Færslur

2009-02-25

Skammdegisdraumar

Eftir Arndísi Erlingsdóttur frá Galtastöðum í Flóa

Það er gæfa að dreyma um gleði og yl
meðan gustar um frostkalda jörð,
er í skammdegismyrkri og skafrenningsbyl
skefur umhverfis hæðir og börð.

Líta fegurð í vetrarins fannhvítu mjöll
er í frostperlum tindrandi skín,
þá í geislum frá vetrarsól glitrar hún öll
eins og gimsteina bylgjandi lín.

Þegar vindana lægir og veturinn flýr
verða meinlítil óveðraský,
strýkur hagana vinarhönd vorblærinn hlýr
vaknar jörðin og grænkar á ný.

(Ort rétt fyrir 1990).
(Hefur ekki verið sungið opinberlega.)

Engin ummæli: