Eftir Brynjólf Guðmundsson fyrrum bónda á Galtastöðum í Flóa
10. maí 1940 var tímamótadagur á Íslandi. Þá hernámu Bretar Ísland. Þeir tóku fyrst staði sem þeir töldu mikilvæga, þar á meðal Kaldaðarnes í Flóa því þar á bökkum Ölfusár var hægt að lenda flugvélum. Þeir geru fljótlega nothæfan flugvöll sem var mikið notaður sem æfingaflugvöllur.
Bretar auglýstu hættusvæði á Loftsstaðasandi niðri við sjóinn. Þar köstuðu þeir niður sprengjum dag eftir dag þegar veður leyfði. Flugvélar Bretanna tóku alltaf sveig upp á landið til að hækka flugið og steyptu sér svo niður að skotmarkinu sem var á sandinum. Einu sinni þegar þeir voru að hækka flugið misstu þeir niður sprengju sem lenti nálægt kúahjörð á Galtastöðum. Kýrnar stukku í allar áttir með halana upp í loftið. Fólkið var við heyskap þar skammt frá og var mildi að ekki hlaust slys af. Daginn eftir komu Bretar að skoða staðinn þar sem sprengjan lenti.
Jón Jónsson bóndi á Loftsstöðum átti trillubát á sandinum sem Bretar gerðu að skotmarki. Báturinn var allur sundurskotinn. Magnús Öfjörð sem þá var hreppstjóri í Gaulverjabæjarhreppi kærði þetta til sýslumannsins á Selfossi. Yfirmaður úr hernum kom að Gaulverjarbæ. Magnús fór með honum niður á sand að skoða bátinn. Þeir fóru að Loftsstöðum, hittu Jón og hann fór með þeim að skoða bátinn. Þegar þeir voru á leið þangað komu flugvél og fór að skjóta á bátinn. Magnús og hermaðurinn lögðust niður og kölluðu í Jón að gera hið sama. Jón sinnti því engu og gekk hiklaust áfram eins og ekkert væri. Flugmaðurinn hefur séð þá og hætti að skjóta á meðan þeir voru á sandinum. Þetta var síðasti bátur sem róið var frá Loftstaðasandi.
Seinnipart árs 1940 fóru þýskar flugvélar að koma upp að landinu. Í byrjun árs 1941 fóru þær að koma lengra með auknum bensínbirgðum. Auglýst var að þeir sem sæju þýskar vélar ættu að leggjast niður því þær væru á lágflugi þegar þær kæmu og af þeim gæti stafað hætta.
9. febrúar 1941 var bjart og gott veður. Þá var ég staddur á holtinu fyrir norðan Kolsholt að sækja hesta sem þangað höfðu farið. Þá sá ég flugvél í lágflugi koma úr suðri yfir Syðri Sýrlæk og stefna beint þangað sem ég var staddur. Ég fór að fyrirmælunum og lagðist niður milli hárra þúfna. Flugvélin flaug mjög lágt. Þetta var þýsk vél með hakakross á stélinu. Hún var svo nærri að ég sá flugmanninn vel. Smá gluggi hringlaga var aftur við stél og þar sat maður. Báðir voru þessir menn með stálhjálma en ekki skinnhúfur eins og sagt er frá í annarri frásögn. Frá mínum sjónarhóli séð flaug vélin beint í stefnu á Selfoss. Ég heyrði skothríð þegar hún skaut á varðstöð Breta við Ölfusárbrú. Vélin hækkaði síðan flugið og flaug vestur í mikilli hæð. Sagt er að hún hafi flogið yfir Reykjavík en mér fannst hún ekki lengi utan sjónsviðs. Ég sá hana vel þegar hún kom aftur úr þeirri ferð. Hún lækkaði flugið yfir Kaldaðarnesi og þá heyrði ég aftur skothríð. Að því búnu flaug vélin með ströndinni og var alltaf að hækka flugið. Síðast sá ég til hennar yfir Vestmannaeyjum. Þá fyrst sá ég tvær breskar flugvélar koma á eftir henni. Þær voru á móts við Stokkseyri og náðu aldrei til þeirrar þýsku. Í öðrum frásögnum er ekki minnst á þessar tvær vélar sem eltu. Þegar Bandaríkjamenn tóku að sér varnir Íslands voru alltaf tvær vélar í gangi úti á flugvelli til að fljótara væri að koma vélum á loft þegar þýskar vélar kæmu.
Skipalestir á leið til Rússlands fóru oft fyrir sunnan land og sigldu eins nærri landi og hægt var. Oft heyrðust sprengingar frá hafinu en mesta sprengingin sem ég heyrði var þegar stærsta herskipi Breta, Hood var sökkt úti af Reykjanesi. Þetta var mjög þung sprenging og mér fannst ég finna loftþrýstingsbylgju þó að fjarlægðin væri mikil.
Á stríðsárunum var útvarpað á íslensku frá Berlín einu sinni í viku í fimm mínútur í senn. Þessar sendingar voru á stuttbylgju og þær náðust yfirleitt ekki á útvörp sem seld voru á þessum tíma því stuttbylgjur voru teknar úr útvarpstækjunum. Í Kolsholtshelli áttum við gamalt þýskt Telefunken útvarpstæki með stuttbylgjum. Við settum upp loftnet af brekkubrúninni fyrir ofan bæinn, um 30 metra langt og yfir í íbúðarhúsið. Við hlustuðum á þessar útsendingar Þjóðverja því þær voru á íslensku. Það var minnst á þessar sendingar í blöðunum og við fundum þær. Íslendingur var þulur en hver hann var vissum við ekki. Framan af stríðsárunum var þetta lof um yfirburði þýska hersins. Einu sinni man ég eftir því að hann sagði að þýskar flugvélar væru „sprengfimari" en þær bresku. Tvö síðustu stríðsárin var þessum sendingum hætt. Nú er þetta gamla þýska Telefunken útvarpstæki á byggðasafninu á Flúðum.
Júní 2005.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli