Nú er busavígslum framhaldsskólanna lokið enn eitt árið. Segja má að ef finna eigi sameiginlegt þema allra busavígsluathafna þá sé það niðurlæging. Þó einhverjir segist skemmta sér [1] þá er vart hægt að horfa framhjá því að nýnemarnir eru uppnefndir, boðnir upp, látnir skríða, drekka ógeðsdrykki, ganga drullubraut, það er krotað á þá með litum, þeir eru klæddir í skringileg föt, látnir leysa þrautir, það er öskrað á þá, skvett vatni eða hveiti og eldri samnemendur þeirra upphefja sig á móti með því að tapa sér inn í einskonar yfirboðarahlutverk sem oftar en ekki tekur á sig mynd harðneskjulegrar drottnunar. Hér er ekki verið að tala um neinn sérstakan skóla. Það nægir að slá inn örfá leitarorð, lesa bloggsíður og skoða myndir. Af þessum heimildum er yfrið nóg á netinu um þessar mundir.
Mín eigin busavígsludagskrá byrjaði með hefðbundinni niðurlægingarræðu þar sem við nýnemarnir vorum ávarpaðir á frekar óvirðulegan hátt. Síðan hófst eltingarleikur þar sem eldri nemar eltu busana uppi og handsömuðu þá. Að því búnu vorum við borin út í Laugarvatn, vatni var ausið yfir okkur og einhver orð borin fram. Loks var okkur hent í vatnið og þá var allt um garð gengið. Þetta var árið 1977. Þrátt fyrir bréf ráðuneytis [2] og góða viðleitni skólamanna til að hafa stjórn á málum [3] virðast athafnir þessar frekar hafa færst í aukana en hitt þegar horft er á langt tímabil. Leikrænir tilburðir hafa tilhneygingu til að aukast frá ári til árs og hættan á að einhverjir fari offari er alltaf nálæg. Skólamenn hafa gert það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr þessu en það er eins og tíðarandinn ráði samt alltaf ferðinni.
Af hverju hafnar nemendasamfélagið ekki ákveðið öllum tilburðum til opinberrar niðurlægingar nokkurs hóps eða einstaklinga, jafnvel þó heita eigi að um leik sé að ræða?
Birtist 20.11.2005 á http://www.vina.net/
[1] http://www.valdisbjork.com/archives/2004/09/busavigslur.html
[2] http://www.fsh.is/news.asp?ID=390&type=one&news_id=313&menuid=
[3] http://www.flensborg.is/maggi/moggagreinar/busabol.htm
Engin ummæli:
Skrifa ummæli