Færslur

2009-04-06

Sagan af Gormi

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Sagan af Gormi
Ég heiti Gormur og er köttur. Það fyrsta sem ég man var að mamma var að þvo mér. Næsta var að þegar ég þurfti að pissa þá kom stór hönd mannsins sem lét mig í sandkassa og hann sagði við mig: „Gormur þú átt að fara í sandkassann þegar þér er mál." Ég lærði það fljótt.
Næst gerðist það að tveir menn komu á bæinn þar sem ég fæddist. Ungi maðurinn tók mig upp, strauk mér. Hönd hans var mjúk og það var góð lykt af honum. Ég fór strax að mala. Ég heyrði manninn segja: „Ragnar, þú mátt eiga þennan kött. Hann er fljótur að læra. Ég er búinn að kenna honum á sandkassann, hann er mjög hreinlegur og fer alltaf þangað þegar hann þarf."
Mennirnir tveir fóru með mig inn í bíl. Þar var skrýtin lykt og ég var hræddur. Ragnar hélt á mér og strauk mér. Ég varð fljótt rólegur. Þegar ég kom á bæinn þeirra, Galtastaði. Á Galtastöðum bjuggu hjónin Brynjólfur og Arndís. Ég heyrði Ragnar son þeirra segja: „Sjáðu mamma, mér var gefinn köttur. Hann heitir Gormur." Á bænum var stór hundur sem ég var hræddur við. Hann urraði á mig og ég hvæsti á móti. Eftir nokkra daga var ég ekkert hræddur við hundinn. Ég nuddaði mér við löppina á honum, hann sleikti mig þegar ég blotnaði og við urðum fljótt góðir vinir. Hundurinn var með stóra og loðna rófu sem hann sveiflaði til og frá. Ég fékk hann til að leika við mig mér því að hoppa upp og klóra í rófuna á honum, þá hljóp hann alltaf á eftir mér. Mamma Ragnars kenndi mér að banka á hurðina. Ég átti að lyfta spjaldinu á bréfalúgunni með löppinni og sleppa. Þá kom smellur sem fólkið heyrði og mér var hleypt inn.


Ég var mjög forvitinn og var alltaf að skoða eitthvað. Einu sinni kom stór bíll á bæinn. Ég skreið undir hann og þaðan gat ég hoppað upp á vélina sem var volg. Á meðan ég var að skoða þetta fór bíllinn allt í einu í gang og rann af stað. Nú varð ég mjög hræddur, en ég hélt mér fast í slöngur og leiðslur sem þarna voru. Eftir nokkra stund stoppaði bíllinn og ég hljóp niður. Ég sá að ég var kominn á annan bæ. Þarna var svartur ljótur hundur sem urraði á mig. Ég hljóp inn í heyhlöðu og tróð mér niður í holu á milli heybagga. Hundurinn urraði og gelti en náði ekki í mig. Ég var í þessari holu í þrjár nætur og þrjá daga og fór aldrei upp. Það var komin mjög vond lykt í holuna því þar var enginn sandkassi. Fjórða daginn heyrði ég í tveimur mönnum. Annar þeirra var pabbi Ragnars. Hann fann holuna sem ég kúrði í og sagði: „Aumingja Gormur mikið ertu orðinn sóðalegur. Hann setti mig í plastpoka og fór heim. Mamma Ragnars setti vatn og sápu í bala, tók mig og baðaði vel og vandlega og þurrkaði mér svo. Því næst setti hún mig undir stigann hjá hundinum sem sleikti mig. Ég svaf rólegur hjá hundinum og alltaf eftir þetta svaf ég á þessum stað. Svo liðu dagar og vikur. Ég lék mér við hundinn og kenndi honum að hreyfa spjaldið þegar við þurftum að komast inn. Hann hreyfði það með nefinu. Ég var að verða stór köttur og allir voru góðir við mig.


Eitt kvöld í rigningu heyrði enginn þegar ég bankaði. Þá skreið ég undir bílinn og upp á vélina og sofnaði. Allt í einu fór bíllinn í gang og rann af stað. Ég læsti klónum í slöngurnar og gat haldið mér en mikið var ég hræddur. Eftir langan tíma stoppaði bíllinn. Þá hljóp ég niður og út í myrkrið. Ég var kominn á annan bæ sem ég þekkti ekkert og faldi mig undir járnplötum sem voru þarna. Á þessum bæ var ég í marga daga. Ég var oft svangur og mér var kalt. Ég svaf undir járninu og lærði að finna mér í svanginn úr heyi sem hent var fyrir hestana á bænum. Þar voru græn sver strá og mjölkögglar. Ég náði líka í fugla sem settust í moðið til að tína korn og mýs sem skutust um þar. Ég rataði ekki heim á bæinn minn en langaði mikið þangað og ákvað því að leita að honum. Ég fór bæ frá bæ í marga daga og vikur og át úr moði sem var hent fyrir hestana á bæjunum og varð alltaf að fela mig fyrir hundunum á bæjunum. Einu sinni þegar ég var að fara milli bæja var ég hætt kominn. Ég labbaði út á ísi lagt vatn, en það geri ég sjaldan því köttum er illa við ís. Allt í einu heyrði ég smella í ísnum og hann rann af stað. Ég var kominn á ísjaka og vatn all í kring. Nokkra stund var ég á jakanum. Ég vildi ekki synda í land því vatnið var mjög kalt. Loksins rak jakann að einum bakkanum og ég flýtti mér upp á land. Þar fann ég hraunholu sem ég svaf í um nóttina. Um morguninn vaknaði ég við að eitthvert dýr með langan og mjóan haus kíkti inn og hvæsti. Ég urraði og hvæsti á móti. Næst þegar dýrið kíkti inn lamdi ég það með klónum beint á nefið svo blæddi úr. Þá hljóp það frá holunni. Ég var fljótur að hlaupa út í áttina að næsta bæ. Á þessum bæ var hundur og stór köttur. Þeir urruðu alltaf á mig þegar ég nálgaðist. Það var samt eitthvað þarna sem ég hafði séð áður og lyktina þekkti ég. Þetta var nefnilega bærinn sem ég fæddist á og þar sem mamma mín átti heima. En enginn þekkti mig þarna. Mig langaði mikið að hitta mömmu mína en alltaf þegar ég nálgaðist bæinn rak hundurinn mig í burtu. Ég var í nokkra daga nálægt þessum bæ en gafst svo upp og fór á næsta bæ. Þar var rólegur hundur sem skipti sér ekkert af mér. Ég skaust inn um opnar dyr inn í mjölgeymslu. Nóg var af mjölkögglum á gólfinu. Þarna leið mér vel, ég hafði nóg að éta og það var gott að sofa á bak við pokana. Eftir nokkra daga sá fólkið á bænum mig þegar ég labbaði um á hlaðinu. Ég heyrði mann segja: „Hver ætli eigi svona fallegan spakan kött?" Kona svaraði: „Ég man að það var auglýst í Dagskránni eftir svona ketti frá Galtastöðum. Þetta gæti verið hann. Það eru fjórir mánuðir síðan". Maðurinn sagði: „Ég fer í símann og tala við fólkið þar." Ekki leið langur tími þangað til bíll rann í hlað á bænum. Bílstjórinn fór inn í húsið svo kom fólk og sótti mig og lét mig upp á borð fyrir framan manninn. Ég sá undir eins að þetta var bóndinn á Galtastöðum þar sem ég átti heima. Hann þekkti mig ekki alveg strax en svo fór hann að strjúka mér og ég fór að mala. „Þessi köttur er mjög líkur Gormi", sagði hann. „Ég fer með hann og athuga hvort hann kannast við sig heima." Hann tók mig og setti inn í bílinn. Þegar bíllinn fór í gang varð ég alveg logandi hræddur, hljóp um allan bílinn og reyndi að komast út, en það var ekki hægt því allt var lokað. Ég skreið undir eitt sætið og lá þar á meðan bíllinn rann áfram. Mér fannst langur tími líða en loksins stoppaði bíllinn. Þegar ég kom út sá ég undir eins að ég var kominn heim að Galtastöðum. Hundurinn þekkti mig undir eins og eftir nokkra daga rifjaðist upp fyrir mér hvernig hreyfa átti spjaldið á bréfalúgunni til að komast inn. Þegar ég gerði það sagði Arndís: „Nú er ég alveg viss um að þetta er Gormur því hann er farinn að banka á hurðina." Ég fór líka að sofa hjá hundinum og þá voru allir orðnir vissir um að þetta væri ég.


Eftir þetta ævintýri fór ég oft að heiman því mér fannst flökkulífið skemmtilegt. Oftast fór ég þegar tunglið var fullt og norðurljósin voru björt. En ég rataði alltaf heim aftur.


(2004)

Engin ummæli: