Færslur

2009-03-15

Tvær vísur eftir Símon Dalaskáld

Birtist áður í júní 2006 á vefsetrinu www.vina.net

Ömmubróðir minn Guðmundur Jónsson sem bjó mest alla sína ævi á Syðra-Velli í Gaulverjabæjarhreppi sagði mér frá því að Símon Dalaskáld hafi eitt sinn komið að Syðra-Velli. Það mun hafa verið á fyrsta áratug 20. aldarinnar. Ekki man ég hvort hann segði að Gvendur dúllari hafi verið með í för en ég man eftir vísu sem Guðmundur fór með og sagði að Dalaskáldið hefði skilið eftir. Hún er svona:

Jón á Völlum velbýr snjöllum huga.
Fimm á dætur fallegar
og fjóra mæta synina.

Dæturnar voru: Guðrún Júlía, Halla, Guðbjörg, Guðlaug og Rannveig. Synirnir voru Guðmundur, Sigmundur, Árni og Sigurður. Þau voru fædd fyrir eða um aldamótin 1900.

Aðra vísu orti Símon Dalaskáld um Guðrúnu Júlíu ömmusystur mína. Hún er svona:

Hefur lifað átján ár,
elsku vekur hlýja.
Heimasætan hrein og klár
hún Guðrún Júlía.

Júlía eins og hún var alltaf kölluð var fædd árið 1887. Þetta hefur því væntanlega verið ort árið 1905.

Engin ummæli: