Það hefur líklega verið sumarið 1982 sem við Davíð í Skógsnesi og Eiríkur á Arnarhóli komum saman í Félagslundi á kvöldin til að spila og syngja saman okkur til skemmtunar. Davíð spilaði á orgel, Eiríkur á gítar, ég á bassa og Bói í Önundarholti kom í eitt eða tvö skipti og trommaði með okkur. Einnig Eric frændi minn. Eyvi á Vestri-Hellum kom líka einu sinni a.m.k. og spilaði á harmonikku. Félagslundur var og er samkomuhús í Gaulverjabæjarhreppi, núna Flóahreppi.
Þetta var okkar eigin framtak en ekki félagasamtaka en við nutum samt velvildar þeirra sem sáu um húsið. Við lofuðum að þrífa eftir okkur og ganga vel um og það tókst ágætlega að því er ég best veit. Við veltum fyrir okkur að stofna hljómsveit, komum þó aldrei fram en kölluðum þennan félagsskap okkur til skemmtunar „Baggabandið. “
Við spiluðum mest uppáhalds rokkslagara. Rauluðum lög á borð við „Have you ever seen the rain“ með Creedence Clearwater Revival, „Under my Thumb“ með Rolling Stones, vinsæl lög eftir Bubba og svo lagið Memphis Tennessee í eftirlíkingu af útgáfu Bítlanna.
Í erlendu lögunum fannst mér betra að geta sungið þau með íslenskum texta og því fór ég að reyna að hnoða saman textum. Ég reyndi aðeins við „Have you ever seen the rain“ en var ekki nógu ánægður með útkomuna. Man þó að ég vísaði í liðin rosasumur á Suðurlandi, svo sem '55 og '56, '75 og '76. Ég bjó þó til texta við Memphis lagið sem ég var það ánægður með að ég man hann nokkurn veginn ennþá. Íslenskunin fer hér á eftir.
Upprunaleg mynd textans mun hafa verið gerð af Chuck Berry. Margir aðrir hafa flutt það en frægastir eru þó líklega Elvis Presley og Bítlarnir. Sjá nánari uppl. um lagið og enska textann
hér.
Hér kemur svo textinn frá 1982:
Landssími náðu í Memphis Tennessee
é'ra reyna' finna stelpu það er áríðandi því
hún skild' ekk' eftir númer en nafnið hef ég þó
ég veit líka nokkurn veginn alveg hvar hún bjó.
Hjálpaðu mér landssími að finna'na Marie
stelpuna sem hringdi frá Memphis Tennesse
hún bjó fyrir sunnan, ekki langt þar frá
um það bil mílu frá Missisippi á.
Hjálpaðu mér landssími að bæta því við
ég sakni hennar mikið, það þoli enga bið
Mamm'ennar fór frá mér og tók'ana Marie
því reyni ég að finna'na í Memphis Tennessee.
Síðast er ég sá Marie þá veifaði hún mér
og þurrkaði tárin af kinnunum á sér
Marie er bara sex ára, landssími því
bið ég þig að finna'na í Memphis Tennesse.