Færslur

2009-02-23

Sögur af kúm

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Krúna og Dimma
Gamalt máltæki segir að kýr séu nautheimskar. En það eru þær ekki. Eina kú kom ég með til Galtastaða frá Helli sem við kölluðum Krúnu. Daginn eftir að hún kom þangað stóð hún á bæjarhólnum mest allan daginn og öskraði svo til stanslaust þangað til Dísa fór til hennar, klappaði henni og strauk lengi. Við það róaðist hún og fór að bíta. Krúna var falleg kýr, rauðhuppótt með stóra hvíta stjörnu á enninu. Hún var nokkuð skapmikil. Seinna varð hún forystukýr í kúahópnum. Segja má að í kúahópnum sé ákveðin stéttaskipting. Ein kýrin hefur forystu, síðan kemur röð sem ákvarðast af þáttum á borð við stærð, þyngd, aldur eða skapgerð. Þetta sést þegar verið er að reka þær eða sækja í haga. Ef ungu kýrnar fara fram fyrir þær eldri þá eru þær líka stangaðar út af götunni. Ef ungar kvígur og kálfar fara inn í hópinn þá er þeim hent til hliðar. Þannig verður ungviðið síðast í röðinni.

Kýr geta verið minnugar. Einu sinni þegar Krúna var orðin gömul, beinaveik og átti vont með að ganga þá kom hún síðust út úr fjósinu. Ung kvíga beið eftir henni á veginum, réðist á hana og henti henni í fjósdæluna, sem var lítil og grunn tjörn við veginn skammt frá fjósinu. Þótti mér að unga kýrin færi illa með gömlu forystukúna. Tveim vikum seinna stillti Krúna sér upp þvert á veginn. Kýrnar löbbuðu allar fyrir framan hana en þegar kom að þessari sömu kvígu þá réðist Krúna á hana og henti henni út af veginum og í forina í fjósdælunni. Krúna stóð gleið, sigri hrósandi og var greinilega ánægð með hefndina.

Dimma var svört stór kýr undan Krúnu. Hún var forystukýr á Galtastöðum í 10 ár. Það var sérstakt við Dimmu hvað hún var nákvæm hvað tíma varðaði. Hún stóð alltaf upp sjálf um klukkan 6 á morgnana, labbaði heim og hópurinn á eftir henni. Á síðustu árum Dimmu þurfti ég sjaldan að sækja kýrnar á morgnana. Öll dýr geta sýnt gáfur en stundum vantar upp á skilning mannfólksins á þeim.

(2004)

Engin ummæli: