið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli