Færslur

2009-02-28

Vorið

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Þennan vetur
hafa kaldir
vindar blásið
En í nótt
fann eg vorið
við vanga minn
þetta blíða vor
sem vakti upp ljóð
í blóði mínu


(1999)

2009-02-27

Til fjallkonunnar

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Fjallkona
Ég vakna og finn
heitar lindir
hjarta þíns
streyma til mín
og finn frið
í stríðandi heimi


(1998)

2009-02-26

Minning

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég lék mér að leggjum
við vegginn
þennan vordag
Það glymur í beislum
og hófatraðk heyrist
þegar höfðingjar
stíga af baki
við kotbæinn

Það er gengið með girðingum
gengið um heygarð
og húsin drjúpa höfði
í lotningu
fyrir úttektarmönnunum

Ég hlustaði hljóður
á klið vorsins
þetta kvöld(1989)

2009-02-25

Skammdegisdraumar

Eftir Arndísi Erlingsdóttur frá Galtastöðum í Flóa

Það er gæfa að dreyma um gleði og yl
meðan gustar um frostkalda jörð,
er í skammdegismyrkri og skafrenningsbyl
skefur umhverfis hæðir og börð.

Líta fegurð í vetrarins fannhvítu mjöll
er í frostperlum tindrandi skín,
þá í geislum frá vetrarsól glitrar hún öll
eins og gimsteina bylgjandi lín.

Þegar vindana lægir og veturinn flýr
verða meinlítil óveðraský,
strýkur hagana vinarhönd vorblærinn hlýr
vaknar jörðin og grænkar á ný.

(Ort rétt fyrir 1990).
(Hefur ekki verið sungið opinberlega.)

2009-02-24

Reiðhestur huldukonunnar og móbergshellirinn

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Vorið 1919 þegar foreldrar mínir hófu búskap í Kolsholtshelli var þeim sagt af fyrri ábúendum um ákvæði sem voru á jörðinni. Þau ákvæði voru tvenn. Í fyrsta lagi átti alltaf að vera auður bás í fjósinu. Móbergshellir er í túninu og dregur bærinn nafn sitt af þessum helli. Munnmæli voru að í hellishólnum væri bústaður huldufólks. Hellishólinn mátti að sögn slá en hey átti aldrei að hrekjast á hólnum. Síðari ákvæðin voru þau að húsfreyjan átti að fara í betri fötin þegar hey væri hirt af hólnum. Þetta gerði móðir mín og aldrei hraktist hey á hólnum á meðan foreldrar mínir voru við búskap.

Sumarið 1926 þegar ég fæddist var kaupakona hjá foreldrum mínum sem Þóra Pétursdóttir hét. Þegar hóllinn var sleginn þetta sumar kom norðan þurrkur. Faðir minn var á engjum fram eftir kvöldi og var að slá út í þurrkinn. Þóra fór þetta sama kvöld að snúa flekknum á hólnum. Um kvöldið þegar allir voru sofnaðir í baðstofunni kallar Þóra upp úr svefni: „Kristinn – Kristinn, taktu kerlinguna!" Faðir minn hét Guðmundur Kristinn og var alltaf kallaður síðara nafninu. Hann vakti Þóru og spurði hana hvað hana hefði verið að dreyma. Þóra sagði að sig hefði dreymt að hún sæti á heysátu á túninu. Til hennar hefði komið gustmikil kerling sem felldi hana af sátunni með þeim orðum að hún hefði vakið sig þegar hún var að snúa flekknum á hellishólnum. Kerlingin hefði spurt og sagt: „Sagði hann Kristinn þér að gera þetta?". Þóra sagðist hafa gert þetta óumbeðin. Nokkrum árum seinna þegar Þóra var komin til Reykjavíkur dreymir hana að til hennar kemur stúlka og spyr hvort hún þekki sig. Þóra kveðst ekki þekkja hana. Þá sagði konan: „Þú hlýtur að muna þegar þú vaktir hana mömmu" og bætti svo við: „Mér þykir vont hvað það er þröngt í fjósinu í Kolsholtshelli. Ég er að reyna að hafa reiðhestinn minn þar." Eins og ég gat um í upphafi var hafður auður bás í fjósinu. Þetta var besti básinn, hann var fyrir miðju fjósi og var alltaf kallaður „huldubásinn." Ég man aðeins eftir því að ég var króaður þar af á meðan verið var að mjólka.

Um 1934 var gamla fjósið í Kolsholtshelli rifið og nýtt fjós byggt á sama stað. Þessi sami bás var áfram fyrir miðju fjósi. Nú var prófað að láta kú á básinn og fyrir valinu varð besta kýrin sem foreldrar mínir áttu, kölluð Laufa. Þegar kýrin kom á básinn fór hún aðeins með framlappirnar upp á básinn og var með naumindum hægt að binda hana. Þetta gekk svona í viku að Laufa lagðist ekki í básinn. Strax og kúnum var hleypt út dag hvern, lagðist hún og beit liggjandi, færði sig svo til á túninu, lagðist og hélt áfram að bíta. Ég heyrði foreldra mína tala um þetta. Móðir mín sagði: „Ég skal reyna hvað ég get gert." Ég elti hana út í fjós. Hún gekk að básnum, krossaði yfir básinn mörgum sinnum og sagði: „Ef eitthvað er hér á básnum þá bið ég að það færi sig á betri stað." Faðir minn skar nýtt torf og tyrfði básinn að nýju. Um kvöldið voru kýrnar sóttar. Laufa þefaði um allt og fór svo sjálf upp á básinn eins og hinar kýrnar gerðu á sínum básum. Hún lagðist strax og búið var að mjólka hana. Eftir þetta varð aldrei vart við neitt óvenjulegt í fjósinu.
Þessi hellir hefur verið mannabústaður.

Öskuhaugur er sunnanvið um 20 metra frá hellisopinu og annar smáhaugur var líka norðan við en honum var ýtt í burtu þegar þýfið var gert að túni. Syðri öskuhaugurinn er um 5 meta breiður og 50 sentimetra þykkur. Á áttunda áratug síðustu aldar var grafið í hauginn af háskólastúdentum. Þegar komið var niður úr öskunni var móbergsmulningur því hellirinn hefur verið höggvinn að hluta, mulningurinn borinn upp og askan síðan sett ofan á. Inni í hellinum sjást axarförin vel í móberginu. Mulningurinn er fyrir neðan öskulag sem kallað er landnámsöskulagið svo líkur eru á að þarna hafi verið búið fyrir árið 871. Nánari lýsingu á Hellinum er að finna í bókinni „Manngerðir hellar á Suðurlandi". Aska úr uppgreftri stúdentanna var tekin og send í kolefnisrannsókn til Svíþjóðar en því miður var ekki tekið nógu stórt sýni til að niðurstaða fengist. Askan er til staðar ennþá og hægt að senda til frekari rannsókna. Aftur var grafið á 9. áratugnum af háskólafólki í tvær lautir sem talið var að væru niðurfallnir hellar. Í annarri lautinni var komið niður á fjóshaug og kúahár, í hinni lautinni var hey. Ég vil að lokum geta þess að hellirinn var notaður sem fjárhús um 20 ára tímabil fyrir um 30 ær á mæðiveikiárunum og aldrei drapst kind úr mæðiveiki hjá okkur. Í hellinum var þurrt og hlýtt og mæðiveikibakterían náði sér ekki á strik þar. Núna er hellirinn í Kolsholtshellistúninu friðlýstar fornminjar.

(2005)

2009-02-23

Sögur af kúm

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Krúna og Dimma
Gamalt máltæki segir að kýr séu nautheimskar. En það eru þær ekki. Eina kú kom ég með til Galtastaða frá Helli sem við kölluðum Krúnu. Daginn eftir að hún kom þangað stóð hún á bæjarhólnum mest allan daginn og öskraði svo til stanslaust þangað til Dísa fór til hennar, klappaði henni og strauk lengi. Við það róaðist hún og fór að bíta. Krúna var falleg kýr, rauðhuppótt með stóra hvíta stjörnu á enninu. Hún var nokkuð skapmikil. Seinna varð hún forystukýr í kúahópnum. Segja má að í kúahópnum sé ákveðin stéttaskipting. Ein kýrin hefur forystu, síðan kemur röð sem ákvarðast af þáttum á borð við stærð, þyngd, aldur eða skapgerð. Þetta sést þegar verið er að reka þær eða sækja í haga. Ef ungu kýrnar fara fram fyrir þær eldri þá eru þær líka stangaðar út af götunni. Ef ungar kvígur og kálfar fara inn í hópinn þá er þeim hent til hliðar. Þannig verður ungviðið síðast í röðinni.

Kýr geta verið minnugar. Einu sinni þegar Krúna var orðin gömul, beinaveik og átti vont með að ganga þá kom hún síðust út úr fjósinu. Ung kvíga beið eftir henni á veginum, réðist á hana og henti henni í fjósdæluna, sem var lítil og grunn tjörn við veginn skammt frá fjósinu. Þótti mér að unga kýrin færi illa með gömlu forystukúna. Tveim vikum seinna stillti Krúna sér upp þvert á veginn. Kýrnar löbbuðu allar fyrir framan hana en þegar kom að þessari sömu kvígu þá réðist Krúna á hana og henti henni út af veginum og í forina í fjósdælunni. Krúna stóð gleið, sigri hrósandi og var greinilega ánægð með hefndina.

Dimma var svört stór kýr undan Krúnu. Hún var forystukýr á Galtastöðum í 10 ár. Það var sérstakt við Dimmu hvað hún var nákvæm hvað tíma varðaði. Hún stóð alltaf upp sjálf um klukkan 6 á morgnana, labbaði heim og hópurinn á eftir henni. Á síðustu árum Dimmu þurfti ég sjaldan að sækja kýrnar á morgnana. Öll dýr geta sýnt gáfur en stundum vantar upp á skilning mannfólksins á þeim.

(2004)

2009-02-22

Geitasmalinn

Eftir Arndísi Erlingsdóttur frá Galtastöðum í Flóa

Í Týról þar sem tinda hylur snær,
í trjánna skjóli stendur fjalla bær,
og lítil kirkja ljós og turna fá,
með ljúfum hreimi klukkur hennar slá.

(klukknahringing).

Þar geitasmalinn gengur skógar stig,
og gamla flautu skilur ei við sig,
er tónar hennar titra í dalsins firrð,
með tærum hljómi rjúfa skógar kyrrð.

(flautuhljóð).

En glatt varð þar í geitakofans rann
er geitasmalinn lítinn kiðling fann,
og leit hans augna dimma djúpa hyl,
hve dásamlegt var þá að vera til.(1988)

2009-02-20

Til næturinnar

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Stjörnubjört nótt
leiftrandi
norðurljós
í mánaskini

Spor mín
í snjónum
sem hverfa

Dimma nótt
svart hár þitt
Blá augu þín
stjörnur
Tár þín regnið
sem féll á götu mína

Norðurljós
roðinn í kinnum þínum

Svala nótt
eg vakna
hjá þér
og heyri fljótið
leika lög
við bakka sína

Blærinn andar
á háls minn
og hlustar
hvar hjarta slær

Svartur fugl flýgur
frá hömrunum háu
Rykið það fýkur
af götunum gráu
Nótt þú ert horfin
með augun þín bláu(2003)

2009-02-19

Í Flatey

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Fagra ský
morgunroðans
fær hugur minn
far með þér
til Flateyjar

Þar sem Hannes og Gísli
féllu að fótum
Freysgoðs
og drukku
sem óðir væru
af Óðrera
og ljóð þeirra
runnu hratt
út í bláan
Breiðafjörðinn

þú fagra ský
morgunroðans
oft fær hugur minn
far með þér
til Flateyjar

(1987)

2009-02-17

Þessi mynd var tekin í Riftúni í október 2008 kveðjuveislu fyrir Nell Brandenburg sem var orgelleikari í kapellunni til margra ára.
Posted by Picasa

2009-02-15

Lóan

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Kveður lóa um kvöldin löng
kliðmjúk er í sinni
Gaman er að geta söng
gefið náttúrunni

Ef þú værir ein hjá mér
upp í himnasalnum
Gaman væri að gefa þér
gull úr heiðardalnum

(1985)

2009-02-13

Skýjaglópar

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Til okkar sem sjá
myndlausa skugga
af skýjum
svífa til jarðar
sjáum náttúruna öðruvísi

Búum til ljóð
um haf himin
vindinn ástina
svik dauða drauma
vöknum í morgunroðanum

Eigum samleið
stutta stund
einginn sá okkur koma
einginn fara
við erum skýjaglópar

(24.12.2005)

Til stjörnunnar

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Fegurð myrkursins
horfir til mín
af heiðum himni

Og þú litla
stjarnan mín
sem færist niður
á vesturhimni

Eg horfi á þig
einn í myrkrinu


(1984)

2009-02-12

Heilræði

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Þú situr við gluggann
og hlustar
Horfir á fegurð
og frelsið
En vert þú ei
fjötraður fangi
þíns hugar
þú finnur leið
til að gleyma


(1983)

2009-02-07

Morgunroði

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Svö fögur var blandan
af skýjum birtu og rökkri
að svanurinn fagri
flaug syngjandi
en gætti sín ekki
á rafstreng sem lá yfir flóðið

Saungurinn þagnar
hann örendur svífur
til jarðar

Gargandi vargar
um kvöldið
þeir gráðugir
rífa til hjartans

(1982)

2009-02-06

Hekla 1980

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Hekla miklar eru
þínar fæðingahríðir
að þriðja barninu
á þessari öld
En Krafla
hví verður þú
svo oft léttari
Hver er faðirinn

Og í þungri stunu
frá Heklu
heyrði ég svarið

Ómar Ragnarsson
flaug yfir


(1980)

2009-02-03

Sumarnóttin

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Ég geng út í
sumarnóttina
Bæirnir fljóta
í dalalæðunni

Og heim aftur
rek ég spor mín
í döggvotu grasinu

Því kýrin var borin
og krían vöknuð

Minning um heim
einnar nætur

(1979)

2009-02-02

Vordægrin ljósu (Farfuglinn)

Eftir Arndísi Erlingsdóttur frá Galtastöðum í Flóa

Vordægrin ljósu.
Vorið kemur ætíð sunnan yfir sæ.
Sóley varpann litar þá hjá hverjum bæ.
Vaknar allt sem vetrarkuldi lagði í dá.
Veröld okkar ljómar blá, svo himinblá.
Kæri vinur komdu þá til mín,
komdu þegar júní sólin skín,
vertu alltaf velkominn hjá mér,
vordægrin ljósu
syng ég og fagna með þér.

(Ort um 1980-)
Þessi texti hefur verið sunginn af kirkjukórum Gaulverjabæjar og Stokkseyrarsókna.

2009-02-01

Vindurinn hvíslar

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég hvísla
ljóði að
vindinum
og vindurinn
strýkur
hár þitt
og hvíslar
að þér
ljóði sem
gleymist


(2004)