Færslur

2009-04-05

Sögur af hestum

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Jarpur
Jarpan hest áttum við í Helli, mjög duglegan, skapmikinn og viljugan. Hann var taminn fyrir vagn og sláttuvél. Við strákarnir töluðum um að láta þá keppa, Kol og Jarp en við létum þá aldrei gera það því við vissum að báðir vildu verða fyrstir.
Oft lét ég Jarp draga sleðann í mjólkurflutningum, þá fékk hann stundum að ráða á heimleiðinni því mér þótti mjög gaman að fara hratt yfir hjarnið. Tvisvar fór ég í fjallferð og var þá með Jarp og Grána. Einu sinni á fjalli komum við seinni part dags með safnið úr Skaftholtsréttum í Skeiðaréttir. Þrír fóru í Hrunaréttir til að sækja Skeiða- og Flóafé. Þegar við komum í Skeiðaréttir fengum við þær fréttir að það væri svo margt fé úr Hrunaréttum að þeir réðu ekki við það þrír. Voru þá 5 eða 6 sendir þeim til aðstoðar. Ég var einn þeirra og fór á Jarp. Þegar við vorum staddir við Sandlæk kom Högni í Laxárdal á eftir okkur. Hann hafði verið með okkur á fjalli. Hann var á rauðum fallegum hesti, viljugum. Hann fór hratt yfir á hröðu brokki og fór fram úr öllum, en við Jarpur vorum fremstir. Högni ætlaði fram úr okkur líka. Ég gaf Jarp lausan tauminn en hann gat farið mjög hratt á brokki án þess að hlaupa upp. Við Högni vorum hlið við hlið, en alltaf var Jarpur hálslengd á undan. Við fórum hratt upp alla Sandlækjarmýri yfir Laxárbrú, en í brekkunni við Hólakot fór hestur Högna að dragast aftur úr. Þá kallaði Högni til mín og sagði: „Heyrðu Brynjólfur, eigum við ekki að stoppa, við erum orðnir svo langt á undan." Ég sagði það sjálfsagt. Þegar Högni fór af baki sagði hann: „Það er ekki hægt að segja að Flóamenn séu allir illa ríðandi."
Jarpur var fljótur að hlaupa og aldrei sá ég hest sem hafði við honum. Eitt sumarkvöld var unga fólkið úr Kolsholtshverfinu að fara á íþróttaæfingu út við Hróarsholtskletta. Allir voru á hestum. Það hafði rignt um daginn og allar götur blautar. Ég var á Jarp og var með þeim fremstu. Þá kom Magnús í Flögu á fjörugum hesti og fór mikinn. Hann fór fram úr öllum en þegar kom að okkur tók Jarpur kipp og ég réði ekkert við hann. Magnús var skammt á eftir og fékk drulluna yfir sig. Ég reyndi eins og ég gat að stoppa Jarp en án árangurs. Við stoppuðum ekki fyrr en heima á hlaði í Flögu. Þegar við fórum af baki var Magnús mjög drullugur í framan. Ég sagði við Magnús: „Fyrirgefðu, ég réði ekkert við hestinn." Hann sagði: „Ég réði ekkert við minn heldur."
Venja var að fara með hryssur í stóðhestagirðinguna í Yrpuholti. Stundum voru margir í hóp og var oft farið hratt yfir. Kvöld eitt var ég með í för þegar nokkuð stór hópur var á leið í girðinguna. Við áttum um einn kílómetra ófarinn að hliðinu. Þá bar þar að Sigurð í Kolsholti á bleikri hryssu sem hafði orðið fyrst á kappreiðum Sleipnis við Hróarsholtskletta helgina áður. Hann hleypti henni fram úr öllum. Þegar Sigurð bar að tók Jarpur mjög snöggan kipp og var á undan síðasta hálfa kílómetrann eða svo. Nokkrir menn voru komnir að hliðinu og þar á meðal Gestur í Hróarsholti. Þegar við stoppuðum gekk Gestur í hring um Bleiku hryssuna hjá Sigurði og sagði: „Er þetta ekki hryssan frá Haugi sem var fyrst í kappreiðunum?" „Það er rétt." Mælti Sigurður. „Hún hefur ekki við vagnhestinum frá Helli!" „Ég ætlaði ekki framúr," sagði Sigurður þá. „Við sáum allir að þú ætlaðir framúr" sagði þá Gestur. Þennan hest tamdi ég með aðferð Jóns í Vatnsholti.



Blesa
Þegar ég kom að Galtastöðum 1956 var þar rauðstjörnótt hryssa með rauðblesótt folald. Þessi hross voru komin af hrossum sem Guðmundur Ófeigsson og Erlingur Guðmundsson höfðu komið með frá Fjalli á Skeiðum. Sú blesótta var kölluð Blesa. Þegar hún var veturgamalt tryppi lenti hún á flækingi. Hún fór upp í Vorsabæjarhverfi og sama dag komst þangað hrossahópur úr Gegnishólahverfinu. Þangað var Blesa rekin með þeim hóp. Ég sá hana ekki meira þetta sumar. Um haustið sótti ég hana út að Bræðratungu í Stokkseyrarhreppi. Ég fór með gamla skjótta meri, Skjónu til að reka með henni. Við pípuhliðið í Holti stoppaði Skjóna, þefaði af því og gekk svo yfir á bitunum sem voru undir pípunum. Ég gat ekki stoppað hana því ég rak þær á undan. Blesa fór á eftir en annar afturfótur Blesu fór milli rimlanna. Hún féll niður og var föst. Þarna lá hún hreyfingarlaus. Ef hún hefði hreyft sig eitthvað þá hefði afturfóturinn brotnað. Ég flýtti mér heim að Holti, en spurning var hvort Blesa myndi liggja kyrr. Þeir Holtsbræður voru fljótir að koma, tóku með sér járnkarl og okkur tókst að rífa upp tvær pípur. Þegar þær voru lausar stóð Blesa upp, hljóp af stað og sá ekkert á henni.
Eftir þetta sumar fór Blesa alltaf á flakk. Það hélt henni engin tveggja eða þriggja strengja girðing. Hún stakk hausnum milli strengja og fór svo rólega í gegn. Þar sem girðingar lágu að lækjum eða flóðum þá óð hún bara fyrir endann. Tvö ár sótti ég hana að Litlu-Sandvík, eitt haustið að Hróarsholti. Sumarið eftir hvarf hún og ég vissi ekki fremur venju hvar hún var. Hrossaréttir voru afstaðnar og ekki kom Blesa fram. En seint í nóvember stóð hún einn morgun á bæjarhólnum. Daginn eftir gerði snjókomu með roki og frosti. Einn nágranni minn kallaði hana „vitlausu merina", en ég sagði að hún væri ekki vitlaus heldur gáfuð. „Kallarðu þetta gáfur – þessa óþægð?!" var spurt.
Þegar Blesa var orðin leiðitöm fór Ragnar á bak henni og reið henni eins og hún væri tamin fram og aftur um veginn. Þannig voru öll hross af þessu kyni, ljúf, góð og aldrei nein vandamál að temja þau. Ekki óþæg – heldur gáfuð.



Sprengja
Brúnskjótta hryssu kom ég með frá Helli að Galtastöðum. Hún var hálfsystir Jarps. Hún var ekki mikið tamin en þæg og viljug. Hún var með brúnt folald sem var hryssa undan Gáska frá Hrafnkelsstöðum sem var af Hornafjarðarkyni. Rétt eftir að ég kom með þessi hross að Galtastöðum flækti folaldið sig í gaddavír sem ég varð að klippa af henni. Hún fékk djúpan skurð frá snoppu, niður hálsinn og alla leið niður á hóf hægra megin. Ég smurði skurðinn með júgursmyrsli. Þetta var lengi að gróa en það greri vel. Eftir þetta var hún hrædd við vír alla sína ævi.
Ég byrjaði strax að temja hana. Þegar hrossin voru komin í hús strauk ég henni, tók upp á henni fæturna, klappaði henni og notaði aðferð Jóns í Vatnsholti við að róa hana. Þetta gerði ég frá því hún var folald. Ég varð alltaf að reka hrossin inn í hesthús til að ná í hana. Hún var mjög hrædd við vír og alla strengi. Ég lagði snæri á veginn og þó að öll hrossin hlypu yfir snærið þá gerði hún það ekki. Ég lagði snæri að hesthúsdyrunum og þá fór hún oft ein inn en hin hrossin hlupu yfir snærið. Ég fór ekki á bak henni inni í hesthúsi fyrr en hún var 5 vetra. Hún var lengi að róast og tamningin tók langan tíma. Ég fór ekki á bak henni úti fyrr en eftir langan tíma því þar var hún stygg. Hún sneri sér alltaf í hringi þegar ég fór á bak henni. Ég lofaði henni að snúast þangað til hún stoppaði, þá beið hún róleg þangað til ég var búinn að ná ístaðinu hinu megin en þá rauk hún af stað. Svo viljug var hún að ég réði varla við hana. Hún var oft æst og gaf frá sér soghljóð með nösunum sem ég heyrði aldrei frá nokkrum hesti. Af því hlaut hún nafnið Sprengja. Hún var stór, vel vaxin og falleg. Það kom enginn á bak henni nema ég og Erlingur. Nokkrum sinnum reiddi ég Ragnar fyrir framan mig bæjarleið. Til að ná honum á bak fór hann upp á brúsapallinn og fór á bak fyrir framan mig og hafði mikið gaman af. Þegar við komum aftur fór hann af baki á brúsapallinum.
Einu sinni mætti ég Jóni Pálssyni dýralækni á veginum. Hann stoppaði bílinn, kom út, skoðaði hana vel og vandlega, strauk henni, tók upp fæturna og sagði loks: „Viltu ekki selja mér þennan gæðing?" Ég sagði, það er til eitt orð yfir það: „Nei".
Sprengja varð því miður ekki gömul. Einn þurrkdag á miðju sumri fór ég fyrir hádegi upp að Selfossi. Þegar ég kom heim stóð Sprengja við hliðið upp í Dælur. Við vorum að keyra heim hey allan daginn. Þegar strákarnir fóru að sækja kýrnar sneru þeir við og komu hlaupandi til mín norður á tún og sögðu: „Hún Sprengja liggur dauð við hliðið." Hún var þá aðeins 15 vetra. Við grófum hana í hólinn fyrir norðan hliðið. Ég kallaði hólinn eftir það Sprengjuhól.
Eftir dauða Sprengju kom ég ekki mikið á hestbak. Mér fannst enginn hestur jafnast á við hana, átti ég þó alltaf hesta sem hægt var að koma á bak á meðan ég bjó í sveit.



(2004)

Engin ummæli: