Flestum ætti að vera kunnugt um tillögur athafnamanna að skipuleggja svæði og reisa 15 hæða blokkir í miðju Selfoss, svokallaða Miðju.[1] Allur áhugi og framtakssemi í þessum málum er jákvæður og hann ber að lofa. Þetta vekur eflaust marga til umhugsunar um að Selfoss er hægt og bítandi að breytast úr sveitaþorpi í meðalstórt bæjarfélag og ekki sé fráleitt að fara að huga að heildarmynd bæjarfélagsins, sérstaklega þar sem tóm og rými gefst enn til slíkra hugleiðinga.
Í þessu ljósi er vert að gefa gaum að menningarlegu og sögulegu umhverfi staðarins og því hvernig hann hefur byggst upp. Það sem einkennir staðinn er fyrst og fremst flatlendi og landrými virðist nægilegt þegar horft er þangað. Fjöllin eru þó ekki langt í burtu og mynda fallegan sveig fyrir norðan.
Menning svæðisins er hefðbundin íslensk sveitamenning, sem hefur orðið fyrir áhrifum frá verslunarstaðnum Eyrarbakka og menningarstarfsemi tengdri Húsinu þar. Ungmannafélögin tóku upp þráðinn um það leyti sem áhrif Eyrarbakka tóku að dvína með öflugu starfi, aðallega á sviði íþrótta í seinni tíð, en einnig framan af á leiklistarsviðinu og sú hefð er sterk. Tónlist er áberandi og birtist hún aðallega í öflugri starfsemi kóra.
Hvað byggingarstíl varðar þá er Selfoss lítið frábrugðinn öðrum íslenskum bæjum hvað varðar útlit húsa. Þó eru komnar nýjar hugmyndir um byggingu torfhúsa í gömlum íslenskum stíl. Búið er að reisa eitt hús og fellur það afar vel bæði að umhverfinu og hönnun hússins lýsir smekkvísi og því hvernig hægt er að laga gamlar og sígildar hugmyndir að nýjum tíma. Þessi hefð er skammt undan bæði í tíma og rúmi. Skammt frá Selfossi í Meðalholtum í Gaulverjabæjarhreppi er líka gamall torfbær og rætt hefur verið um að koma þar upp miðstöð íslenska torfbæjarins.
Á Selfossi er einnig athyglisvert að hesthúsin eru nálægt byggðinni. Í mörgum tilfellum gat fólk ekki skilið við hestana sína þegar það flutti úr sveitunum til Selfoss. Og það var heldur engin ástæða til þess. Hestar, ásamt hundinum eru bestu vinir mannanna og það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað dýrin geta gefið, þó þau séu ekki lengur til brúks.
Ég er nokkuð á því að Selfyssingar af gamla skólanum séu sveitamenn inn við beinið. Ég meina þetta í jákvæðri merkingu og skal alveg viðurkenna það hér og nú að ég lít á mig sem sveitamann og ég skora á fleiri að koma út úr skápnum með það. Ég er sveitamaður og ég er stoltur af því. Ég bý á Selfossi. Ég vil að hinir sveitamennirnir hafi pláss fyrir hestana og hundana sína. Ég vil þeir geti farið í útreiðartúr án þess að leggja upp í langferð eða skeiða framhjá skýjakljúfum. Ég vil labba úti með hundana mína í flötu landslagi Flóans og hlusta á fuglasönginn í móanum. Ég er fæddur á flatlendi og mig logsvimar í loftköstulum. Mér finnst ekki gaman að horfa niður á fólk en hef þeim mun meira gaman af að hefja augun til fjallanna án þess að mikið beri á milli. Lyftur eru líka fráhrindandi, þær gefa frá sér póstmódernískt hviss auk þess sem maginn hefur upp raunsæislegt gagnrýnisgaul. Þó stiginn styrki þá mæðir að labba upp meira en fjórar hæðir. Gæludýr af stærri gerðinni og tónlistariðkun eru litin hornauga í háhýsum. Þegar risastór hús taka að eldast verða þau yfirleitt frekar óspennandi.
Athyglisverð er ný tillaga á Akureyri að byggja nýja verslanamiðstöð inn í brekku, setja á hana torfþak og láta hana þannig falla að landslaginu. Við þurfum meira af því hugarfari hérna sunnan heiða. Háhýsi munu aldrei falla inn í landslag Flóans. Sá byggingarmáti á þessu einu flatlendasta svæði landsins þar sem landrými er nægt er eins óviðeigandi og hægt er að hugsa sér.
Heimildir:
[1] http://ee.is/arborg/
Birtist fyrst 13.1.2007 á vefsetrinu http://www.vina.net/
Engin ummæli:
Skrifa ummæli