2025-11-22

Að sækja að glæpahópum úr öllum áttum - en lærum af mistökum Svía

Það er fagnaðarefni ef íslensk stjórnvöld ætla loksins að bregðast af alvöru við þeirri þróun sem ríkislögreglustjóri lýsti í nýrri skýrslu sinni um skipulagða brotastarfsemi. Dómsmálaráðherra segir stefnt að því að efla löggæslu, styrkja landamærin og þrengja að brotahópum „úr öllum áttum“. Þetta lýsir góðum vilja — en reynsla nágrannalanda okkar, einkum Svía, sýnir að slíkum yfirlýsingum verður að fylgja eftir með markvissum aðgerðum. Annars gerist ekki neitt.

Ný skýrsla frá ríkislögreglustjóra er í raun rauð viðvörun. Skipulögð brotastarfsemi hefur þegar komið sér fyrir hér á landi, með netglæpum, peningaþvætti, mansali og vaxandi nýliðun ungmenna. Alþjóðlegir hópar vinna þvert á landamæri og nýta sér veikleika kerfisins. Við höfum ekki efni á að bregðast seint við — því þegar kemur að skipulagðri brotastarfsemi er hver dagur sem tapast dýru verði keyptur síðar.

Ætlar ráðherra að gera það sem þarf — eða það sem hljómar vel?
Í svari sínu á Alþingi talaði dómsmálaráðherra um aðgerðir „á öllum sviðum“, þar á meðal á landamærum, hjá skattinum, í fjármálaeftirliti og með auknum heimildum lögreglu. Þetta eru allt skref sem skipta máli — en stóru spurningarnar eru hvort þau verði nógu róttæk, nógu markviss og nógu hröð? Við höfum nefnilega heyrt svona fyrirheit áður. Á meðan stjórnmálin festast aftur og aftur í málþófi, veikburða verkstjórn sem endar í nauðasamningum við þinglok og innbyrðis átökum heldur skipulögð brotastarfsemi áfram að nýta sér glufur í kerfinu.

Lærdómurinn frá Svíþjóð – hvað Ísland má ekki endurtaka
Svíar eru nú í miðju neyðarástandi eftir rúman áratug af vaxandi skipulagðri brotastarfsemi. Dalen-gengið, eitt versta glæpanet landsins, var stofnað af unglingum í venjulegu hverfi árið 2014. Nokkrum árum síðar var það orðið alþjóðlegt ofbeldisnet sem tengdist morðum, sprengjum og vopnasmygli. Svíar hertu refsingar, endurskoðuðu lög, settu fram aðgerðaráætlun og eru nú að lækka aldur sakarábyrgðar úr 15 í 13 ár — en samt heldur ofbeldið áfram. Ástæðan er sú að þeir misstu af fyrstu tveimur stigunum: nýliðun ungs fólks og peningaþvætti í löglegri starfsemi. Skipulagning á sér stað löngu áður en byssur og sprengjur birtast í fjölmiðlum. Þegar lagasetningin loksins kom var vandinn orðinn kerfislægur og landlægur.

Skýrslan sýnir að Ísland er á sama stigi nú og Svíþjóð var fyrir rúmum áratug. Ungmenni eru þegar farin að taka að sér verkefni fyrir brotahópa. Glufur í fyrirtækjaskrá og fjármagnsflæði gera peningaþvætti auðvelt. Heimildir lögreglu til að fylgjast með flóknum netglæpum eru of þröngar og upplýsingaflæði á milli stofnana er of hægfara til að stöðva þróunina.

Ef ekki verður gripið inn í núna strax, mun Ísland fara sömu leið — nema hraðar, því okkar innviðir eru veikari og samfélagið minna og berskjaldaðra.

Peningaþvætti – veikasti hlekkurinn
Flestir ofmeta beinar aðgerðir gegn ofbeldi svo sem árangursríkar morðrannsóknir, þó þær séu góðar og nauðsynlegar í sjálfum sér — en vanmeta peninga­flæðið sem knýr skipulagða brotastarfsemi áfram. Er það kannski rótgróið dálæti okkar á spennusögum sem veldur? Það er kannski erfitt að skrifa spennusögu um vinnu endurskoðandans en það er samt nákvæm endurskoðunarvinna sem fellir glæpasamtökin. Skýrslan er skýr: upptaka ólögmætra fjármuna er erfið, seinvirk og oft árangurslítil. Íslensk fyrirtækjaskrá er veik, eftirlit með grunsamlegum færslum er takmarkað og þeir sem vilja þvætta fé geta gert það hér með litlum tilkostnaði.

Þetta eru bráðum aldargömul sannindi. Það voru ekki morðrannsóknirnar sem felldu Al Capone einn alræmdasta glæpamann síðustu aldar — heldur skattarannsóknir. Peningarnir eru blóðflæði skipulagðrar brotastarfsemi. Ef við lokum ekki fyrir það blóðflæði, þá lokum við ekki fyrir brotastarfsemina. 

Hvað þarf að gerast hér — og af hverju það má ekki bíða
Ef stjórnvöld ætla sér að grípa til alvöru aðgerða þarf að stöðva nýliðun ungmenna áður en hún verður stigveldi, loka fyrir peningaþvættisleiðir strax, samræma upplýsingaflæði milli stofnana og veita lögreglu sambærilegar heimildir og systurlönd okkar búa við. Það er líka nauðsynlegt að hætta að trufla störf Alþingis með friðhelgisröksemdafærslum sem vernda glæpamennina frekar en fólkið sem þeir svíkja, misnota og taka af lífi ef þeim þóknast svo.

Að öðrum kosti verður Ísland ekki landið þar sem brotahópum er mætt — heldur landið þar sem þeir ná að styrkja stöðu sína, finna ró og nýliðun og byggja upp starfsemi í friði á meðan stjórnmálin deila um formsatriði eða önnur fræðileg atriði í keisarans skeggi. Alþingi er ekki málstofa um fræðileg atriði heldur aðgerðasveit  sem starfar í umboði almennings. 

Birtist 18.11.2025 á slóðinni: https://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/2319757/

Athugasemdir

Ásgrímur Hartmannsson

Ríkið hleypti glæpahópunum viljandi inn í landið.

Við búum á eyju, það eru ekki kjarnorkuvísindi að halda þeim frá.

Allar heimildir lögreglu eru bara til þess að láta hana herja á almenning, það stendur ekki annað til en að hleypa fleiri glæponum til landsins.

Ásgrímur Hartmannsson, 18.11.2025 kl. 16:17

---

Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið, Ásgrímur.

Þótt Ísland sé eyja er það ekki einangrað frá alþjóðlegum stafrænum innviðum. Nýlega kom í ljós að vafasöm erlend samtök hafa notað íslenska netþjóna [1] eða hýsingarþjónustu vegna veikrar löggjafar um upplýsingaflæði, rekjanleika og peningaþvætti, ekki vegna þess að "ríkið hafi hleypt þeim inn".

Íslensk lögregla getur ekki gert mikið á meðan lagabreytingar tefjast, heimildir eru þröngar og kerfið nær ekki utan um stafræna brotaheiminn. Þetta snýst því meira um glufur í lögum en einhverja viljandi stefnu. Við vinnum bara ekki nógu markvisst að öryggismálum.

Sjá: https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-11-16-grunsamleg-mannrettindasamtok-vista-vefsidu-sina-a-islandi-459003

Ragnar Geir Brynjólfsson, 18.11.2025 kl. 21:17

---

Ragnar Geir Brynjólfsson

Í pistlinum "Skipulögð brotastarfsemi: Rauð viðvörun sem stjórnvöld mega ekki hunsa" skrifaði ég:

"Stundum heyrist að rýmri rannsóknarheimildir, betra upplýsingaflæði milli stofnana og skýrari skilgreining á skipulagðri brotastarfsemi gangi of nærri friðhelgi einkalífsins eða stangist á við mannréttindi. Íslensk stjórnmálaumræða hefur ekki einu sinni verið einhuga um hvort rétt sé að styrkja verkfæri lögreglu eða eftirlitsstofnana. Í gegnum árin hafa þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu mótmælt lagabreytingum í nafni mannréttinda sem þeir skilgreina á mjög þröngan og hugmyndafræðilegan hátt. Það er göfugt að verja réttindi borgaranna en þegar það er gert þannig að ríkið má ekki verja borgarana gegn glæpahópum, þá verður niðurstaðan sú að glæpamenn fá meira frelsi en fólkið sem þeir svíkja og misnota."

Ragnar Geir Brynjólfsson, 18.11.2025 kl. 21:25

2025-11-20

Skipulögð brotastarfsemi: Rauð viðvörun sem stjórnvöld mega ekki hunsa

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi sýnir svart á hvítu að hér er ekki um að ræða gult eða appelsínugult ástand. Þetta er rauð viðvörun.

Við erum komin inn í sama mynstrið og sést víða í Evrópu: hóparnir stækka, aðferðafræðin þróast og tjónið færist inn á heimili fólks – ekki í formi ofbeldis heldur rafrænna árása. Helsta ógnin gegn almenningi er fjárhagsleg: netsvik, auðkennamisnotkun og rafrænt rán úr heimabönkum. Þetta eru ekki yfirvofandi hættur heldur tjón sem er þegar að verða. Ísland er orðin frjó jörð fyrir brot sem áður töldust fjarlæg og ólíkleg.

Netsvik – nýr iðnaður
Svik á netinu eru orðin að iðnaði. Þetta eru skipulagðir hópar sem vinna eins og hver önnur alþjóðleg fyrirtæki, nema tekjulínan byggir á blekkingum, sálfræðilegum brellum og tæknikunnáttu. Þeir herma eftir bankafulltrúum, stjórnvöldum eða fjölskyldumeðlimum og tæma reikninga fólks á nokkrum augnablikum. Upphæðirnar sem tapast mælast í hundruðum milljóna – jafnvel milljörðum – á ári. Þetta eru brot sem byggja á veikleikum okkar allra: vantrausti á eigin dómgreind, og of miklu trausti gagnvart aðilanum í símanum.

Brot sem snúa að almenningi í dag
Glæpahópar sækja í verslanir, bílskúra, geymslur og vasa ferðamanna. ELKO-málið 2024 sýnir hvernig tugmilljónaþýfi rennur í gegnum vel skipulögð net sem enginn tekur eftir fyrr en of seint. 

Mansal
Ísland er orðið áfangastaður mansals. Þolendur eru fastir í skulda-, hús- og vinnuánauð hjá aðilum sem nýta veikleika íslenska kerfisins til að halda þeim ósýnilegum. Þetta er brot sem samfélagið styður óafvitandi með þögninni – með því að líta fram hjá grunsamlegum aðstæðum eða kaupa þjónustu sem byggir á nauðung. Þetta er ekki jaðarfyrirbæri; þetta er hluti af sama skipulagða veruleika og netglæpirnir.

Varnir almennings 
Hættumerki er ef skilaboð vekja ótta, eru ágeng eða kalla á „skyndiaðgerðir“. Mikilvægt er að smella ekki á óvænta hlekki, nota tvíþætta auðkenningu, lækka millifærsluþök í heimabanka og ræða reglulega við yngra og eldra fólk um netöryggi. Þetta eru einfaldar aðgerðir – en þær stoppa stóran hluta þess sem brotahópar reyna að framkvæma.

Peningaþvætti – veikasta vörnin og alvarlegasti gallinn
Kjarni málsins er að að upptaka ólögmætra fjármuna er „erfið, seinvirk og oft árangurslítil“. Ef við lokum ekki fyrir peninga­streymið, þá lokum við ekki fyrir brotastarfsemina. Þetta er sama formúla og alþjóðleg löggæsla hefur fylgt í áratugi: það sem stöðvaði Al Capone voru ekki símhleranir, byssubardagar eða árangursríkar morðrannsóknir, heldur rannsóknir á skattsvikum og peningaþvætti. Nú eru íslenskir brotahópar komnir á sama stað. Þeir fela fé í verktakafyrirtækjum, rekstrarfélögum, smáfélögum og millifærslum sem ekki eru heimildir til að rekja. Skýrslan segir að eftirlit með grunsamlegum færslum sé veikt og að fyrirtækjakerfið leyfi þeim að þvætta fé með litlu sem engu eftirliti. Norðurlönd hafa hert reglur sínar gríðarlega síðustu tíu árin, sérstaklega Danmörk og Noregur. Ísland hefur hins vegar setið eftir, og glæpahópar vita það. Þeir sækja ekki í átök heldur í veikleika kerfa. 

Ísland er á beinni leið að verða öruggt baklandsríki fyrir alþjóðlega brotastarfsemi
Við erum að verða að skjólgóðum miðlægum hunangsreit glæpasamtaka: netglæpir eru orðin meginstoð tekjuöflunar, peningaþvætti fer fram í löglegum félögum sem fá litla athygli og eftirlitið með fjármagnsflæði er ófullnægjandi. Nýliðun inn í brotastarfsemi er orðin markvissari, ungir einstaklingar eru dregnir inn í „smáverkefni“ sem þróast yfir í alvarleg brot, líkt og sést hefur í Svíþjóð og Finnlandi. Ísland er jafnframt orðið áfangastaður mansals og vinnuánauðar, og netglæpamiðstöð sem nýtir sér trausta rafræna innviði en veik verndarúrræði. Þetta er ekki spá. Þetta er þróun sem á sér nú þegar stað. Ef stjórnvöld munu áfram sofa á verðinum, þá mun Ísland festast í hlutverki baklands og miðstöðvar brotahópa, þrátt fyrir viðvaranir. 

Lagaumhverfið – pólitísk ábyrgð sem enginn má hunsa
Skýrslan er hófsöm í orðavali en hún flytur harðan sannleika. Lagaumhverfið hér er einfaldlega ekki hannað fyrir þennan nýja veruleika. Rannsóknarheimildir í netglæpum eru of þröngar. Upptaka ólögmæts fjár er seinvirk. Upplýsingaflæði milli stofnana er gamaldags. Skilgreiningin á skipulögðum brotahópum er svo þröng að hún nýtist varla. Fyrirtækjakerfið gerir auðvelt að stofna skugga­félög og þvætta fé. Þolendur mansals falla milli kerfa sem vernda vinnuveitendur betur en fórnarlömb. Þetta allt þýðir eitt: glæpahópar fá meira svigrúm hér en í löndum sem við berum okkur saman við.

Stundum heyrist að rýmri rannsóknarheimildir, betra upplýsingaflæði milli stofnana og skýrari skilgreining á skipulagðri brotastarfsemi gangi „of nærri friðhelgi einkalífsins“ eða „stangist á við mannréttindi“. Íslensk stjórnmálaumræða hefur ekki einu sinni verið einhuga um hvort rétt sé að styrkja verkfæri lögreglu eða eftirlitsstofnana. Í gegnum árin hafa þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu mótmælt lagabreytingum í nafni mannréttinda sem þeir skilgreina á mjög þröngan og hugmyndafræðilegan hátt. Það er göfugt að verja réttindi borgaranna – en þegar það er gert þannig að ríkið má ekki verja borgarana gegn glæpahópum, þá verður niðurstaðan sú að glæpamenn fá meira frelsi en fólkið sem þeir svíkja og misnota.

Þetta er ekki ný umræða. Fyrir tólf árum skrifaði ég pistil sem kom inn á spurninguna um hverja væri verið að vernda með aðgerðaleysi í öryggismálum, og þá voru viðbrögðin í þessa veru: það að berjast gegn heimildum lögreglu væri mannréttindabarátta. Í dag hefur reynslan sýnt hið gagnstæða: það er skortur á rannsóknarheimildum, ekki misnotkun þeirra, sem hefur veikt íslenskt samfélag gagnvart skipulagðri brotastarfsemi.

Mannréttindi verða að ná til þolenda, ekki bara til gerenda. Þegar pólitískar hugmyndir um „að ríkið eigi ekki að hafa afskipti“ leiða til þess að enginn geti gripið inn í þegar brotahópar misnota kerfið, þá er verið að verja lögbrjótana.

Þegar Alþingi verður óstarfhæft
Það er ekki einungis skortur á heimildum sem veikja baráttuna gegn skipulagðri brotastarfsemi – heldur líka skortur á pólitískum fókus. Fá dæmi sýna þetta jafn skýrt og síðasti þingvetur, þar sem heilu og hálfu mánuðirnir fóru í málþóf um veiðigjöld, málþóf sem engu skilaði í þágu almennings. Þingið lamaðist og lítið komst í gegn, þrátt fyrir að öryggismál, peningaþvættisreglur og lagabreytingar sem snerta netglæpi biðu inni í nefndum.

Það fór enda svo að sjálfur forseti þjóðarinnar ávítaði þingmenn við setningu nýs þings – áminning sem sumir tóku ekki vel og þóttust ekki skilja. Það eitt ætti að valda áhyggjum: að kjörnir fulltrúar, sem sverja eið að stjórnarskránni og ábyrgð gagnvart almennum borgurum, vilji ekki horfast í augu við eigin sérhagsmunagæslu. Ef þingmenn geta ekki viðurkennt staðreyndir um eigin vinnubrögð – hvernig geta þeir þá tekið afstöðu til ógnar sem krefst sameiginlegra, skýrra og hraðvirkra aðgerða?

Þegar Alþingi festist í innbyrðis skærum og hugmyndafræðilegu skotgrafarstríði verður það sjálft hluti af veikleika ríkisins. Þá verða glufurnar sem glæpahópar nýta ekki aðeins tæknilegar eða lagalegar – heldur pólitískar. Og spurningin sem blasir við er einföld: Hversu mikið er hægt að treysta orðum kjörinna fulltrúa um borgaralegt öryggi þegar þeir verja heilu þingvetrunum í að hindra lögmæta starfsemi Alþingis?

Það er því miður tímabært að spyrja áleitinna spurninga. Baráttan gegn skipulagðri brotastarfsemi stendur og fellur með vilja Alþingis til að standa með borgurunum.


Athugasemdir
Grímur Kjartansson
EN hvaða mál er lögð mest áhersla á í réttarkerfinu?

Heil deild innan lögreglu til að sinna hatursorðræðu

Stór hluti af vinnunni hjá Sérstökum síðustu ár hefur verið að rannsaka stjórnarfarið í Namibíu

Það virðast nægir peningar til en það er farið illa með opinbert fé og því sóað í gæluverkeni

Grímur Kjartansson, 15.11.2025 kl. 23:08

---

Ragnar Geir Brynjólfsson
Takk fyrir innlitið, Grímur. Já, þetta eru gild sjónarmið og það vakna spurningar um hvernig fjármunum er í raun forgangsraðað innan lögreglu og ákæruvalds í ljósi þessarar nýju heildarmyndar sem skýrslan dregur fram. 

Ragnar Geir Brynjólfsson, 16.11.2025 kl. 07:45

2025-10-30

Norðurlönd á 12. öld – þræðir valds og menningar


Á miðri 12. öld voru Norðurlönd í endurmótun. Landamæri voru óljós, ríki óstöðug og vald dreifðist milli ætta, biskupa og borgaralegra höfðingja. Kirkjan var eina formlega stofnunin, með tungumál og ritmenningu sem náði yfir höf og lönd. Þeir sem kunnu að lesa, skrifa og reikna voru þjónar kirkjunnar. Þeir gátu sumir hverjir jafnvel tjáð sig á hinu alþjóðlega tungumáli lærðra manna – latínu – og þannig átt samskipti við stofnanir og aðra lærða um alla Evrópu.

Á þessum tíma styrkti kristin heimsmynd tengingu Evrópu í eitt menningarlegt net. Páfastóllinn styrkti vald sitt, klaustrin urðu miðstöðvar þekkingar, og nýir skólar risu við dómkirkjur. Nútímaleg stjórnsýsla var að myndast í skjóli trúarinnar. Þeir sem héldu á fjaðurpenna og skinnbókum voru orðnir jafn mikilvægir og þeir sem báru sverðið.

Á þessum tíma var hið andlega net Evrópu þéttara en hið pólitíska. Klaustrin í Frakklandi og Þýskalandi höfðu samskipti við nunnuklaustur á Englandi og munkareglur á Norðurlöndum. Latína var sameiginlegt tungumál og tryggði að hugmyndir, rit og reglur gátu flust milli landa án misskilnings. Þannig varð kirkjan í raun fyrsta „evrópska bandalagið“, löngu áður en ríkin tóku á sig nútímalega mynd.

Vald og skipulag
Á sama tíma voru ríkin sjálf að leita að eigin formgerð og skipulagi. Í Frakklandi voru konungar farnir að búa sér til fastar höfuðstöðvar og embætti. Í Þýskalandi voru hertogar og kjörfurstar í stöðugri togstreitu við keisara og páfa. Í Englandi hafði normönsk stjórnskipan fest rætur með lagaskrám og jarðaskrám.

Á Norðurlöndum voru þessar hugmyndir að berast norður með kirkjunni. Danir, sem höfðu að nafninu til tekið kristni þegar á 10. öld, áttu enn í innanlandserjum. Ættir voru voldugar og áttu sín óðul, konungar voru kjörnir og drepnir, og löndin tengdust lauslega. Kirkjan hafði þó aðgang að hugmyndum um stöðugleika: að vald þyrfti ramma, skrá og merkingu og meðal lærðra manna varðveittist minningin um hið fasta skipulag, lög og frið Rómaveldis. 

Það var þessi hugsun sem færðist norður með munkum frá Cluny og Citeaux, og gegnum menntaða menn sem höfðu stundað nám í París. Í þeirri bylgju kemur fram á sviðið ný tegund valds, arftaki hugmyndarinnar sem átti rætur í kristnum keisurum Rómar: sameining trúar og stjórnsýslu, þar sem ríki og kirkja styðja hvort annað, og báðir aðilar telja sig starfa í þjónustu Guðs

Menning og list
Á 12. öld voru listir og byggingar orðnar tæki stjórnsýslunnar jafnt sem trúarinnar. Dómkirkjur risu sem tákn um skipulag og stöðugleika, og í þeim voru myndir af konungum og helgum mönnum Guðs. Í þeim birtist ný hugsun: að samfélagið væri ein heild undir lögum, bæði mannlegum og guðlegum. Dómkirkjan í Hróarskeldu er lifandi minnismerki um þessa arfleifð þar sem finna má undir sama þaki myndir helgra manna frá kaþólskri tíð, kirkjuleiðtoga síðari tíma og konungagrafir. 

Steinbogar og hvelfingar urðu form táknrænnar hugsunar, þar sem jafnvægi og hlutföll urðu tákn réttlætis og reglu. Í þessari byggingarlist speglaðist stjórnskipan ríkisins sjálfs. Myndirnar á kirkjuveggjunum, sem síðar urðu listaverk, byrjuðu í raun sem trúfræðsla –myndræn kverkennsla fyrir hina ólæsu alþýðu, sjónræn leið til að kenna sögur ritningarinnar og grundvallargildi trúarinnar. Hugmyndin um gullinsniðið (sectio aurea, proportio divina) sem síðar varð grundvallarhugmynd um hönnun kirkna víða í Evrópu – og síðar einnig á Íslandi, margar kirkjur Íslands eru byggðar í hlutföllum gullinsniðs, – á rætur í þessari hugsun um guðlegt jafnvægi og reglu í sköpuninni.

Á norðurslóðum var þessi menning í mótun. Á Sjálandi og Skáni voru kirkjur reistar í nýjum stíl, og höfuðsetur kirkjunnar í Lundi var orðið að miðstöð lærdóms og byggingalistar. Þar voru steinsmiðir frá Þýskalandi, prestar sem höfðu numið í París, og munkar sem komu með reglur Bernards frá Clairvaux.

Við Eyrarsund
Þegar horft er yfir landakort þess tíma sést að vald og umboð Danmerkur var ekki bundið við Jótland. Það lá um hafið, um sundin milli Sjálands og Skánar. Þar voru leiðirnar milli Norður-Evrópu og Eystrasalts, milli þýskra borga og rússneskra furstadæma. Sá sem réði þessum sundum réði einnig versluninni – og í reynd framtíðinni.

Við og umhverfis Eyrarsund voru helstu bæir Danmerkur á þessum tíma: Hróarskelda á Sjálandi, kirkjusetrið í Lundi á Skáni og hafnarbæirnir sem vörðu siglingarnar milli landanna. Það var þar sem ríkið gat tekið á sig nýja mynd: stjórn sem byggðist á lögum, tekjum og trúarlegum ramma.

Maðurinn sem sá mynstrið
Það var á þessum tíma sem maður nokkur hóf að festa þessa mynd í sessi. Hann var lærður í París, menntaður í guðfræði en einnig með mikla skipulagshæfileika. Hann sá að ríki sem ætlaði að lifa þyrfti bæði lög og anda. Hann sá að valdamiðja landsins sótti ekki styrk sinn til héraða og ættaróðala, heldur til hafsins – þar sem verslun, trú og stjórnsýsla runnu saman í eina heild.

Þegar hann sneri heim til Danmerkur tengdust þræðir sögunnar: kirkjan, konungurinn og ríkið sjálft. Þeir sem áður höfðu ríkt með vopnum hófu að stjórna með skipulagi. Undir merki krossins, sem síðar varð tákn þjóðarinnar, tók ríkið á sig form.

Sagan um þann mann – erkibiskupinn sem átti þátt í að móta ríkið, stofnaði höfuðborgina og skilgreindi vald í anda réttlætis og trúar – er sögð á Kirkjunetinu í dag: [Absalon erkibiskup – guðsmaður, ríkisráðsherra og faðir Kaupmannahafnar - 30. október]

Upprunalega birt á: https://ragnargeir.blog.is/blog/ragnargeir/entry/2319232

2012-05-01

Sumartíð


Sumartíð - vögguvísa að vori.

(Íslenskur söngtexti við lagið Summertime eftir George Gershwin.)

Sumartíð, já og sumarblíða.
Langur vetur nú að baki er.
Lóusöngur, lýkur öllum kvíða.
Létt grát þínum angi, lífið mun hjúfra þér.

Einhvern morgun, muntu vakna og vitja,
vængja þinna, hefja söngsins klið.
En fram að þeim tíma, mun ég hjá þér sitja,
og mamma og pabbi standa þér við hlið.

Höfundur texta: Ragnar Geir Brynjólfsson

2009-09-21

Íslenskur texti við þýska þjóðlagið Krambambuli sem nota má sem afmælissöng

Sumir lesenda kannast kannski við þýska stúdentalagið Krambambuli. Sjá hér í flutningi Erich Kunz: http://www.youtube.com/watch?v=l32n5yncfmM&feature=related

Lag þetta er þýskt þjóðlag en þýski textinn er eftir þýska skáldið Christoph Friedrich Wedekind (1709-1777) en hann notaði dulnefnið Crescentius Koromandel. Sá texti er um vín bruggað úr einiviði en þennan íslenska texta sem hér kemur á eftir má sem best nota sem afmælissöng og hnika til orðum svo löng eða stutt nöfn komist fyrir í textanum.

Afmælissöngur.

Það tómlegt er ekki í tímans glasi
og teljast þar árin í reynslusjóð.
Við göngum á fund með gleðifasi
og gjalla látum söngvaljóð.

Viðlag: (x2)
Já höfum nú í hámæli að X (hann/hún) á afmæli
já (hann/hún) á afmæli, já afmæli.

Já tíminn hann upp á okkur lítur,
og andvari hans nemur staðar hljótt.
En augnabliksgleðin hún ekki þrýtur,
og orðin þau hljóma í söngnum ótt.

Viðlag: (x2)
Já höfum nú í hámæli að X (hann/hún) á afmæli
já (hann/hún) á afmæli, já afmæli.

Höf. texta Ragnar Geir Brynjólfsson.

2009-08-23

Við Reynisdranga

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Kemur aldan klettinn við
kalt er brim í faldinn.
Þú sækir afla á sjávarmið
sértu illa haldinn.

2009-08-02

Nýr íslenskur texti við „Hallelujah“ eftir Leonard Cohen

Hér á eftir kemur nýr íslenskur texti eftir færsluhöfund við lagið Hallelujah eftir kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen. Lagið er fallegt, tilfinningaþrungið en þó einfalt eins og sum önnur laga Cohen en enski frumtextinn hentar ekki til kirkjusöngs. Þessi eftirfarandi texti byggir því að litlu leyti á upprunalegum texta söngvaskáldsins en er ætlaður til þess að nota þegar lagið er flutt á trúarlegum samkomum.

Við textagerðina var stuðst við Fyrri Samúelsbók, kafla 16, vers 23 og Davíðssálma 137, 130 og 146-149 í þessari röð.

Hallelúja

Er Davið sló sinn helga hljóm
á hörpuna og hóf upp róm
þá bráð' af Sál og 'ann sagði ert það þú já.
Úr ferund í fimmund lagið fer
til hæða sálin lyftir sér
og snortinn mælir höldur - hallelúja.

Viðlag:
Hallelúja - hallelúja
Hallelúja - hallelúja.

Í Babýlon við vötnin ströng,
þeir heimtuð' af oss gleðisöng
og allt við höfðum misst þar nema trúna.
Frá gráti yfir í gleðitár
það græðir hjartans dýpstu sár
er heyrist beðið hljóðlátt - hallelúja.

Viðlag.

Úr djúpinu ég ákalla þig,
ó Drottinn viltu heyra mig
og von mín ávallt fær mig til að segja.
Hið eina sanna lausnar mál
er morgunljómi í minni sál,
finn miskunn þér í hjarta - hallelúja.

Viðlag.

Ó syngið Drottni nýjan söng
er þíðir hrímuð hjarta göng
já látum okkur hefja róminn núna.
Hann rekur réttar kúgaðra
og mettar munna hungraðra
með einu himna orði - hallelúja.

Viðlag.

Höfundur texta: Ragnar Geir Brynjólfsson. Gítargrip við lagið má finna á gitargrip.is.