Færslur

2009-03-09

Þuríður og Kambsránið - um sýningu Leikfélags Selfoss

Þetta er endurbirt grein sem birtist fyrst í mars 2006 á vefsetrinu www.vina.net


Föstudagskvöldið 17. mars sl. fór ég í leikhúsið við Sigtún á Selfossi og sá uppfærslu Leikfélags Selfoss á verkinu „Þuríður og Kambsránið" eftir Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson, en það er byggt á sögu Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi. Leikstjóri er Jón St. Kristjánsson.


Þær sýningar í leikhúsinu við Sigtún sem ég hef farið á eru allar eftirminnilegar og þessi er engin undantekning. Gamla Iðnskólanum á Selfossi var breytt í leikhús með sal sem rúmar á að giska 100 manns í sæti. Á viðarþiljuðum veggjum hanga myndir sem tengjast þeim verkum sem Leikfélagið hefur sýnt í gegnum tíðina. Leikhúsgestir skrá sig í gestabók í litlu anddyri. Miðasalan er ekki bakvið lúgu heldur skrifborð þegar inn er komið. Það er eitthvað við þessi gömlu og þröngu leikhús sem heillar. Eitthvað persónulegt innilegt og nálægt. Svipuð tilfinning og ég fann alltaf fyrir í Iðnó, gamla leikhúsinu við Tjörnina í Reykjavík, nema hér er hún sterkari. Nálægð Ölfusár spillir ekki fyrir, sem og nálægð kaffi Krúsar en leikhúsið stendur handan við árgötuna skammt frá ánni en líka steinsnar frá Austurveginum. Leiksýningar leikfélagsins síðustu ár hafa allar verið farsælar að því er ég best veit. Það má leika sér að þeirri hugsun að þessi fallegi rammi eigi sinn þátt í þeirri velgengni án þess að gert sé lítið úr því sem á fjölunum hefur birst, það hefur staðið fyrir sínu.Varla fyrirfinnst sá maður á þessum slóðum sem ekki þekkir sögu ránsins í Kambi en rétt er að kynna þetta aðeins fyrir ókunnugum.
Leikritið er byggt á sögu fræðimannsins Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi af sögunni af Þuríði formanni og Kambránsmönnum sem kom fyrst út 1893. Sú saga byggir á munnlegum heimildum og frásögnum af því þegar fjórir grímuklæddir menn brutust inn í bæinn í Kambi í Villingaholtshreppi aðfaranótt 9. febrúar 1827, bundu bóndann og heimilisfólk og rændu umtalsverðum fjármunum. Í kjölfarið fylgdi ein fyrsta nútímalega lögreglurannsókn hérlendis sem framkvæmd var af Þórði Sveinbjörnssyni sýslumanni Árnesinga. Það var ekki síst fyrir atbeina og aðstoð kjarnakonu nokkurrar á Stokkseyri sem aldrei er nefnd annað hér um slóðir en Þuríður formaður sem málið leystist. Þuríður þessi var sérstök og eftirminnileg persóna því hún var formaður á báti frá Stokkseyri og klæddist karlmannsfötum, en hvorutveggja var mjög óvenjulegt ef ekki óþekkt á þessum tíma og í frásögur færandi. Þess má geta að sjóbúð Þuríðar, svokölluð Þuríðarbúð er enn til sýnis á Stokkseyri. Þuríði var enda málið nokkuð nákomið því það voru menn úr áhöfn hennar sem áttu þar hlut að máli. Ránsmennirnir fjórir voru allir dæmdir í betrunarhúsvist og fóru utan, en tveir þeirra áttu afturkvæmt eftir 14 ára dvöl í refsivist í Danmörku. Hinir tveir létust í varðhaldinu og herma sagnir að annar þeirra, Sigurður Gottsvinsson sem var forsprakki hópsins hafi verið tekinn af lífi í kjölfar þess að hann réðist að fangaverði.


Við Flóamenn erum heppnir að eiga Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson að. Hann hefur tekið drjúgan þátt í starfi Leikfélagsins, bæði leikið og samið í fjölda ára. Hann hefur áður skrifað tvö leikrit í fullri lengd og öðru þeirra „Á Suðurlandsvaktinni" leikstýrði Jón Stefán einmitt á sviðinu í Sigtúni. Ekki er ég í nokkrum vafa að þessu leikriti verður vel tekið og það á eftir að vekja athygli hér í Flóanum því saga Kambsránsins snertir marga hér um slóðir enn í dag. Bekkirnir voru líka fullsetnir þetta kvöld og greinilegt var að gestirnir nutu sýningarinnar. Einhverja tilfinningu hafði ég þó að það hefði ekki verið létt verk að búa til leikhúsdrama úr sögu Brynjólfs en Sigurgeir fer þá leiðina að velja nokkur markverð atvik í tímaröð atburðanna í sögunni auk þess sem hann skáldar í eyðurnar og býr til nokkrar eftirminnilegar aukapersónur. Útkoman er nokkurs konar harmrænn gleðileikur, þar sem söguefnið og örlög aðalpersónanna eru í eðli sínu dapurleg en líflegar aukapersónur krydda verkið svo oft mátti heyra hlátrasköll og klapp. Þessi leið er líklega nokkuð íslensk því mig minnir t.d. að í Skugga-Sveini sé aukahlutverk grasakonunnar Grasa-Guddu sem er eitt af þeim eftirminnilegri. Hér er það ekki síst húskona Þuríðar „Engla Imba" sem Hrefna Clausen túlkar af mikilli innlifun sem er eftirminnileg og uppsker því bæði klapp og hlátur. Óhætt er að segja að Hrefna fari á kostum í þessu hlutverki. Greinilegt er að Sigurgeir gefur boltann nokkuð listilega upp í þessari kómísku persónu, sem og í hlutverki Sr. Jakobs í Gaulverjabæ sem Davíð Kristjánsson nær einnig að gera eftirminnilegan með sinni listatúlkun þó persóna Sr. Jakobs sé líkleg ívið minni umfangs en Engla Imba. Sama má segja um hlutverk Ara sem Eyjólfur Pálmarsson túlkar á sinn einstaka hátt og nær að persónugera vel og sannfærandi þó hlutverk Ara virðist minna en hinna tveggja. Ekki má heldur gleyma Jóni blinda sem Hermann Dan Másson leikur. Aðrir leikarar í aukahlutverkum stóðu sig með prýði og greinilegt er að leikstjórinn hefur náð að skila góðu verki í leikstjórninni.


Þegar horft er á forsendur verksins þá hlýtur sú ákvörðun leikstjórans að setja þessa reyndu áhugaleikara í vel krydduð aukahlutverk að vera rétt og hún virðist ganga alveg upp. Hann hefur gert sér grein fyrir því að persónur Þuríðar sem og Sigurðar byðu ekki upp á of mikið grín, því þau eru máttarstólpar hins harmræna söguþráðs. Þau Hilda Pálmadóttir og Rúnar Hjálmarsson gera þessum persónum prýðileg skil með skýrri framsögn sinni og lipurri sviðsframkomu. Persóna Þuríðar er líka vel mótuð og djúp af hendi höfundarins. Persóna Sigurðar hefur væntanlega verið höfundinum ívið þyngri í skauti en þeir þættir sem móta hann eru þó sannfærandi. Aðrar aukapersónur eru á mörkum hins harmræna og kómíska en það eru helst persóna sýslumannsins Þórðar Sveinbjörnssonar og Jónsen umboðsmanns sem Erlingur Brynjólfsson og Bjarni Stefánsson leika. Bjarni er greinilega vanur leikari og litar Jónsen skemmtilega. Erlingur ljær persónu Þórðar sýslumanns sannfærandi lit.


Leikmynd verksins er einföld, allt að því Shakespearesk í minimalisma sínum en hún þjónar sínum tilgangi og það er skynsamlegt hjá áhugaleikfélagi að fara þessa leið. Lýsing, hljóð og stjórn þess var leyst vel af hendi, féll vel að söguþræðinum og þjónaði vel því því hlutverki sínu að varpa ljósi á persónur verksins, sérstaklega persónurnar tvær, Sigurð og Þuríði. Búningar voru ágætir og greinilegt að metnaður hefur verði lagður í þá. Leikskráin er vönduð og inniheldur auk venjulegra atriða tímarás Kambránsins, fróðlegan pistil Bjarna Harðarsonar um sögu Brynjólfs af Kambsráninu auk viðtals Sigurðar Jónssonar við höfund verksins. Það er því ástæða til að hvetja alla Flóamenn, sem og Hreppa og uppsveitamenn, jafnvel Höfuðborgarbúa eða fólk úr öðrum sýslum sem þekkir til sögunnar, sem og öllum þeim sem unna alíslenskri leiklist að bregða sér á Selfoss og sjá þessa metnaðarfullu sýningu hjá Leikfélagi Selfoss.


RGB/Heimild:
"Þuríður og Kambsránið", Leikskrá. Útg. Leikfélag Selfoss. 10. mars 2006.

Engin ummæli: