Færslur

2009-03-07

Sögur af hröfnum

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Sagt er að Hrafna Flóki hafi haft með sér þrjá hrafna þegar hann flutti til Íslands. Svo mikið er víst að hrafninn hefur fylgt bæði landi og þjóð allt fram á þennan dag. Skáldin hafa búið til ljóð um krumma. Sögur um hann eru til og sagt er að hann viti sínu viti og geti sagt fyrir um framtíðina. Ég ætla að bæta við einni slíkri.

Jarðskjálftaárið 1896 voru ferðamenn úr Rangárvallasýslu á leið úr Reykjavík austur um. Venja var að tjalda í ákveðinni laut undir Ingólfsfjalli. Þegar þeir voru búnir að tjalda í þetta skiptið komu hrafnar úr fjallinu. Þeir settust á tjöldin, görguðu mikið og létu öllum illum látum. Ferðamennirnir sáu fram á það að þeim myndi ekki verða svefnsamt við svo búið. Þeir tóku upp tjöldin og færðu sig austur að Ölfusá og tjölduðu þar. Um nóttina reið jarðskjálftinn mikli yfir, skriða kom úr fjallinu og lautin sem þeir höfðu tjaldað í áður fylltist af grjóti. Trúlega hefðu þeir farist ef hrafnarnir hefðu ekki rekið þá burt úr lautinni. Heimildarmaður minn að þessari sögu var Rangæingurinn Sigurður Sigurðarson fæddur árið 1900 á bænum Eystri Klasbarða í Vestur Landeyjum, síðast til heimilis að Kirkjuvegi 37 á Selfossi.

Krummi er skemmtilegur fugl. Ég gaf honum alltaf matarleifar á meðan ég var bóndi á Galtastöðum. Hrafnarnir komu alltaf á sama tíma, um hálf ellefu eða í birtingu og þeir voru nokkrir saman. Einu sinni um sumar var ég úti á túni að slá. Komu þá hrafnar, settust í beitilandið, flugu svo upp og settust á fjárhúsið, flugu aftur í beitilandið og svo aftur upp á fjárhúsin. Mér datt í hug að nú væru hrafnarnir að láta mig vita um eitthvað. Ég fór út í beitilandið þar sem þeir sátu og þar var kind í afveltu sem hefði drepist ef hrafnarnir hefðu ekki vakið athygli mína á henni.

Enn gef ég hröfnum matarleifar. Ég kaupi kjöt á haustin, sker fituna af og geymi í frysti. Hendi svo fitunni út í garð um fimm metra frá stofuglugganum. Hrafnarnir koma nokkrir saman, sitja fyrst á trjánum og fara svo niður til skiptis til að sækja bita.

Brynjólfur Guðmundsson skráði 2005.

Engin ummæli: