Færslur

2009-09-21

Íslenskur texti við þýska þjóðlagið Krambambuli sem nota má sem afmælissöng

Sumir lesenda kannast kannski við þýska stúdentalagið Krambambuli. Sjá hér í flutningi Erich Kunz: http://www.youtube.com/watch?v=l32n5yncfmM&feature=related

Lag þetta er þýskt þjóðlag en þýski textinn er eftir þýska skáldið Christoph Friedrich Wedekind (1709-1777) en hann notaði dulnefnið Crescentius Koromandel. Sá texti er um vín bruggað úr einiviði en þennan íslenska texta sem hér kemur á eftir má sem best nota sem afmælissöng og hnika til orðum svo löng eða stutt nöfn komist fyrir í textanum.

Afmælissöngur.

Það tómlegt er ekki í tímans glasi
og teljast þar árin í reynslusjóð.
Við göngum á fund með gleðifasi
og gjalla látum söngvaljóð.

Viðlag: (x2)
Já höfum nú í hámæli að X (hann/hún) á afmæli
já (hann/hún) á afmæli, já afmæli.

Já tíminn hann upp á okkur lítur,
og andvari hans nemur staðar hljótt.
En augnabliksgleðin hún ekki þrýtur,
og orðin þau hljóma í söngnum ótt.

Viðlag: (x2)
Já höfum nú í hámæli að X (hann/hún) á afmæli
já (hann/hún) á afmæli, já afmæli.

Höf. texta Ragnar Geir Brynjólfsson.

2009-08-23

Við Reynisdranga

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Kemur aldan klettinn við
kalt er brim í faldinn.
Þú sækir afla á sjávarmið
sértu illa haldinn.

2009-08-02

Nýr íslenskur texti við „Hallelujah“ eftir Leonard Cohen

Hér á eftir kemur nýr íslenskur texti eftir færsluhöfund við lagið Hallelujah eftir kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen. Lagið er fallegt, tilfinningaþrungið en þó einfalt eins og sum önnur laga Cohen en enski frumtextinn hentar ekki til kirkjusöngs. Þessi eftirfarandi texti byggir því að litlu leyti á upprunalegum texta söngvaskáldsins en er ætlaður til þess að nota þegar lagið er flutt á trúarlegum samkomum.

Við textagerðina var stuðst við Fyrri Samúelsbók, kafla 16, vers 23 og Davíðssálma 137, 130 og 146-149 í þessari röð.

Hallelúja

Er Davið sló sinn helga hljóm
á hörpuna og hóf upp róm
þá bráð' af Sál og 'ann sagði ert það þú já.
Úr ferund í fimmund lagið fer
til hæða sálin lyftir sér
og snortinn mælir höldur - hallelúja.

Viðlag:
Hallelúja - hallelúja
Hallelúja - hallelúja.

Í Babýlon við vötnin ströng,
þeir heimtuð' af oss gleðisöng
og allt við höfðum misst þar nema trúna.
Frá gráti yfir í gleðitár
það græðir hjartans dýpstu sár
er heyrist beðið hljóðlátt - hallelúja.

Viðlag.

Úr djúpinu ég ákalla þig,
ó Drottinn viltu heyra mig
og von mín ávallt fær mig til að segja.
Hið eina sanna lausnar mál
er morgunljómi í minni sál,
finn miskunn þér í hjarta - hallelúja.

Viðlag.

Ó syngið Drottni nýjan söng
er þíðir hrímuð hjarta göng
já látum okkur hefja róminn núna.
Hann rekur réttar kúgaðra
og mettar munna hungraðra
með einu himna orði - hallelúja.

Viðlag.

Höfundur texta: Ragnar Geir Brynjólfsson. Gítargrip við lagið má finna á gitargrip.is.

2009-07-19

Memphis Tennessee lagið - íslenskur texti

Það hefur líklega verið sumarið 1982 sem við Davíð í Skógsnesi og Eiríkur á Arnarhóli komum saman í Félagslundi á kvöldin til að spila og syngja saman okkur til skemmtunar. Davíð spilaði á orgel, Eiríkur á gítar, ég á bassa og Bói í Önundarholti kom í eitt eða tvö skipti og trommaði með okkur. Einnig Eric frændi minn. Eyvi á Vestri-Hellum kom líka einu sinni a.m.k. og spilaði á harmonikku. Félagslundur var og er samkomuhús í Gaulverjabæjarhreppi, núna Flóahreppi.

Þetta var okkar eigin framtak en ekki félagasamtaka en við nutum samt velvildar þeirra sem sáu um húsið. Við lofuðum að þrífa eftir okkur og ganga vel um og það tókst ágætlega að því er ég best veit. Við veltum fyrir okkur að stofna hljómsveit, komum þó aldrei fram en kölluðum þennan félagsskap okkur til skemmtunar „Baggabandið. “

Við spiluðum mest uppáhalds rokkslagara. Rauluðum lög á borð við „Have you ever seen the rain“ með Creedence Clearwater Revival, „Under my Thumb“ með Rolling Stones, vinsæl lög eftir Bubba og svo lagið Memphis Tennessee í eftirlíkingu af útgáfu Bítlanna.

Í erlendu lögunum fannst mér betra að geta sungið þau með íslenskum texta og því fór ég að reyna að hnoða saman textum. Ég reyndi aðeins við „Have you ever seen the rain“ en var ekki nógu ánægður með útkomuna. Man þó að ég vísaði í liðin rosasumur á Suðurlandi, svo sem '55 og '56, '75 og '76. Ég bjó þó til texta við Memphis lagið sem ég var það ánægður með að ég man hann nokkurn veginn ennþá. Íslenskunin fer hér á eftir.

Upprunaleg mynd textans mun hafa verið gerð af Chuck Berry. Margir aðrir hafa flutt það en frægastir eru þó líklega Elvis Presley og Bítlarnir. Sjá nánari uppl. um lagið og enska textann hér.

Hér kemur svo textinn frá 1982:

Landssími náðu í Memphis Tennessee
é'ra reyna' finna stelpu það er áríðandi því
hún skild' ekk' eftir númer en nafnið hef ég þó
ég veit líka nokkurn veginn alveg hvar hún bjó.

Hjálpaðu mér landssími að finna'na Marie
stelpuna sem hringdi frá Memphis Tennesse
hún bjó fyrir sunnan, ekki langt þar frá
um það bil mílu frá Missisippi á.

Hjálpaðu mér landssími að bæta því við
ég sakni hennar mikið, það þoli enga bið
Mamm'ennar fór frá mér og tók'ana Marie
því reyni ég að finna'na í Memphis Tennessee.

Síðast er ég sá Marie þá veifaði hún mér
og þurrkaði tárin af kinnunum á sér
Marie er bara sex ára, landssími því
bið ég þig að finna'na í Memphis Tennesse.

2009-05-23

Vetur

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Skafrenningur
Fiðlubogi
stormsins


Það hvín í
ýlustráinu
á baðstofuþakinu


Veltandi skafrenningur
þenur bogastrenginn
á ýlustráinu


Brothljóð slitinn
bogastrengur
Vorið kom í nótt


(2003)

2009-05-22

Fegurð Flóans

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum




Í blautri mýrinni
hefur blómflóran
drukkið í sig
daggardropa næturinnar


Fuglasaungur
Andardráttur jarðarinnar
í heitri lognmollu
morgunsins


Síðdegis útræna af hafinu
Léttar bylgjur loftsins
vagga puntstráum


Hillingar til hafsins
Óráðin vindský
á austur og vesturfjöllum


Myndsalur fjallahringsins
Fegurð Flóans
fullkomin


(Desember 2002)

2009-05-21

Frostnótt

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Sólin kemur upp
fyrir norðan Heklu
og þýðir héluna
Glitrandi regnbogar
dansa á fallandi laufi
Morgunn



(2003)

2009-05-20

Frostrós

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Ég ligg lítill drengur
í gömlu baðstofunni
horfi á kvistina
í súðinni taka á sig
margskonar myndir



Fjöll tröll og álfa
ævintýraheimur
á baðstofusúðinni



Laufblað á glugga
Ég rís upp til
að taka það af
Finn aðeins kalt gler



Rétt seinna
Fullkomin frostrós
með puttafar
á einföldu gleri



Tvöfalt gler
engin frostrós



(Desember 2002)

2009-05-19

Mynd

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Mynd mín
liggur marflöt
á botni tjarnarinnar



Hreyfist sem tíbrá
þegar golan
strýkur vatnsflötinn

Hverfur þegar ég
geng burt





--




Ljóðið birtist með minnigargrein um Jóhann Guðmundsson í Morgunblaðinu 27. febrúar 1999. Það misritaðist þannig að skrifað stóð: „þegar golan strikar vatnsflötinn“. Þetta leiðréttist hér með.

2009-05-18

Grænland

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Grænland
því grætur þú
tár þín eru
stór hvít
og frosin
þau falla
í djúp hafsins
og eru þín
landvörn


Grænland
þú verður
stöðugt
að gráta



(1993)

2009-05-17

Dagurinn

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Fagra nótt
eg var hjá þér
og stjörnum þínum


Bláa haf
eg var með þér
og bárum þínum


þú fagra tré
eg faldi mig
í laufi þínu
uns dagur rann



(1995)

2009-05-16

Blekking

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Enn í kvöld
drekkum við
af þessum
barmafulla bikar
og teigum
þína skál
Blekking



(2001)

2009-05-15

Ferðasaga

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Minn fyrsti bar hann var á bökkum Rín
Á bökkum Dónár drakk ég eðalvín
Á bökkum Rauðár mest mig hefur þyrst
Á bökkum Mósel hef ég vínið kysst


Við ána Inn þar leit ég barinn minn
Líka sá ég bar við Pódalinn
Við ána Tíber teygað ölið var
Við Ölfusána aldrei sat á bar



(2002)

2009-05-14

Lönd minninganna

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég hlusta á
þig gánga
léttum fótum
um lönd
minninganna
í draumi
Hvar varst þú



(2003)

2009-05-13

Bylgjandi gras

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa




Áður var
bylgjandi gras
fljúgandi fuglar
líf við fætur mína
Nú glymur
stafur minn
á malbikinu
Hörðu köldu
malbikinu
þar sem haustlaufin
frjósa



(2004)

2009-05-12

Klukkurnar hringja

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa




Ég hlusta á
þig gánga
léttum fótum
um lönd
minninganna
í draumi
Hvar varst þú



(2003)

2009-05-11

Haust (2)

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa




Fuglarnir fljúga
til hafsins
Enn er smalað
af heiðum
Rauð rennur áin
til sjávar
Haustið er komið
til landsins


Eg kem hér í dag
til að kveðja
eg kem kannski
aftur með vorið



(2004)

2009-05-10

Gamlir leikstaðir

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Sandbergið
Hulduhóll
Kúalá
Mosasteinn

Sem var barinn
með hömrum
lítilla barna
þar til hann skalf

Lindin í
brekkunni
sem enn
rennur
um túnið

Spjallasól
grafin
í grónu
túni

Nú sjást
ekki lengur
kóngulóarvefir
í hrossapunti
eða fiðrildi
á ágústkvöldi

Mýrin sundurskorin
lífríki dautt

Óðinshani kría
keldusvín farið
fúamýrin tún.


(2002.)

Aths. Spjallasól er brekka í landi Kolsholtshellis í Flóa. Hún er í brekkunni við veginn heim að bænum. Þar var gott skjól og háar þúfur þar sem börnin á bænum léku sér.

2009-05-09

Draumur við lækinn

Eftir Brynjólf Guðmundson frá Galtastöðum í Flóa


Hér ertu litli lækur
sem rennur í brekkunni
niður að ánni


Hestar mínir
svala þorsta sínum
ég halla mér að þúfu


Þú stækkar og verður á
sem rennur í gljúfrum
með háa fossa
straumköst regnboga


Grænir hyljir með
grónum bökkum
Flugeldar draumsins
í ljúfum svefni
Hestar mínir
toga í tauminn


Nú ertu bara
lítill lækur
sem rennur
í brekkunni
niður að ánni.



(2004)

2009-05-08

Við Gardavatnið

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Hér eru fjöllin mjög há
og myrkrið svo svart
En Venus skín skært
í Rómverskri nótt.


Minn hugur flaug hátt
yfir fjöll yfir ský.
Þar sem norðurljós skær
lýsa upp íslenska nótt.



(2004)

2009-05-07

Vindharpan

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Vindurinn
leikur á hörpu sína
við ósa árinnar

Blágrænn sjórinn
og áin dansa
á sandinum

Stundum
villtan dans
sporlaust
á svörtum sandinum.



(2002)

2009-05-06

Alpafjöllin

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Tignir tindar
snæviþaktir
ró þar sem
Alparós fellir
blöð sín
í klettaklifi

Golan strýkur
rauðbirknar
marglitar hlíðar
og haustlitað
hár ferðamanns
í fjallaskarðinu.



(2004)

2009-05-05

Það er draumur þinn jörð

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa




Þú frostharða nótt
þín héluðu strá
drjúpa höfði svo hljótt
yfir fannhvítan svörð


þín dúnmjúka mjöll
mun þiðna í vor
þá vaxa ný strá
það er draumur þinn jörð


Eftir frostharða nótt
eg horfi á þig strá
mig dreymdi svo rótt
minn draumur var þrá


---
Þetta ljóð ætla ég að tileinka afa mínum Brynjólfi og ömmu minni Guðríði.

2009-05-04

Heimsókn

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Afi komdu sestu hjá mér.
Hér er bókin hvað er að frétta?
Hér er mús með litla fætur.
Hér er líka villisvínið.


Hér er stokkönd, sjáðu skeiðönd.
Líka er hér skúfönd, straumönd.
Sjáðu spóa líka starra.
Hér er lítill snjótittlingur.


Sjáðu skötu og skötuselinn.
Og krókódíllinn er hér líka.
Sjáðu ýsu, líka lýsu.
Lýri er hérna, langa - keila.


Hér er ljónið, sebra og api.
Pokadýrið padda og panda.
Hér er hundur, hestur, krummi.
Maríuhænan komd 'og og sjáðu.


Litlir fingur fletta bókum.
Litlir fætur á gólfi tifa.
Bless þið verið blíðu strákar.
Með dökkbrún augu, svarta lokka.



(2000)

2009-05-03

Á ferð í Texas

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Við vorum ferðamenn
í framandi landi.
Hátt á himni
kolsvart ský.
Eins og eldgos
frá Heklu væri
hún hér undir.


Sól ekki sest
samt sjást
ekki ljósin
í borginni.
Myrkur.
Svarta skýið
er komið
steypiregn.


Leiftrandi eldingar
skera loftið
Brennisteinslykt
stormurinn æðir
um götur og torg.
Glerbrotum rignir
úr húsunum háu.
Vegskilti brotna.
Bílarnir stoppa
því brimrót er komið af himninum.


Við vorum
skrefi á undan
skýstrokknum mikla.
Það dóu fjórir
í Dallas.



(2000)

2009-05-02

Á ferð með kvæðamannafélaginu Iðunni

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Klingir hér í kyrrðinni.
Kliðmjúkt lag frá klukkunni.
Kveða lög í kirkjunni.
Kvæðafólk frá Iðunni.


Úr ferðalagi til Siglufjarðar með kvæðamannafélaginu Iðunni. (2000)

2009-05-01

Haust

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Regnúði dag eftir dag
skrautleg fiðrildi
í mildu haustlofti
Gul og rauð laufin
falla af trjánum
Fiðrildin og laufin
leikfang vindanna
Farfuglar bíða
á nöktum greinum


Norðanhljóð
komið í ána
Fuglarnir
fóru í nótt


(September 2002)

2009-04-30

Flogið til Íslands

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Yfir Grænlandi
í ellefu kílómetra hæð
Skýhnoðrar
við sjóndeildarhring
Ég horfi niður á morgunroðann


Mörg glitrandi
augu sólarinnar
bak við blóðrauð ský
Mjúkir armar
sólstafanna
vefja sig um
gil og gljúfur jökulsins


Lending á Íslandi
í glampandi sólskini


(Október 2002)

2009-04-29

Kvöld við sundin

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Dimmrauð ský
speglast
í lygnum sjónum
Haf og himinn
verða eitt
í logandi sólskini
Við sundin bláu


(Október 2002)

2009-04-28

Gengið um fjöruna

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég geng um fjöruna
á blöðruþanginu
Bárurnar koma
hver af annarri með
drifhvítan faldinn


Vefja sterkum
örmum sínum
um glerhálar klappir
Gefa landinu
leikföng sín
sprek og skeljar


Börn landsins
byggja kastala
og borgir í sandinum
sem vefja um sig
birtu frá sindrandi
norðurljósum


Hverfa í háum röstum
og dynjandi brimgný


(Október 2002)

2009-04-27

Rjúpan

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Þegar sólin gægðist
yfir austurfjöllin
Var jörðin komin
í jólakjólinn sinn
drifhvíta


Og mosinn efst
í fjallinu búinn
að draga hvíta sæng
upp fyrir höfuð


Rjúpan kúrir
í kjarrinu
Klettarnir horfa
á manninn nálgast


Aftur til baka
liggja spor hans
með blóðdropum
á kjólfaldinum
drifhvíta


Hann var aðeins
að ganga til rjúpna
og njóta lífsins



(Mars 2003)

2009-04-26

Filippseyjar - Ísland

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Græn fjöll
Brún augu
Svart hár
Dimm nótt



Blá fjöll
Blá augu
Ljóst hár
Björt nótt





(2004)

2009-04-25

Frá Filippseyjum - 11

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Kvöld eitt á
eyjunum grænu
sá ég skógardísina
svífa milli trjánna
hún dansaði á
pálmablöðunum


Ég heyrði hana syngja
ég er í trjánum fjöllunum
í öllu landinu
komdu til mín
ferðamaður


þeir sem sjá mig og heyra
komast ekki
frá mér aftur
þeir eru fangar
mínir að eilífu


(2005)

Heimsókn til afa

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Afi komdu sestu hjá mér
Hér er bókin hvað er að frétta
Hér er mús með litla fætur
Hér er líka villisvínið

Hér er stokkönd líka skeiðönd
líka er hér skúfönd, straumönd
sjáðu spóa líka starra
Hér er lítill snjótittlingur

Sjáðu skötu og skötuselinn
og krókódíllinn er hér líka
Sjáðu ýsu líka lýsu
lýri er hérna langa, keila

Hér er ljónið sebra og api
pokadýrið, padda, panda
Hér er hundur, hestur, krummi
Maríuhæna komdu og sjáðu

Litlir fingur fletta bókum
Litlir fætur á gólfi tifa
Blessaðir verið blíðu strákar
með dökkbrún augu svarta lokka

2009-04-24

Frá Filippseyjum - 10

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Þessi mýkt
í græna
landinu
þegar húmar


Ég heyri í
öldum hafsins
og blöðum trjánna
þau hvísla
Komdu aftur


Og í börnum
landsins
Kemurðu aftur

2009-04-23

Frá Filippseyjum - 9

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Börn þessa lands
synda sýngja brosa
eru glöð allan daginn
Þau gleyma sér


Finna gröf
fátæktar sinnar
í gleðinni



(2004)

2009-04-22

Frá Filippseyjum - 8

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég geng niður
í dalinn
Hverf langt
í græna litinn


Sest við tréð
horfi á eplin
banana, hnetur
á trjánum


Var Eden hér
sit ég við tré
skilnings og visku
í landinu græna


Var Eva brún
með svart hár
svört augu
Adam hvítur
með ljóst hár
blá augu


Enn eru eplin rauð
safarík sæt freistandi

(2004)

2009-04-21

Frá Filippseyjum - 7

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Suðræna hafið
sendir bárur
sínar að
ströndinni
sem dansa
við svartan
sandinn


Ég dansaði
við brúnu
konuna
með svörtu
augun í
heitum sandinum


Á Suðurhafseyjum



(2004)

2009-04-20

Frá Filippseyjum - 5

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Nokkur laufblöð
fallin til jarðar
fölnuð


Rósir á stalli
útsprungnar


Á morgun
allt eins


Nema við erum
farin



(2004)

2009-04-19

Frá Filippseyjum - 4

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Þetta land
dregur mig til sín
lengra inn í dimmgræna litinn


Þessi litur er að
trufla mig
kemst ekki frá honum


Ég vaki í honum
sofna í honum
dreymi í honum


Hann fylgir mér
heim

(2004)

2009-04-18

Frá Filippseyjum - 3. Gönguferð á Ulingfjall

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa




Ég geng lengra
og lengra
upp brekkuna

Horfi á grænar hlíðar fjallsins
alveg upp á topp

Niður í dalinn
dimmgrænan
litina í gljúfrinu

Ég heyri landið hvísla
við hvert skref:
Komdu lengra!

Ég er alveg að hverfa
í gilið dimmgræna
þá heyri ég kallað:

Afi hvert ertu að fara? Snúðu við!



(2004)

2009-04-17

Frá Filippseyjum - 2

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Dimm nótt
stjörnuhiminn
- Heillandi


Brún augu
fólksins
- Laðandi


Grænn litur
landsins
- Lokkandi


Landið sjálft
- Töfrandi



(2004)

2009-04-16

Frá Filippseyjum - 1

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Þessi djúpi litur
í dimmrauðum skýjum


Vindurinn blæs
á blöð pálmanna
sem blakta
eins og vængir


Og landið flýgur
með mig
á vængjum pálmanna
inn í dimmrautt
ský morgunroðans
við sólarupprás



(2004)

2009-04-09

Kvöld á Mallorka

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Kvöldroðinn
kveður á bak við vesturfjöllin
Vindurinn vaggar greinum
á trjátoppunum


Skordýrin hefja sinn kvöldsöng
Hafið kveður sinn þunglyndisóð
og sléttar spor mín í sandinum


Ég hverf í land drauma minna og vona.


(2003)

Haust

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég geng móti
vindinum
Haustlaufin
fjúka á götuna


Landið sést
rautt, gult grænt
Litirnir blandast
blóði mínu


Hjartað opnast
það sést inn í
drauma og liti
í rauðu blóði


Fjúkandi laufblöð
töfrasprotar

(2004)

2009-04-08

Fjalladansinn

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðu í Flóa


Bláu fjöllin með hvítu húfurnar og bláu og gráu augun
sáu grænu fjöllin með svörtu húfurnar og brúnu augun koma


Bláu fjöllin sögðu við grænu fjöllin:
Verið velkomin, baðið ykkur í heitum lindum okkar.
Drekkið úr tæru vötnunum


Fjöllin tókust í hendur og dönsuðu inn í draumanótt norðurljósanna

(2003)

Vetur

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Ég geng móti
vetrarkuldanum
Á ferð minni
bý ég til ljóð


Þau lyfta mér
til skýjanna
til Norðurljósanna
og stjarnanna


Þau gefa vængjum
mínum kraft
til að svífa um
heiminn og gleyma


Ferð mín er á góðum tíma
þegar ég kem aftur
finn ég spor mín
í snjónum



(2004)

2009-04-07

Hestar Jóns í Vatnsholti

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Móðurbróðir minn, Jón Brynjólfsson bóndi í Vatnsholti í Villingaholtshreppi var mesti hestamaður sem ég hef kynnst um ævina. Hann gat róað alla hesta sem hann kom nálægt. Hann talaði við þá, sagði alltaf „klárinn minn, því læturðu svona, vertu nú góður!" Marga hesta tamdi ég með aðferð Jóns. Jón átti móalóttan hest, með svart fax og tagl, mjög fallegan sem hann kallaði Mósa, undan Skarðs Nasa. Mósi var ekki stór, tæplega meðalhestur en var eldfjörugur og fallegur. Mér fannst alltaf gaman að sjá Jón á Mósa. Ef hestur og maður geta orðið eitt þá var það Jón og Mósi. Þennan fjöruga hest tamdi Jón fyrir vagn og sláttuvél. Þó Mósi væri rólegur fyrir vagninum var alltaf eitthvert leiftur í augum Mósa. Þegar Kolsholtsvegurinn var lagður var mölin keyrð á hestvögnum, 1-2 vagnar frá hverjum bæ. Venjulega voru hafðir tveir vagnar saman og einn strákur teymdi. Ég fór upp í malargryfju af forvitni, því ég þótti ekki nógu gamall til að vera kúskur eins og það var kallað. Jón kom með Mósa og vagn. Vagnarnir fóru af stað einn af öðrum. Nú var mokað í vagn Mósa. Mér datt í hug að ekki mundi Mósa líka að vera bundinn aftan í annan vagn því hann vildi alltaf vera á undan. Þegar vagninn var fullur sagði Jón allt í einu við mig: „Heyrðu Binni minn, heldurðu að þú viljir ekki teyma Mósa í dag?" Mér brá við, hafði ekki búist við þessu og sagði: „Heldur þú að ég geti teymt Mósa?" „Ég veit að það getur þú alveg örugglega" svaraði Jón. Ég fór til Mósa, tók í tauminn og strauk aðeins um höfuð hans. Hann beygði höfuðið og þefaði af mér frá fótum og upp á höfuð. Þá sagði Jón: „Vertu alveg rólegur drengur minn. Þetta verður allt í lagi hjá ykkur, en þú skalt lofa honum að ráða." Við Mósi fórum af stað og allt gekk vel. Ég hélt bara uppi taumnum. Mósi sá um hitt. Þegar búið var að losa vagninn var Mósi mjög snöggur að snúa sér við. Eins þegar komið var með tóman vagninn í malargryfjuna var enginn hestur eins fljótur að snúa sér við. Hann bakkaði af miklum krafti og snarstoppaði á réttum stað. Eftir þennan dag var það mitt verk að teyma Mósa þegar möl var keyrð í veginn. Það var orðin venja hjá okkur Mósa að byrja daginn. Ég klappaði honum, hann þefaði af mér frá fótum og upp á höfuð. Ég sá að Jón fylgdist með okkur en sagði aldrei neitt, en brosti aðeins.


Gráan hest fékk ég hjá Jóni í skiptum. Hann ætlaði að farga honum. Ég held að Jóni hafi fundist gott að láta mig hafa hann. Gráni var fallegur hestur, með svarta fætur og dökkt höfuð. Grána átti ég lengi. Hann var skapgóður, viljugur og þægur. Ég vandi hann fyrir vagn og sláttuvél. Yfir vetrarmánuðina var oft sleðafæri. Þá flutti ég mjólkina á sleða og oft dró Gráni sleðann. Einu sinni þurfti ég að bíða lengi eftir mjólkurbílnum. Þegar ég fór af stað heim tók Gráni snöggan sprett, ég réði ekki við hann og lét mig renna aftur af sleðanum, mér leist ekki á að vera á honum þegar Gráni tæki beygjuna inn á Kolsholtsveginn á svona mikilli ferð. Gráni hélt sprettinum alla leið heim og stóð rólegur við hesthúsdyrnar með sleðann og allt var í lagi.


Einum hestanna í Vatnsholti ætla ég að segja frá. Hann var bleikálóttur, með dökkt höfuð, fax og fætur og var kallaður Kolur. Sigurbjörg dóttir Jóns átti hann. Hún var ljósmóðir í Villingaholtshreppi. Það kom henni því vel að að eiga góðan hest. Kolur var stærri en Mósi og Gráni. Hann var viljugur hestur og þægur. Stundum sá ég Sigurbjörgu fara hratt yfir þegar hún var að sinna sínum ljósmóðurskyldum.



Þegar Jón hætti búskap og flutti til Kópavogs ásamt fjölskyldu sinni var Kolur á besta aldri. Nokkrum dögum áður en þau fóru kom Jón með Kol til mín og sagði við mig: „Ég ætla að biðja þig að geyma þennan hest fyrir mig á meðan hann getur lifað, ég get ómögulega fargað honum." Ég var undrandi á því trausti sem hann sýndi mér því ég vissi að honum var ekki sma hver var með hans hesta. Hann hélt á svipu og sagði við mig: „Ég ætla að gefa þér þessa svipu sem ég smíðaði sjálfur." Ég sagði við Jón: „Á ég að nota hana á hestinn?" Jón svaraði: „Ég veit að þú notar ekki svipu. Ég væri ekki að gefa þér hana ef svo væri. Svipuna á ég ennþá geymda hjá Ragnari. Kolur reyndist okkur mjög vel. Jón var búinn að temja hann fyrir vagn og sláttuvél, en ég setti hann sjaldan fyrir vagn. Við höfðum nóg af öðrum hestum til þess. Kolur var mjög skemmtilegur hestur, spakur, þægur og börn fóru á bak honum. Hann var ljúfur og góður, en þegar ég fór á bak honum breyttist hann í eldfjörugan hest og var þá oftast eins og mér líkaði best.
Einu sinni vorum við að sæta á engjunum og vorum seint að. Hestarnir voru tjóðraðir og orðnir leiðir að bíða eftir okkur. Sigríður systir mín fór á bak Kol. Marteinn sonur Kristínar systur minnar sem var þá 4 eða 5 ára hafði labbað til okkar út á engjar. Kolur vildi rjúka af stað og var eins og kappreiðahestur. Sigríður ætlaði að reiða Matta fyrir framan sig en Kolur sneri sér í hringi. Hún sagði við mig: „Réttu mér strákinn" Ég sagði: „Ég þori varla að láta hann á bak hjá þér á meðan hesturinn lætur svona." „Láttu hann bara koma" sagði hún. Ég tók Matta og setti hann fyrir framan hana. Þegar Matti var kominn á bak stoppaði Kolur og var alveg rólegur. Hann hætti að ólmast. Þegar þau voru orðin tvö fórum við í rólegheitum heim. Þegar ég sagði Jóni þessa sögu sagði hann: „Ég vissi alltaf að Kolur minn væri skynsamur hestur."


Veturinn 1951-1952 var mesti snjóavetur sem ég man eftir. Það rigndi og svo fraus og snjóaði alltaf ofan á bleytuna. Venjulegar girðingar voru á kafi í snjó. Á vetrardaginn síðasta var skafrenningur. Hrossin stóðu úti við moðbing sem ég henti fyrir þau. Allt í einu tók Kolur sprett, hljóp út á hóla sem heita Engjahólar og stóðu upp úr snjónum. Öll hrossin tóku sprettinn á eftir honum og stóðu þar hjá honum það sem eftir var dags. Um kvöldið kom hann heim og hópurinn á eftir honum. Ég sagði við foreldra mína að nú myndi verða veðurbreyting fyrst Kolur hegðaði sér svona. Daginn eftir var komin hlý sunnanátt með súld. Ég vil taka fram hér að það var til hús fyrir alla hesta sem við áttum.


Að lokum vil ég bæta einni sögu við sem Guðríður systir mín sagði mér. Þetta mun hafa verið vorið 1930. Þá var rjómi fluttur í Rjómabúið við Volalæk. Systur mínar fóru með rjómann. Þær komu við í Vatnsholti, tóku hest með reiðing og brúsum. Kristín sat á hestinum frá Vatnsholti. Hann var léttstígur og kvikur. Guðríður hélt að Stína myndi detta af honum, en all fór vel hjá þeim. Guðríður var 9 ára en Kristín 8.


Aldrei heyrði ég Jón tala um að hann ætti góða hesta. Ég sá að stundum mislíkaði honum ef hann sá aðra fara illa að hestum, en hann sagði samt aldrei neitt. Ég veit núna að ég lærði mikið af Jóni um meðferð hesta en ég gerði mér ekki grein fyrir því á yngri árum.


Í september 2004.

2009-04-06

Sagan af Gormi

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Sagan af Gormi
Ég heiti Gormur og er köttur. Það fyrsta sem ég man var að mamma var að þvo mér. Næsta var að þegar ég þurfti að pissa þá kom stór hönd mannsins sem lét mig í sandkassa og hann sagði við mig: „Gormur þú átt að fara í sandkassann þegar þér er mál." Ég lærði það fljótt.
Næst gerðist það að tveir menn komu á bæinn þar sem ég fæddist. Ungi maðurinn tók mig upp, strauk mér. Hönd hans var mjúk og það var góð lykt af honum. Ég fór strax að mala. Ég heyrði manninn segja: „Ragnar, þú mátt eiga þennan kött. Hann er fljótur að læra. Ég er búinn að kenna honum á sandkassann, hann er mjög hreinlegur og fer alltaf þangað þegar hann þarf."
Mennirnir tveir fóru með mig inn í bíl. Þar var skrýtin lykt og ég var hræddur. Ragnar hélt á mér og strauk mér. Ég varð fljótt rólegur. Þegar ég kom á bæinn þeirra, Galtastaði. Á Galtastöðum bjuggu hjónin Brynjólfur og Arndís. Ég heyrði Ragnar son þeirra segja: „Sjáðu mamma, mér var gefinn köttur. Hann heitir Gormur." Á bænum var stór hundur sem ég var hræddur við. Hann urraði á mig og ég hvæsti á móti. Eftir nokkra daga var ég ekkert hræddur við hundinn. Ég nuddaði mér við löppina á honum, hann sleikti mig þegar ég blotnaði og við urðum fljótt góðir vinir. Hundurinn var með stóra og loðna rófu sem hann sveiflaði til og frá. Ég fékk hann til að leika við mig mér því að hoppa upp og klóra í rófuna á honum, þá hljóp hann alltaf á eftir mér. Mamma Ragnars kenndi mér að banka á hurðina. Ég átti að lyfta spjaldinu á bréfalúgunni með löppinni og sleppa. Þá kom smellur sem fólkið heyrði og mér var hleypt inn.


Ég var mjög forvitinn og var alltaf að skoða eitthvað. Einu sinni kom stór bíll á bæinn. Ég skreið undir hann og þaðan gat ég hoppað upp á vélina sem var volg. Á meðan ég var að skoða þetta fór bíllinn allt í einu í gang og rann af stað. Nú varð ég mjög hræddur, en ég hélt mér fast í slöngur og leiðslur sem þarna voru. Eftir nokkra stund stoppaði bíllinn og ég hljóp niður. Ég sá að ég var kominn á annan bæ. Þarna var svartur ljótur hundur sem urraði á mig. Ég hljóp inn í heyhlöðu og tróð mér niður í holu á milli heybagga. Hundurinn urraði og gelti en náði ekki í mig. Ég var í þessari holu í þrjár nætur og þrjá daga og fór aldrei upp. Það var komin mjög vond lykt í holuna því þar var enginn sandkassi. Fjórða daginn heyrði ég í tveimur mönnum. Annar þeirra var pabbi Ragnars. Hann fann holuna sem ég kúrði í og sagði: „Aumingja Gormur mikið ertu orðinn sóðalegur. Hann setti mig í plastpoka og fór heim. Mamma Ragnars setti vatn og sápu í bala, tók mig og baðaði vel og vandlega og þurrkaði mér svo. Því næst setti hún mig undir stigann hjá hundinum sem sleikti mig. Ég svaf rólegur hjá hundinum og alltaf eftir þetta svaf ég á þessum stað. Svo liðu dagar og vikur. Ég lék mér við hundinn og kenndi honum að hreyfa spjaldið þegar við þurftum að komast inn. Hann hreyfði það með nefinu. Ég var að verða stór köttur og allir voru góðir við mig.


Eitt kvöld í rigningu heyrði enginn þegar ég bankaði. Þá skreið ég undir bílinn og upp á vélina og sofnaði. Allt í einu fór bíllinn í gang og rann af stað. Ég læsti klónum í slöngurnar og gat haldið mér en mikið var ég hræddur. Eftir langan tíma stoppaði bíllinn. Þá hljóp ég niður og út í myrkrið. Ég var kominn á annan bæ sem ég þekkti ekkert og faldi mig undir járnplötum sem voru þarna. Á þessum bæ var ég í marga daga. Ég var oft svangur og mér var kalt. Ég svaf undir járninu og lærði að finna mér í svanginn úr heyi sem hent var fyrir hestana á bænum. Þar voru græn sver strá og mjölkögglar. Ég náði líka í fugla sem settust í moðið til að tína korn og mýs sem skutust um þar. Ég rataði ekki heim á bæinn minn en langaði mikið þangað og ákvað því að leita að honum. Ég fór bæ frá bæ í marga daga og vikur og át úr moði sem var hent fyrir hestana á bæjunum og varð alltaf að fela mig fyrir hundunum á bæjunum. Einu sinni þegar ég var að fara milli bæja var ég hætt kominn. Ég labbaði út á ísi lagt vatn, en það geri ég sjaldan því köttum er illa við ís. Allt í einu heyrði ég smella í ísnum og hann rann af stað. Ég var kominn á ísjaka og vatn all í kring. Nokkra stund var ég á jakanum. Ég vildi ekki synda í land því vatnið var mjög kalt. Loksins rak jakann að einum bakkanum og ég flýtti mér upp á land. Þar fann ég hraunholu sem ég svaf í um nóttina. Um morguninn vaknaði ég við að eitthvert dýr með langan og mjóan haus kíkti inn og hvæsti. Ég urraði og hvæsti á móti. Næst þegar dýrið kíkti inn lamdi ég það með klónum beint á nefið svo blæddi úr. Þá hljóp það frá holunni. Ég var fljótur að hlaupa út í áttina að næsta bæ. Á þessum bæ var hundur og stór köttur. Þeir urruðu alltaf á mig þegar ég nálgaðist. Það var samt eitthvað þarna sem ég hafði séð áður og lyktina þekkti ég. Þetta var nefnilega bærinn sem ég fæddist á og þar sem mamma mín átti heima. En enginn þekkti mig þarna. Mig langaði mikið að hitta mömmu mína en alltaf þegar ég nálgaðist bæinn rak hundurinn mig í burtu. Ég var í nokkra daga nálægt þessum bæ en gafst svo upp og fór á næsta bæ. Þar var rólegur hundur sem skipti sér ekkert af mér. Ég skaust inn um opnar dyr inn í mjölgeymslu. Nóg var af mjölkögglum á gólfinu. Þarna leið mér vel, ég hafði nóg að éta og það var gott að sofa á bak við pokana. Eftir nokkra daga sá fólkið á bænum mig þegar ég labbaði um á hlaðinu. Ég heyrði mann segja: „Hver ætli eigi svona fallegan spakan kött?" Kona svaraði: „Ég man að það var auglýst í Dagskránni eftir svona ketti frá Galtastöðum. Þetta gæti verið hann. Það eru fjórir mánuðir síðan". Maðurinn sagði: „Ég fer í símann og tala við fólkið þar." Ekki leið langur tími þangað til bíll rann í hlað á bænum. Bílstjórinn fór inn í húsið svo kom fólk og sótti mig og lét mig upp á borð fyrir framan manninn. Ég sá undir eins að þetta var bóndinn á Galtastöðum þar sem ég átti heima. Hann þekkti mig ekki alveg strax en svo fór hann að strjúka mér og ég fór að mala. „Þessi köttur er mjög líkur Gormi", sagði hann. „Ég fer með hann og athuga hvort hann kannast við sig heima." Hann tók mig og setti inn í bílinn. Þegar bíllinn fór í gang varð ég alveg logandi hræddur, hljóp um allan bílinn og reyndi að komast út, en það var ekki hægt því allt var lokað. Ég skreið undir eitt sætið og lá þar á meðan bíllinn rann áfram. Mér fannst langur tími líða en loksins stoppaði bíllinn. Þegar ég kom út sá ég undir eins að ég var kominn heim að Galtastöðum. Hundurinn þekkti mig undir eins og eftir nokkra daga rifjaðist upp fyrir mér hvernig hreyfa átti spjaldið á bréfalúgunni til að komast inn. Þegar ég gerði það sagði Arndís: „Nú er ég alveg viss um að þetta er Gormur því hann er farinn að banka á hurðina." Ég fór líka að sofa hjá hundinum og þá voru allir orðnir vissir um að þetta væri ég.


Eftir þetta ævintýri fór ég oft að heiman því mér fannst flökkulífið skemmtilegt. Oftast fór ég þegar tunglið var fullt og norðurljósin voru björt. En ég rataði alltaf heim aftur.


(2004)

2009-04-05

Sagan af Kópi

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Sagan af Kópi byrjar einn sumardag í Flóanum árið 1968. Sólin skein og fjallahringurinn skartaði sínu fegursta og tíbráin titraði þegar litið var í áttina til hafs. Ég var að fara út eftir kaffi. Þá renndi bíll í hlað á Galtastöðum og lítil stúlka kom út ír bílnum með fallegan hvolp í fanginu. Hún heilsaði mér og sagði: „Vantar þig ekki hund?" Ég sagði „nei". Hún fór vonsvikin aftur inn í bílinn. En svo vildi til að dyrnar inn í bæinn voru opnar og Dísa heyrði til okkar. Hún sagði: „Taktu hvolpinn af henni, þú getur þá fargað honum ef hann verður vandræðagripur." Ég hljóp að bílnum þar sem hann var að snúa við, opnaði dyrnar og sagði við súlkuna: „ég skal geyma hundinn fyrir þig." Bjart bros færðist yfir varir stúlkunnar. „Hann heitir Kópur. Við erum úr Kópavoginum. Það eru tveir aðrir hvolpar heima og við vorum að vita hvort einhver vildi ekki eiga þennan úti í sveit. Ég er svo glöð yfir því að þú vilt eiga hann af því þá þarf hann ekki að deyja." Stúlkan faðmaði og kyssti hvolpinn þegar hún kvaddi hann. „Bless Kópur minn" sagði hún og nokkur tár komu niður kinnar hennar þegar hún fór inn í bílinn. Kópur var svartur með hvíta bringu og trýni, með dökkgulum svæðum á milli, mjög fallegur.


Erlingur, 15 ára fór strax að leika sér við hvolpinn. Ragnar, 7 ára var á næsta bæ. Þegar hann kom heim trúði hann varla að við ættum svona fallegan hvolp. Það kom fljótt í ljós að Kópur var mjög skynsamur hundur. Strákarnir léku sér mikið við hann. Þeir kenndu honum að sækja allt sem kastað var, spýtur og bolta. Þeir földu fyrir honum allskonar hluti og alltaf fann Kópur þá aftur, vildi þá ekki sleppa því og hafði gaman af að láta strákana elta sig. Hann var mjög hlýðinn og fljótur að læra. Einu tók hann upp á þegar hann var fullvaxinn hundur. Hann fór að hlaupa í kindur og hesta og vildi ekki hætta því. Eftir eina slíka ferð fékk hann skell á rassinn og hann stökk aldrei framar í fénað eftir það.


Á fyrri hluta ævi Kóps vorum við með heimalning, svartan hrút. Þegar búið var að gefa honum pelann kom Kópur og sleikti hann í framan. Hrússa líkaði þetta vel og hann stóð alveg kyrr. Þeir léku sér mikið saman. Kópur fékk hrútinn til að elta sig. Hann reyndi að stanga Kóp sem hljóp alltaf undan. Þeir tóku svo leikhlé, lögðust á túnið skammt frá hvor öðrum og horfðust í augu, alltaf tilbúnir að byrja aftur. Eftir því sem hrúturinn stækkaði varð leikurinn hraðari og æstari. Dag einn síðsumars, rétt áður en hrússi hvarf af vettvangi voru þeir að leika sér og ég sá að í þetta skipti var leikurinn óvenju harður. Þeir voru við götu sem lá fram að fjárhúsum. Þar voru nokkrar þúfur. Allt í einu heyrði ég Kóp væla og væla. Vælið hætti ekki. Ég fór því og athugaði hvernig ástandið væri hjá þeim. Greinilegt var að Kópur hafði ekki komist undan einni atlögu hrútsins og hafði lent á bakinu milli þúfna. Svartur lá svo á maganum ofan á honum, teygði frá sér afturlappirnar og lagði aðra framlöppina yfir hálsinn á Kóp, undir kjálkana svo hann gat ekki glefsað. Hann hélt Kóp alveg föstum svo hann gat ekkert gert nema vælt. Ég tók hrússa ofan af Kóp og hann var feginn að losna. Svartur stóð gleitt og horfði á Kóp sigri hrósandi með glampa í augum eins og hann vildi segja: „Í þetta skipti hafði ég betur." Eftir þetta atvik hætti Kópur mikið til að stríða hrússa.


Kópur var duglegur að þefa uppi mink. Einu sinni sá ég hann koma hlaupandi á eftir einum sem stakk sér beint í Galtastaðaflóðið. Kópur stakk sér á eftir. Þetta var á hans yngri árum og fáir hundar voru jafn duglegir að synda og hann. Minkurinn kafaði hvað eftir annað en alltaf styttist kafsundið. Loks hætti minkurinn að kafa, en synti í hringi. Kópur fór styttri hring, náði loks minknum og kom með hann dauðan að landi.


Strákarnir voru sífellt að leika sér við Kóp. Þegar snjór var á veturna lét Ragnar Kóp draga snjóþotu. Hann batt band í hálsólina, settist á snjóþotuna og kastaði spýtu eins langt og hann gat. Þá hljóp Kópur af stað en Ragnar sat á snjóþotunni og hafði mikið gaman af. Síðan var spýtunni kastað aftur og aftur. Stundum þegar þeir voru komnir langt út á tún þá kallaði ég í Kóp sem kom þá á harðaspretti heim. Bæði Ragnar og Kópur höfðu mikið gaman af. Kópur var með stærri hundum og fór nokkuð létt með þetta.


Kópur fór alltaf með mér á fjárhúsin. Á meðan ég gaf kindunum lék hann sér við þær. Hann fór með mér í fjósið og lá í fóðurganginum á meðan ég var að mjólka. Hann var ómissandi þegar verið var að sækja kýrnar á sumrin. Þegar fjósið og hlaðan var byggð var Kópur alltaf á iði í kringum smiðina. Þeir höfðu gaman af honum. Hann lá skammt frá þeim með spýtu fyrir framan sig sem þeir köstuðu stundum eða földu. Einu sinni settu þeir spýtuna upp á vinnupallinn. Kópur gafst ekki upp heldur klöngraðist upp stigann, en það var eitt það erfiðasta fyrir hann sem ég sá hann gera.


Á yngri árum Kóps gekk hundafár. Hundarnir á bæjunum í kring drápust. Hann fékk þessa pest og varð mjög veikur, lá kyrr og gat ekki hreyft sig. Það var ekki hægt að sjá annað en að hann myndi deyja. Við áttum súlfatöflur. Ég gat komið tveim töflum alveg niður í háls á honum og við sáum að hann reyndi að koma þeim niður með veikum mætti. Næsta dag var hann farinn að depla augunum og var aðeins betri. Ég lét töflur upp í hann og þær runnu niður. Næstu töflur sleikti hann úr hendi minni, var greinilega alveg viss um að þetta hjálpaði honum. Eftir nokkra daga var hann alveg búinn að ná sér eftir þessi veikindi.


Með aldrinum varð hann þungur á sér og nennti ekki að fara þegar ég þurfti að senda hann. Þá skaust hann bakvið háar þúfur og þóttist vera að gera þarfir sínar eða bara lagðist niður og faldi sig. Að lokum veiktist hann mjög alvarlega, gat ekki komið neinu frá sér og kvaldist mikið. Ég fór með hann til dýralæknisins sem sprautaði hann. Hann dó í aftursætinu í bílnum hjá mér og er grafinn hjá gömlu réttinni við Galtastaðaflóðið.


(2004)

Sögur af hestum

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Jarpur
Jarpan hest áttum við í Helli, mjög duglegan, skapmikinn og viljugan. Hann var taminn fyrir vagn og sláttuvél. Við strákarnir töluðum um að láta þá keppa, Kol og Jarp en við létum þá aldrei gera það því við vissum að báðir vildu verða fyrstir.
Oft lét ég Jarp draga sleðann í mjólkurflutningum, þá fékk hann stundum að ráða á heimleiðinni því mér þótti mjög gaman að fara hratt yfir hjarnið. Tvisvar fór ég í fjallferð og var þá með Jarp og Grána. Einu sinni á fjalli komum við seinni part dags með safnið úr Skaftholtsréttum í Skeiðaréttir. Þrír fóru í Hrunaréttir til að sækja Skeiða- og Flóafé. Þegar við komum í Skeiðaréttir fengum við þær fréttir að það væri svo margt fé úr Hrunaréttum að þeir réðu ekki við það þrír. Voru þá 5 eða 6 sendir þeim til aðstoðar. Ég var einn þeirra og fór á Jarp. Þegar við vorum staddir við Sandlæk kom Högni í Laxárdal á eftir okkur. Hann hafði verið með okkur á fjalli. Hann var á rauðum fallegum hesti, viljugum. Hann fór hratt yfir á hröðu brokki og fór fram úr öllum, en við Jarpur vorum fremstir. Högni ætlaði fram úr okkur líka. Ég gaf Jarp lausan tauminn en hann gat farið mjög hratt á brokki án þess að hlaupa upp. Við Högni vorum hlið við hlið, en alltaf var Jarpur hálslengd á undan. Við fórum hratt upp alla Sandlækjarmýri yfir Laxárbrú, en í brekkunni við Hólakot fór hestur Högna að dragast aftur úr. Þá kallaði Högni til mín og sagði: „Heyrðu Brynjólfur, eigum við ekki að stoppa, við erum orðnir svo langt á undan." Ég sagði það sjálfsagt. Þegar Högni fór af baki sagði hann: „Það er ekki hægt að segja að Flóamenn séu allir illa ríðandi."
Jarpur var fljótur að hlaupa og aldrei sá ég hest sem hafði við honum. Eitt sumarkvöld var unga fólkið úr Kolsholtshverfinu að fara á íþróttaæfingu út við Hróarsholtskletta. Allir voru á hestum. Það hafði rignt um daginn og allar götur blautar. Ég var á Jarp og var með þeim fremstu. Þá kom Magnús í Flögu á fjörugum hesti og fór mikinn. Hann fór fram úr öllum en þegar kom að okkur tók Jarpur kipp og ég réði ekkert við hann. Magnús var skammt á eftir og fékk drulluna yfir sig. Ég reyndi eins og ég gat að stoppa Jarp en án árangurs. Við stoppuðum ekki fyrr en heima á hlaði í Flögu. Þegar við fórum af baki var Magnús mjög drullugur í framan. Ég sagði við Magnús: „Fyrirgefðu, ég réði ekkert við hestinn." Hann sagði: „Ég réði ekkert við minn heldur."
Venja var að fara með hryssur í stóðhestagirðinguna í Yrpuholti. Stundum voru margir í hóp og var oft farið hratt yfir. Kvöld eitt var ég með í för þegar nokkuð stór hópur var á leið í girðinguna. Við áttum um einn kílómetra ófarinn að hliðinu. Þá bar þar að Sigurð í Kolsholti á bleikri hryssu sem hafði orðið fyrst á kappreiðum Sleipnis við Hróarsholtskletta helgina áður. Hann hleypti henni fram úr öllum. Þegar Sigurð bar að tók Jarpur mjög snöggan kipp og var á undan síðasta hálfa kílómetrann eða svo. Nokkrir menn voru komnir að hliðinu og þar á meðal Gestur í Hróarsholti. Þegar við stoppuðum gekk Gestur í hring um Bleiku hryssuna hjá Sigurði og sagði: „Er þetta ekki hryssan frá Haugi sem var fyrst í kappreiðunum?" „Það er rétt." Mælti Sigurður. „Hún hefur ekki við vagnhestinum frá Helli!" „Ég ætlaði ekki framúr," sagði Sigurður þá. „Við sáum allir að þú ætlaðir framúr" sagði þá Gestur. Þennan hest tamdi ég með aðferð Jóns í Vatnsholti.



Blesa
Þegar ég kom að Galtastöðum 1956 var þar rauðstjörnótt hryssa með rauðblesótt folald. Þessi hross voru komin af hrossum sem Guðmundur Ófeigsson og Erlingur Guðmundsson höfðu komið með frá Fjalli á Skeiðum. Sú blesótta var kölluð Blesa. Þegar hún var veturgamalt tryppi lenti hún á flækingi. Hún fór upp í Vorsabæjarhverfi og sama dag komst þangað hrossahópur úr Gegnishólahverfinu. Þangað var Blesa rekin með þeim hóp. Ég sá hana ekki meira þetta sumar. Um haustið sótti ég hana út að Bræðratungu í Stokkseyrarhreppi. Ég fór með gamla skjótta meri, Skjónu til að reka með henni. Við pípuhliðið í Holti stoppaði Skjóna, þefaði af því og gekk svo yfir á bitunum sem voru undir pípunum. Ég gat ekki stoppað hana því ég rak þær á undan. Blesa fór á eftir en annar afturfótur Blesu fór milli rimlanna. Hún féll niður og var föst. Þarna lá hún hreyfingarlaus. Ef hún hefði hreyft sig eitthvað þá hefði afturfóturinn brotnað. Ég flýtti mér heim að Holti, en spurning var hvort Blesa myndi liggja kyrr. Þeir Holtsbræður voru fljótir að koma, tóku með sér járnkarl og okkur tókst að rífa upp tvær pípur. Þegar þær voru lausar stóð Blesa upp, hljóp af stað og sá ekkert á henni.
Eftir þetta sumar fór Blesa alltaf á flakk. Það hélt henni engin tveggja eða þriggja strengja girðing. Hún stakk hausnum milli strengja og fór svo rólega í gegn. Þar sem girðingar lágu að lækjum eða flóðum þá óð hún bara fyrir endann. Tvö ár sótti ég hana að Litlu-Sandvík, eitt haustið að Hróarsholti. Sumarið eftir hvarf hún og ég vissi ekki fremur venju hvar hún var. Hrossaréttir voru afstaðnar og ekki kom Blesa fram. En seint í nóvember stóð hún einn morgun á bæjarhólnum. Daginn eftir gerði snjókomu með roki og frosti. Einn nágranni minn kallaði hana „vitlausu merina", en ég sagði að hún væri ekki vitlaus heldur gáfuð. „Kallarðu þetta gáfur – þessa óþægð?!" var spurt.
Þegar Blesa var orðin leiðitöm fór Ragnar á bak henni og reið henni eins og hún væri tamin fram og aftur um veginn. Þannig voru öll hross af þessu kyni, ljúf, góð og aldrei nein vandamál að temja þau. Ekki óþæg – heldur gáfuð.



Sprengja
Brúnskjótta hryssu kom ég með frá Helli að Galtastöðum. Hún var hálfsystir Jarps. Hún var ekki mikið tamin en þæg og viljug. Hún var með brúnt folald sem var hryssa undan Gáska frá Hrafnkelsstöðum sem var af Hornafjarðarkyni. Rétt eftir að ég kom með þessi hross að Galtastöðum flækti folaldið sig í gaddavír sem ég varð að klippa af henni. Hún fékk djúpan skurð frá snoppu, niður hálsinn og alla leið niður á hóf hægra megin. Ég smurði skurðinn með júgursmyrsli. Þetta var lengi að gróa en það greri vel. Eftir þetta var hún hrædd við vír alla sína ævi.
Ég byrjaði strax að temja hana. Þegar hrossin voru komin í hús strauk ég henni, tók upp á henni fæturna, klappaði henni og notaði aðferð Jóns í Vatnsholti við að róa hana. Þetta gerði ég frá því hún var folald. Ég varð alltaf að reka hrossin inn í hesthús til að ná í hana. Hún var mjög hrædd við vír og alla strengi. Ég lagði snæri á veginn og þó að öll hrossin hlypu yfir snærið þá gerði hún það ekki. Ég lagði snæri að hesthúsdyrunum og þá fór hún oft ein inn en hin hrossin hlupu yfir snærið. Ég fór ekki á bak henni inni í hesthúsi fyrr en hún var 5 vetra. Hún var lengi að róast og tamningin tók langan tíma. Ég fór ekki á bak henni úti fyrr en eftir langan tíma því þar var hún stygg. Hún sneri sér alltaf í hringi þegar ég fór á bak henni. Ég lofaði henni að snúast þangað til hún stoppaði, þá beið hún róleg þangað til ég var búinn að ná ístaðinu hinu megin en þá rauk hún af stað. Svo viljug var hún að ég réði varla við hana. Hún var oft æst og gaf frá sér soghljóð með nösunum sem ég heyrði aldrei frá nokkrum hesti. Af því hlaut hún nafnið Sprengja. Hún var stór, vel vaxin og falleg. Það kom enginn á bak henni nema ég og Erlingur. Nokkrum sinnum reiddi ég Ragnar fyrir framan mig bæjarleið. Til að ná honum á bak fór hann upp á brúsapallinn og fór á bak fyrir framan mig og hafði mikið gaman af. Þegar við komum aftur fór hann af baki á brúsapallinum.
Einu sinni mætti ég Jóni Pálssyni dýralækni á veginum. Hann stoppaði bílinn, kom út, skoðaði hana vel og vandlega, strauk henni, tók upp fæturna og sagði loks: „Viltu ekki selja mér þennan gæðing?" Ég sagði, það er til eitt orð yfir það: „Nei".
Sprengja varð því miður ekki gömul. Einn þurrkdag á miðju sumri fór ég fyrir hádegi upp að Selfossi. Þegar ég kom heim stóð Sprengja við hliðið upp í Dælur. Við vorum að keyra heim hey allan daginn. Þegar strákarnir fóru að sækja kýrnar sneru þeir við og komu hlaupandi til mín norður á tún og sögðu: „Hún Sprengja liggur dauð við hliðið." Hún var þá aðeins 15 vetra. Við grófum hana í hólinn fyrir norðan hliðið. Ég kallaði hólinn eftir það Sprengjuhól.
Eftir dauða Sprengju kom ég ekki mikið á hestbak. Mér fannst enginn hestur jafnast á við hana, átti ég þó alltaf hesta sem hægt var að koma á bak á meðan ég bjó í sveit.



(2004)

2009-04-04

Ásbúðir

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Borgarís skammt frá
Konungur íshallarinnar
andar köldu á landið
þoka breiðist yfir ströndina


Kvöldganga
fjörugrjótið
syngur við
fætur okkar


Hafið leikur
undir sinn
þunga óð við
sker og klappir


Kollur á eggjum
blikar við bakkann
bíða eftir að
ungar gári vatnið


Í fjarlægð
gagg í lágfótu
bíður færis að
færa björg í bú


Ásbúðir
töfraland
náttúrunnar
á Skaga


Júní 2005

2009-04-03

Um busavígslur

Nú er busavígslum framhaldsskólanna lokið enn eitt árið. Segja má að ef finna eigi sameiginlegt þema allra busavígsluathafna þá sé það niðurlæging. Þó einhverjir segist skemmta sér [1] þá er vart hægt að horfa framhjá því að nýnemarnir eru uppnefndir, boðnir upp, látnir skríða, drekka ógeðsdrykki, ganga drullubraut, það er krotað á þá með litum, þeir eru klæddir í skringileg föt, látnir leysa þrautir, það er öskrað á þá, skvett vatni eða hveiti og eldri samnemendur þeirra upphefja sig á móti með því að tapa sér inn í einskonar yfirboðarahlutverk sem oftar en ekki tekur á sig mynd harðneskjulegrar drottnunar. Hér er ekki verið að tala um neinn sérstakan skóla. Það nægir að slá inn örfá leitarorð, lesa bloggsíður og skoða myndir. Af þessum heimildum er yfrið nóg á netinu um þessar mundir.


Mín eigin busavígsludagskrá byrjaði með hefðbundinni niðurlægingarræðu þar sem við nýnemarnir vorum ávarpaðir á frekar óvirðulegan hátt. Síðan hófst eltingarleikur þar sem eldri nemar eltu busana uppi og handsömuðu þá. Að því búnu vorum við borin út í Laugarvatn, vatni var ausið yfir okkur og einhver orð borin fram. Loks var okkur hent í vatnið og þá var allt um garð gengið. Þetta var árið 1977. Þrátt fyrir bréf ráðuneytis [2] og góða viðleitni skólamanna til að hafa stjórn á málum [3] virðast athafnir þessar frekar hafa færst í aukana en hitt þegar horft er á langt tímabil. Leikrænir tilburðir hafa tilhneygingu til að aukast frá ári til árs og hættan á að einhverjir fari offari er alltaf nálæg. Skólamenn hafa gert það sem í þeirra valdi stendur til að draga úr þessu en það er eins og tíðarandinn ráði samt alltaf ferðinni.


Af hverju hafnar nemendasamfélagið ekki ákveðið öllum tilburðum til opinberrar niðurlægingar nokkurs hóps eða einstaklinga, jafnvel þó heita eigi að um leik sé að ræða?



Birtist 20.11.2005 á http://www.vina.net/


[1] http://www.valdisbjork.com/archives/2004/09/busavigslur.html
[2] http://www.fsh.is/news.asp?ID=390&type=one&news_id=313&menuid=
[3] http://www.flensborg.is/maggi/moggagreinar/busabol.htm

2009-04-02

Minningarbrot frá stríðsárum

Eftir Brynjólf Guðmundsson fyrrum bónda á Galtastöðum í Flóa

10. maí 1940 var tímamótadagur á Íslandi. Þá hernámu Bretar Ísland. Þeir tóku fyrst staði sem þeir töldu mikilvæga, þar á meðal Kaldaðarnes í Flóa því þar á bökkum Ölfusár var hægt að lenda flugvélum. Þeir geru fljótlega nothæfan flugvöll sem var mikið notaður sem æfingaflugvöllur.

Bretar auglýstu hættusvæði á Loftsstaðasandi niðri við sjóinn. Þar köstuðu þeir niður sprengjum dag eftir dag þegar veður leyfði. Flugvélar Bretanna tóku alltaf sveig upp á landið til að hækka flugið og steyptu sér svo niður að skotmarkinu sem var á sandinum. Einu sinni þegar þeir voru að hækka flugið misstu þeir niður sprengju sem lenti nálægt kúahjörð á Galtastöðum. Kýrnar stukku í allar áttir með halana upp í loftið. Fólkið var við heyskap þar skammt frá og var mildi að ekki hlaust slys af. Daginn eftir komu Bretar að skoða staðinn þar sem sprengjan lenti.

Jón Jónsson bóndi á Loftsstöðum átti trillubát á sandinum sem Bretar gerðu að skotmarki. Báturinn var allur sundurskotinn. Magnús Öfjörð sem þá var hreppstjóri í Gaulverjabæjarhreppi kærði þetta til sýslumannsins á Selfossi. Yfirmaður úr hernum kom að Gaulverjarbæ. Magnús fór með honum niður á sand að skoða bátinn. Þeir fóru að Loftsstöðum, hittu Jón og hann fór með þeim að skoða bátinn. Þegar þeir voru á leið þangað komu flugvél og fór að skjóta á bátinn. Magnús og hermaðurinn lögðust niður og kölluðu í Jón að gera hið sama. Jón sinnti því engu og gekk hiklaust áfram eins og ekkert væri. Flugmaðurinn hefur séð þá og hætti að skjóta á meðan þeir voru á sandinum. Þetta var síðasti bátur sem róið var frá Loftstaðasandi.

Seinnipart árs 1940 fóru þýskar flugvélar að koma upp að landinu. Í byrjun árs 1941 fóru þær að koma lengra með auknum bensínbirgðum. Auglýst var að þeir sem sæju þýskar vélar ættu að leggjast niður því þær væru á lágflugi þegar þær kæmu og af þeim gæti stafað hætta.
9. febrúar 1941 var bjart og gott veður. Þá var ég staddur á holtinu fyrir norðan Kolsholt að sækja hesta sem þangað höfðu farið. Þá sá ég flugvél í lágflugi koma úr suðri yfir Syðri Sýrlæk og stefna beint þangað sem ég var staddur. Ég fór að fyrirmælunum og lagðist niður milli hárra þúfna. Flugvélin flaug mjög lágt. Þetta var þýsk vél með hakakross á stélinu. Hún var svo nærri að ég sá flugmanninn vel. Smá gluggi hringlaga var aftur við stél og þar sat maður. Báðir voru þessir menn með stálhjálma en ekki skinnhúfur eins og sagt er frá í annarri frásögn. Frá mínum sjónarhóli séð flaug vélin beint í stefnu á Selfoss. Ég heyrði skothríð þegar hún skaut á varðstöð Breta við Ölfusárbrú. Vélin hækkaði síðan flugið og flaug vestur í mikilli hæð. Sagt er að hún hafi flogið yfir Reykjavík en mér fannst hún ekki lengi utan sjónsviðs. Ég sá hana vel þegar hún kom aftur úr þeirri ferð. Hún lækkaði flugið yfir Kaldaðarnesi og þá heyrði ég aftur skothríð. Að því búnu flaug vélin með ströndinni og var alltaf að hækka flugið. Síðast sá ég til hennar yfir Vestmannaeyjum. Þá fyrst sá ég tvær breskar flugvélar koma á eftir henni. Þær voru á móts við Stokkseyri og náðu aldrei til þeirrar þýsku. Í öðrum frásögnum er ekki minnst á þessar tvær vélar sem eltu. Þegar Bandaríkjamenn tóku að sér varnir Íslands voru alltaf tvær vélar í gangi úti á flugvelli til að fljótara væri að koma vélum á loft þegar þýskar vélar kæmu.

Skipalestir á leið til Rússlands fóru oft fyrir sunnan land og sigldu eins nærri landi og hægt var. Oft heyrðust sprengingar frá hafinu en mesta sprengingin sem ég heyrði var þegar stærsta herskipi Breta, Hood var sökkt úti af Reykjanesi. Þetta var mjög þung sprenging og mér fannst ég finna loftþrýstingsbylgju þó að fjarlægðin væri mikil.

Á stríðsárunum var útvarpað á íslensku frá Berlín einu sinni í viku í fimm mínútur í senn. Þessar sendingar voru á stuttbylgju og þær náðust yfirleitt ekki á útvörp sem seld voru á þessum tíma því stuttbylgjur voru teknar úr útvarpstækjunum. Í Kolsholtshelli áttum við gamalt þýskt Telefunken útvarpstæki með stuttbylgjum. Við settum upp loftnet af brekkubrúninni fyrir ofan bæinn, um 30 metra langt og yfir í íbúðarhúsið. Við hlustuðum á þessar útsendingar Þjóðverja því þær voru á íslensku. Það var minnst á þessar sendingar í blöðunum og við fundum þær. Íslendingur var þulur en hver hann var vissum við ekki. Framan af stríðsárunum var þetta lof um yfirburði þýska hersins. Einu sinni man ég eftir því að hann sagði að þýskar flugvélar væru „sprengfimari" en þær bresku. Tvö síðustu stríðsárin var þessum sendingum hætt. Nú er þetta gamla þýska Telefunken útvarpstæki á byggðasafninu á Flúðum.

Júní 2005.

2009-03-20

Heitir bærinn Galtastaðir eða Galtarstaðir

Birtist áður á http://www.vina.net/ í des. 2006

Í tilefni af umræðu og fréttaflutningi af fjarskiptamöstrum sem rísa áttu við bæinn Galtastaði á þessu ári langar mig til að tæpa á helstu atriðum um það sem mér er kunnugt um þetta bæjarnafn.
Í öllum þeim fréttum sem ég hef séð í blöðum Suðurlands um málið hefur bærinn alltaf verið nefndur Galtastaðir. Það er í samræmi við málvenju á svæðinu enda kannast enginn hér við að bærinn heiti Galtarstaðir.
Í Morgunblaðinu laugard. 25. nóvember 2006 er frétt af möstrunum á baksíðu og í fréttinni er bærinn ítrekað nefndur Galtarstaðir.
Mér er málið nokkuð skylt því á þessum bæ átti ég heima frá fæðingu árið 1961 og þangað til 1990. Allan þann tíma var bærinn alltaf nefndur Galtastaðir af heimilisfólkinu og mín fjölskylda hafði komið á bæinn 1926 eða 7. Ekki man ég eftir að neinn af okkar nágrönnum hafi nefnt bæinn öðru nafni.
Á kortum af svæðinu og skilti sem komið var upp við bæinn Bár af Gaulverjabæjarhreppi sem áður var stóð Galtastaðir - ekki Galtarstaðir.
Í Íslensku fornbréfasafni er til færsla líklega frá 12. eða 13. öld um álftahreiður í landi Galtastaða og sagt að þau tilheyri Gaulverjabæjarkirkju. Ég er ekki með heimildina tiltæka en ég man þetta örugglega. Í þessari heimild er bærinn nefndur Galtastaðir.
Í jarðabók Árna Magnússonar er bærinn aftur á móti sagður heita Galtarstaðir. Hvað því veldur er ekki gott að segja, hugsanlega svipaður ókunnugleiki og vart varð hjá Mogganum. Nú væri forvitnilegt hvaða skoðanir lesendur hafa á þessu máli. Er þetta bæjarnafn tilvísun í einhvern galta eða er felur nafnið í sér tilvísun í gölt og hafa heimamenn bara verið svona feimnir að nefna bæinn réttu nafni öll þessi árhundruð?

PS.

Ég fékk bréf frá Guðmundi Erlingssyni móðurbróður mínum um þetta og birti hér brot úr því með leyfi hans: "Göltur -- Sbr næturgöltur. Orðið galti þýðir líka ' litil heysáta´ og svo finnst mér endilega að galti væri notað um heystabba í heygörðum. Grýlukvæði Séra Brynjólfs Halldórssonar dáinn 1737.Úr vísu #67

Árdegis fór hún á burtu þaðan
gekk svo rakleiðis að Galtastöðum

Úr vísu #94

Að Galtastöðum gekk hún snemmendis.

Í Hrafns Sögu Sveinbjarnarsonar er maður nefndur Galti. Mér finnst það vera líklegasta skýringin á nafninu Galtastaðir, sbr Baugstaðir, Egilsstaðir, Torfastaðir, Ragnheiðarstaðir eru allir kenndir við menn. Grýlukvæðið er um Galtastaði austur á Héraði. Norðlendingar greiða lokka við Galtará eða státa af fræðimanni sínum, Guðbrandi Vigfússyni frá Galtardal í Dölum. Sunnlendingar og Austfirðingar eiga sína Galtastaði"

2009-03-19

Salzburgarnautið

(Birtist áður á ragnargeir.blog.is)

Salzburgarnautið eða Salzburg Stier er heiti á hljómpípuorgeli sem geymt er í kastalanum í Salzburg, nánar tiltekið Hohensalzburg virkinu stærsta kastalavirki í Evrópu sem gnæfir í meira en 100 metra hæð yfir borginni og sem byrjað var að byggja á 11. öld. Það var erkibiskupinn í Salzburg, Leonard von Keutschach sem jafnframt var hertogi og stjórnandi Salsburgar sem í þá tíð var sjálfstætt hertogadæmi sem lét byggja Salzburgarnautið árið 1502 til að nota það sem klukku og sírenu fyrir borgina. Til að byrja með gat orgelið aðeins gefið frá sér fáa hljóma og þegar þeir glumdu minnti hljómurinn á nautsbaul. Salzborgarar voru því fljótlega farnir að kalla spilverkið í kastalanum 'nautið'. Frá árinu 1502 hefur nautið baulað þrisvar á dag til að gefa borgarbúum til kynna hvað tímanum líður. Fyrir 500 ára afmælið árið 2002 var 'nautið' tekið í gegn og lagfært.

Á þessum tíma hefur 'nautið' þróast talsvert frá því að geta spilað fá tóna yfir í að geta spilað lög. Meðal þeirra sem sömdu lög fyrir Salzburgarnautið var Leopold Mozart faðir Wolfgangs Amadesusar Mozart. Hann endurbætti 'nautið' þannig að hægt var að koma tólf lögum fyrir á tromlunni sem stjórnar spilverkinu og því var hægt að skipta um lag sem nautið spilaði fyrir hvern mánuð ársins.

Nýlega var ég á ferðalagi á þessum slóðum og á skoðunarferð um kastalann var stöðvað við lítinn glugga þar sem hægt var að sjá inn í herbergi 'nautsins'. Ég varð svo hissa yfir því sem ég sá að ég steingleymdi að taka mynd en þetta var eins og að horfa á risavaxna spiladós. Þarna var tromla sem pinnar gengu út úr rétt eins og í litlum spiladósum nema þessi var mjög stór. Á netinu fann ég að tromlan er 5 fet og 7 tommur á lengd og 9,8 tommur í þvermál! Hljómurinn kemur frá orgelpípum sem eru um meter á hæð það mesta. Ekki heyrði ég í 'nautinu' í þetta skiptið en kannski verður það síðar. Gaman væri ef einhver lesenda þessara orða hefur heyrt í því hljóðið. Frá árinu 1997 hefur Salzburgarnautið verið á heimsminjaskrá UNESCO.

Heimildir:
http://www.salzstier.com/
http://www.salzstier.com/stierpics.htm



(Birtist áður á ragnargeir.blog.is)

2009-03-18

Tvær stuttar frásagnir af Ólafi Ketilssyni

Birtist áður á www.vina.net í nóvember 2006

Fyrri árin sem ég stundaði nám við Menntaskólann að Laugarvatni (1977-1981) vorum við menntaskólakrakkarnir svo heppin að sá frægi maður og þá þegar þjóðsagnapersóna í lifanda lífi Ólafur Ketilsson ók okkur til og frá staðnum. Þegar ég lít aftur þá skil ég alltaf enn betur og betur að í þessum aldna en harðsnúna rútubílstjóra bjó stórbrotinn og eftirminnilegur persónuleiki. Einu sinni sem oftar sat hann með í bílnum þegar stórum hóp nemenda var ekið en ók ekki sjálfur. Ég man nú ekki hvert en þetta var bíll af stærstu gerð og fullur af nemendum. Ólafur greip hljóðnemann í rútunni og hélt langa tölu algerlega blaðalaust. Ræða hans var á léttu nótunum en þó með alvörugefnum undirtónum. Honum varð tíðrætt í ræðunni um þeytinginn á nútímafólkinu. Hvernig rótleysi fólks væri sífellt að aukast og allt byrjaði þetta með því að konunum væri ekið að heiman og á fæðingardeildina, síðan væri börnunum ekið í skólann og loks væri það á sífelldum þeytingi til og frá í vinnuna. Þannig spann gamli maðurinn fram og til baka og engum leiddist á þeirri leið.

Á síðasta ári Ólafs [sem sérleyfishafa] eða því næstsíðasta sat ég einu sinni sem oftar í rútunni og hittist þannig á að ég sat í næsta sæti fyrir aftan Ólaf. Hann ók ekki bílnum en sat á spjalli við mann að sjá lítillega yngri en hann sjálfur var. Ekkert man ég hvað þeir ræddu en það sem Ólafur sagði var aldrei kveðið í hálfum hljóðum heldur heyrðu nærstaddir hvert orð og það skýrt og greinilega. Þegar við nálguðumst Laugarvatn sagði Ólafur stundarhátt en með þunga svo þeir sem nálægt voru tóku enn betur eftir: „Þegar eg leggst í rúmið þá verður það eilífðarrúmið". Hann sagði þetta nákvæmlega svona. Ekki með 'je' hljóði heldur e- hljóði í eg. Setningin var svo meitluð að ég man hana enn þann dag í dag þó liðin séu meira en 25 ár frá því hún var sögð. Ekki er mér kunnugt um hvernig síðustu ár Ólafs voru en ég hygg að þau hafi verið í þá veru sem hann ætlaði og að ekki hafi hann „lagst í rúmið" fyrr en hann lagðist í eilífðarrúmið.

2009-03-17

Vísa úr sumarbústaðnum

Birtist áður á http://www.vina.net/ í júlí 2006

Þessa vísu setti ég saman eftir skemmtilega sumarbústaðaferð í sveitina milli sanda um helgina.

Ekki er laust við að á mig sæki uggur,
Bærðust jú ekki þessar heytuggur?
Hví finnst mér ég hvorki heill né hálfur,
getur verið að á mig stari pínulítill álfur?
Ég gjóa augum órólega upp á fjöllin,
eru þau kannski að horfa á mig tröllin?

2009-03-16

Tvær óþekktar vísur

Birtist áður á www.vina.net í júní 2006

Kannast einhver við þessa vísu, getur verið að hún sé eftir Símon Dalaskáld líka?
Flóanum hef ég ama á
er þar draugasalur,
Illt er þér að flæmast frá
fallegi Laugardalur.


Þessi hlýtur að vera eftir Leirulækjar-Fúsa:

Ammara vammara skammara skrum
illt er að vera í Flóanum.
Ammara vammara skammara skrið
þó er enn verra Ölfusið.

2009-03-15

Tvær vísur eftir Símon Dalaskáld

Birtist áður í júní 2006 á vefsetrinu www.vina.net

Ömmubróðir minn Guðmundur Jónsson sem bjó mest alla sína ævi á Syðra-Velli í Gaulverjabæjarhreppi sagði mér frá því að Símon Dalaskáld hafi eitt sinn komið að Syðra-Velli. Það mun hafa verið á fyrsta áratug 20. aldarinnar. Ekki man ég hvort hann segði að Gvendur dúllari hafi verið með í för en ég man eftir vísu sem Guðmundur fór með og sagði að Dalaskáldið hefði skilið eftir. Hún er svona:

Jón á Völlum velbýr snjöllum huga.
Fimm á dætur fallegar
og fjóra mæta synina.

Dæturnar voru: Guðrún Júlía, Halla, Guðbjörg, Guðlaug og Rannveig. Synirnir voru Guðmundur, Sigmundur, Árni og Sigurður. Þau voru fædd fyrir eða um aldamótin 1900.

Aðra vísu orti Símon Dalaskáld um Guðrúnu Júlíu ömmusystur mína. Hún er svona:

Hefur lifað átján ár,
elsku vekur hlýja.
Heimasætan hrein og klár
hún Guðrún Júlía.

Júlía eins og hún var alltaf kölluð var fædd árið 1887. Þetta hefur því væntanlega verið ort árið 1905.

2009-03-14

Hulduhundurinn

Saga þessi gerist á síðari helmingi 20. aldar á sveitabæ á sunnanverðu Íslandi í héraði því sem stundum er nefnt Flói. Það var á dimmu vetrarkvöldi. Það snjóaði og kyngdi snjónum niður í stórum flyksum. Bóndinn á bænum hafði farið út í fjósið til að mjólka kýrnar ásamt tengdaföður sínum. Á þessum árum rann mjólkin ekki í rörum eins og síðar varð heldur þurfti að bera mjaltavélaföturnar með mjólkinni í út í mjólkurhúsið í hvert skipti þegar þær fylltust. Þar var mjólkinni hellt í gegnum sigti niður í stóra brúsa, svonefnda mjólkurbrúsa. Þannig var það líka þetta tiltekna kvöld. Mennirnir mjólkuðu þegjandi, hlustuðu á útvarpið og skellina í mjaltavélunum. Mjólkurhúsið á þessum bæ lá rétt við útidyr fjóssins og var beygt til hægri inn í mjólkurhúsið strax og komið var út úr fjósinu.


Einu sinni sem oftar fór bóndinn með fulla mjaltavélarfötu út í mjólkurhúsið og hellti úr henni í mjólkursigtið. Þegar hann snýr sér við til að ganga út úr mjólkurhúsinu þá sér hann að í dyrum mjólkurhússins stendur stór og fallegur alhvítur hundur, loðinn með lafandi eyru og horfir á hann. Bóndinn sneri inn í fjósið og kallaði á tengdaföður sinn að koma og sjá hundinn.



Hundurinn bakkaði aðeins á meðan bóndinn fór framhjá honum og hann horfði á bóndann með vinarglampa í augunum. Bóndinn kenndi í brjósti um hundinn sem var einn á ferð. Það snjóaði mikið og honum datt í hug að hundinum hlyti að vera kalt og réttast væri að gefa honum einhverja hressingu. Mjólkurhúsið var lítið og bóndinn þurfti ekki annað en snúa sér við til að teygja sig í mjólkurdreytil í dalli sem þarna var. Við það sneri hann baki í hundinn andartak. Þegar hann sneri sér við aftur var hundurinn horfinn og engin fótspor eða nein önnur ummerki um að þarna hefði dýr verið á ferð var að sjá í nýföllnum snjónum við mjólkurhúsdyrnar. Í því bili kom tengdafaðir hans innan úr fjósinu til að sjá hundinn. Bóndanum og tengdaföður hans þótti þetta að vonum mjög undarlegt en þeir höfðu ekki mörg orð um þetta.


Leið nú tíminn með sínu daglega lífi veturinn og vorið. Engar sýnir né neitt óvenjulegt bar fyrir bóndann þangað til sumarnótt eina. Dreymir hann þá að tengdamóðir hans sem einnig var búsett á bænum kemur til hans og segir honum að maður sé kominn á bæinn sem vilji finna hann. Í því bili vaknaði bóndinn því sonur hans á barnsaldri sem svaf í rúmi við hliðina á bóndanum vakti hann til að fara með sig á snyrtinguna. Bóndinn sinnir barninu og sofnar aftur vært. Dreymir hann þá enn að hann sé á gangi á leið að fjárhúsunum á bænum. Í draumnum kemur þá í veg fyrir hann hvítur hundur. Þá fannst bóndanum að hann þekkti í draumnum hundinn sem hann sá í mjólkurhúsdyrunum um veturinn. Bóndanum finnst hundurinn vilja að hann komi með sér og man hann þá eftir tengdamóður sinni úr fyrri draumnum og að maður sé kominn að finna sig. Fer hann þá heim að bænum. Finnst honum þá að á hlaðinu standi stórvaxinn maður, hörkulegur í yfirbragði með tvo hvíta hesta með sér búna reiðtyjum. „Það er ekki auðvelt að ná í þig" sagði maðurinn. Ég vil biðja þig að koma með mér og hjálpa konunni minni sem ekki getur fætt." „Heldur þú að ég sé rétti maðurinn til þess?" varð bóndanum að orði. Maðurinn svaraði því játandi. „En ég þarf að sinna drengnum og ég er ekki mikið klæddur - er bara á nærskyrtunni" sagði bóndinn. „Þú hefur þegar sinnt drengnum - hann vaknar ekki sagði maðurinn. Það er sumarnótt og þér mun ekki verða kalt." Sá bóndinn þá að best væri að vera ekki með fleiri mótbárur og steig á bak öðrum hestinum. Riðu þeir nú af stað og fóru krókaleið nokkra frá bænum. Bóndanum fannst sem hann hefði aldrei komið á bak eins góðum hesti. Honum fannst reiðleiðin nokkuð dulúðug en áttaði sig þó á því hvar leið þeirra lá. „Ég sé að þú veist hvert þú ert að fara" sagði maðurinn en ég varð að taka áhættuna. Riðu þeir nú sem leið lá að stað nokkrum í sveitinni þar sem ekkert var venjulega nema hóll nokkur. En nú brá svo við að bóndanum sýndist hóllinn vera lítill og snyrtilegur bær.


Gengu þeir inn í bæinn. Þar inni lá kona í rúmi og gat hún ekki fætt. Bóndanum virtist hún nokkru yngri en maðurinn sem sótti hann. Bóndinn var enn undrandi í draumnum yfir því að hann hefði verið valinn til þessa hjálparstarfs og fannst sér nokkur vandi á höndum þar sem hann hafði aldrei aðstoðað við barnsfæðingar þó verið hefði viðstaddur eina slíka. Honum datt því loks í hug að segja við konuna: „Ef þú nærð að slaka á milli hríða þá kemur þetta." Að svo búnu lagði hann hönd á kvið konunnar. Konan reyndi að fara eftir þessu ráði og fljótlega fæddist barnið sem var drengur. Bóndanum fannst sem ósýnilegar hendur tækju á móti því og það var farið með það frá. Eftir það tók konan til máls og sagði: „Ég veit að þú vilt ekkert þiggja fyrir þetta, en ef þér snýst hugur og þú vilt einhvern tíma þiggja aðstoð þá skaltu hengja rúmteppið af hjónarúminu út þrjá daga í röð og þriðja daginn skaltu brjóta teppið saman á sérstakan hátt." En daginn áður en bóndann dreymdi drauminn hafði rúmteppi hjónanna á bænum einmitt verið þvegið og hengt út á snúru. Konan hélt áfram og lýsti fyrir bóndanum hvernig teppið ætti að vera brotið saman á snúrunni. Eftir það kvaddi bóndinn og maðurinn sem hann hafði séð fyrst fylgdi honum heim á hestunum. Morguninn eftir vaknaði bóndinn, mundi hann drauminn og þótti hann all raunverulegur í minningunni.


Liðu nú árin. Ekki kom til þess að bóndinn teldi sig þurfa á því að halda að leita á náðir draumkonunnar með eitt né neitt. Bæði var að hann var vantrúaður á að það breytti neinu en einnig var til staðar efi um að rétt væri að leita á náðir afla sem ef til væru, væru jafn framandi og efni draumsins hafði gefið til kynna. Nokkrum árum síðar ákváðu þau hjónin samt að prófa að hengja rúmteppið út á snúru og brjóta það samkvæmt fyrirmælum draumkonunnar. Skömmu síðar dreymir bóndann að hann sé á gangi á vegi. Mætir hann þá draumkonunni og leiddi hún við hlið sér ungan dreng. Konan snýr sér að honum og sagði: „Ég skal reyna að liðsinna þér í þessu, en ég veit ekki hvort ég get gert mikið." Við svo búið endaði draumurinn en bóndinn mundi hann samt vel þegar hann vaknaði og var fyrst í stað ekki alveg viss hvort þetta hefði borið fyrir í vöku eða draumi.


Lengri er þessi saga ekki. Bóndinn var ófáanlegur að segja frá hvaða úrlausnarefni það var sem hann bar upp við draumkonuna, né heldur hvort liðsinni hennar hefði borið árangur. En hvað hundinn varðar þá hefur hann ekki sést í Flóanum hvorki fyrr né síðar til þessa dags svo vitað sé.

Birtist fyrst 14.02.2006 á vefsetrinu http://www.vina.net/

2009-03-13

Tvö næturljóð

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



I


Nú blæs golan
um fjallatinda
áður saung smalinn
við rætur fjallsins


Máni, stjörnur
norðurljós, fjallið
speglast í ánni
ljósbrot í bárum


sem finna
töfrastrengi
hörpunnar
við bakkann


Ég hlusta á saung næturinnar


II


Tæra táralind
í nótt sá ég
tár falla
hver felldi þau
Hvar læknaðist
hjarta með tárum


--
27. nóv. 2005.

2009-03-12

Vetrarblóm

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa

Frostrós á ís
útsprúngin
breiðir út
blöð sín á ísinn

Ég skautaði
á ísnum
gerði rispur
í blöð þín
vetrarblóm


Nú geymi ég gömlu
skautana mína á safni


(28.1.2006)

2009-03-11

Skeiðað framhjá skýjakljúfum

Flestum ætti að vera kunnugt um tillögur athafnamanna að skipuleggja svæði og reisa 15 hæða blokkir í miðju Selfoss, svokallaða Miðju.[1] Allur áhugi og framtakssemi í þessum málum er jákvæður og hann ber að lofa. Þetta vekur eflaust marga til umhugsunar um að Selfoss er hægt og bítandi að breytast úr sveitaþorpi í meðalstórt bæjarfélag og ekki sé fráleitt að fara að huga að heildarmynd bæjarfélagsins, sérstaklega þar sem tóm og rými gefst enn til slíkra hugleiðinga.
Í þessu ljósi er vert að gefa gaum að menningarlegu og sögulegu umhverfi staðarins og því hvernig hann hefur byggst upp. Það sem einkennir staðinn er fyrst og fremst flatlendi og landrými virðist nægilegt þegar horft er þangað. Fjöllin eru þó ekki langt í burtu og mynda fallegan sveig fyrir norðan.


Menning svæðisins er hefðbundin íslensk sveitamenning, sem hefur orðið fyrir áhrifum frá verslunarstaðnum Eyrarbakka og menningarstarfsemi tengdri Húsinu þar. Ungmannafélögin tóku upp þráðinn um það leyti sem áhrif Eyrarbakka tóku að dvína með öflugu starfi, aðallega á sviði íþrótta í seinni tíð, en einnig framan af á leiklistarsviðinu og sú hefð er sterk. Tónlist er áberandi og birtist hún aðallega í öflugri starfsemi kóra.



Hvað byggingarstíl varðar þá er Selfoss lítið frábrugðinn öðrum íslenskum bæjum hvað varðar útlit húsa. Þó eru komnar nýjar hugmyndir um byggingu torfhúsa í gömlum íslenskum stíl. Búið er að reisa eitt hús og fellur það afar vel bæði að umhverfinu og hönnun hússins lýsir smekkvísi og því hvernig hægt er að laga gamlar og sígildar hugmyndir að nýjum tíma. Þessi hefð er skammt undan bæði í tíma og rúmi. Skammt frá Selfossi í Meðalholtum í Gaulverjabæjarhreppi er líka gamall torfbær og rætt hefur verið um að koma þar upp miðstöð íslenska torfbæjarins.
Á Selfossi er einnig athyglisvert að hesthúsin eru nálægt byggðinni. Í mörgum tilfellum gat fólk ekki skilið við hestana sína þegar það flutti úr sveitunum til Selfoss. Og það var heldur engin ástæða til þess. Hestar, ásamt hundinum eru bestu vinir mannanna og það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað dýrin geta gefið, þó þau séu ekki lengur til brúks.



Ég er nokkuð á því að Selfyssingar af gamla skólanum séu sveitamenn inn við beinið. Ég meina þetta í jákvæðri merkingu og skal alveg viðurkenna það hér og nú að ég lít á mig sem sveitamann og ég skora á fleiri að koma út úr skápnum með það. Ég er sveitamaður og ég er stoltur af því. Ég bý á Selfossi. Ég vil að hinir sveitamennirnir hafi pláss fyrir hestana og hundana sína. Ég vil þeir geti farið í útreiðartúr án þess að leggja upp í langferð eða skeiða framhjá skýjakljúfum. Ég vil labba úti með hundana mína í flötu landslagi Flóans og hlusta á fuglasönginn í móanum. Ég er fæddur á flatlendi og mig logsvimar í loftköstulum. Mér finnst ekki gaman að horfa niður á fólk en hef þeim mun meira gaman af að hefja augun til fjallanna án þess að mikið beri á milli. Lyftur eru líka fráhrindandi, þær gefa frá sér póstmódernískt hviss auk þess sem maginn hefur upp raunsæislegt gagnrýnisgaul. Þó stiginn styrki þá mæðir að labba upp meira en fjórar hæðir. Gæludýr af stærri gerðinni og tónlistariðkun eru litin hornauga í háhýsum. Þegar risastór hús taka að eldast verða þau yfirleitt frekar óspennandi.



Athyglisverð er ný tillaga á Akureyri að byggja nýja verslanamiðstöð inn í brekku, setja á hana torfþak og láta hana þannig falla að landslaginu. Við þurfum meira af því hugarfari hérna sunnan heiða. Háhýsi munu aldrei falla inn í landslag Flóans. Sá byggingarmáti á þessu einu flatlendasta svæði landsins þar sem landrými er nægt er eins óviðeigandi og hægt er að hugsa sér.

Heimildir:
[1] http://ee.is/arborg/





Birtist fyrst 13.1.2007 á vefsetrinu http://www.vina.net/

2009-03-10

Um upplýsingatækni í skólastarfi

Föstudaginn 3. mars sl. sótti ég ráðstefnuna UT 2006 sem haldin var í hinum nýja og glæsilega Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Ég hafði bæði gagn og gaman af ferðinni. Umgjörð ráðstefnunnar og framkvæmd hennar var vel heppnuð og eiga aðstandendur hennar þakkir skildar. Boðið var upp á það nýmæli að í aðal ráðstefnusalnum var fartölva á hverju borði og bauðst ráðstefnugestum að varpa athugasemdum upp á tjald í gegnum msn. Þetta stuðlaði að því að losa um málbein ráðstefnugesta og umræðurnar urðu bæði fjörlegri og líflegri en þær hafa verið á undanförnum ráðstefnum. Fjallað var m.a. um kennsluaðferðir, dreifmennt, menningarnet, hefðbundnar og nýjar kennsluaðferðir, hugkort, íslenskunám á netinu, heimanám, verklag og verkstæðiskennslu, hljóðglærur,sveigjanleika og einstaklingsmiðun og námsumhverfi. Boðið var upp á samtal við nemendur og prófun á námsumhverfunum Angel, Námsskjárinn, WebCT, MySchool og Moodle.


Ég er á því að hagnýting upplýsingatækni sé gagnleg og verði að vera
samofin skólastarfi. Þeir eru t.d. fáir í dag sem efast um kosti fjarnáms sem hefur eflst mjög með nýjungum í tækni. Það hefur sýnt sig að fleiri hafa átt möguleika á að sækja sér menntun en ella hefði orðið án tilkomu þess og því hlýtur það að hækka menntunarstigið. Öll þessi beiting tækni í þágu menntunar krefst samt tveggja forsendna. Í fyrsta lagi þá verða tækin að vera til staðar og í öðru lagi þá þarf fólk að kunna að nota þau sér til gagns. Líklegt er að með nýjungum í framleiðslu takist að gera t.d. fartölvur ódýrari, léttari og endingarbetri en verið hefur svo vonandi munu þeir framhaldsskólanemendur sem þess óska geta verið með slíkan grip í sinni umsjón áður en mörg ár eru liðin. Síðari forsendunni eru gerð góð skil í íslenska grunnskólakerfinu svo flestir ættu að geta orðið „tölvulæsir" áður en skólaskyldu lýkur.
Þó að þetta hljómi vel þá þarf nú samt að vera á varðbergi gagnvart því að „menntunargap" myndist milli hópa sem ekki ná að koma til móts við forsendurnar tvær. Hér á Íslandi eru það líklega helst fatlaðir, nýbúar og börn þeirra og svo má gera ráð fyrir að efni skorti í einhverjum tilfellum. Þess þarf að gæta að hanna lausnir og hafa til taks sem koma til móts við þarfir fatlaðra. Einnig þarf að huga að fræðslu á þessu sviði bæði fyrir nýbúana og börn þeirra. Líklega mun það vera þannig um næstu ár og áratugi að hingað flyst fólk sem hefur aldrei notað tölvu. Samfélagið þarf svo að tryggja að efni standi ekki í vegi fyrir nauðsynlegri menntum í neinum tilfellum. Að þessu þarf að huga.



Birtist fyrst 6.3.2006 á vefsetrinu http://www.vina.net/

2009-03-09

Þuríður og Kambsránið - um sýningu Leikfélags Selfoss

Þetta er endurbirt grein sem birtist fyrst í mars 2006 á vefsetrinu www.vina.net


Föstudagskvöldið 17. mars sl. fór ég í leikhúsið við Sigtún á Selfossi og sá uppfærslu Leikfélags Selfoss á verkinu „Þuríður og Kambsránið" eftir Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson, en það er byggt á sögu Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi. Leikstjóri er Jón St. Kristjánsson.


Þær sýningar í leikhúsinu við Sigtún sem ég hef farið á eru allar eftirminnilegar og þessi er engin undantekning. Gamla Iðnskólanum á Selfossi var breytt í leikhús með sal sem rúmar á að giska 100 manns í sæti. Á viðarþiljuðum veggjum hanga myndir sem tengjast þeim verkum sem Leikfélagið hefur sýnt í gegnum tíðina. Leikhúsgestir skrá sig í gestabók í litlu anddyri. Miðasalan er ekki bakvið lúgu heldur skrifborð þegar inn er komið. Það er eitthvað við þessi gömlu og þröngu leikhús sem heillar. Eitthvað persónulegt innilegt og nálægt. Svipuð tilfinning og ég fann alltaf fyrir í Iðnó, gamla leikhúsinu við Tjörnina í Reykjavík, nema hér er hún sterkari. Nálægð Ölfusár spillir ekki fyrir, sem og nálægð kaffi Krúsar en leikhúsið stendur handan við árgötuna skammt frá ánni en líka steinsnar frá Austurveginum. Leiksýningar leikfélagsins síðustu ár hafa allar verið farsælar að því er ég best veit. Það má leika sér að þeirri hugsun að þessi fallegi rammi eigi sinn þátt í þeirri velgengni án þess að gert sé lítið úr því sem á fjölunum hefur birst, það hefur staðið fyrir sínu.



Varla fyrirfinnst sá maður á þessum slóðum sem ekki þekkir sögu ránsins í Kambi en rétt er að kynna þetta aðeins fyrir ókunnugum.
Leikritið er byggt á sögu fræðimannsins Brynjólfs Jónssonar frá Minna-Núpi af sögunni af Þuríði formanni og Kambránsmönnum sem kom fyrst út 1893. Sú saga byggir á munnlegum heimildum og frásögnum af því þegar fjórir grímuklæddir menn brutust inn í bæinn í Kambi í Villingaholtshreppi aðfaranótt 9. febrúar 1827, bundu bóndann og heimilisfólk og rændu umtalsverðum fjármunum. Í kjölfarið fylgdi ein fyrsta nútímalega lögreglurannsókn hérlendis sem framkvæmd var af Þórði Sveinbjörnssyni sýslumanni Árnesinga. Það var ekki síst fyrir atbeina og aðstoð kjarnakonu nokkurrar á Stokkseyri sem aldrei er nefnd annað hér um slóðir en Þuríður formaður sem málið leystist. Þuríður þessi var sérstök og eftirminnileg persóna því hún var formaður á báti frá Stokkseyri og klæddist karlmannsfötum, en hvorutveggja var mjög óvenjulegt ef ekki óþekkt á þessum tíma og í frásögur færandi. Þess má geta að sjóbúð Þuríðar, svokölluð Þuríðarbúð er enn til sýnis á Stokkseyri. Þuríði var enda málið nokkuð nákomið því það voru menn úr áhöfn hennar sem áttu þar hlut að máli. Ránsmennirnir fjórir voru allir dæmdir í betrunarhúsvist og fóru utan, en tveir þeirra áttu afturkvæmt eftir 14 ára dvöl í refsivist í Danmörku. Hinir tveir létust í varðhaldinu og herma sagnir að annar þeirra, Sigurður Gottsvinsson sem var forsprakki hópsins hafi verið tekinn af lífi í kjölfar þess að hann réðist að fangaverði.


Við Flóamenn erum heppnir að eiga Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson að. Hann hefur tekið drjúgan þátt í starfi Leikfélagsins, bæði leikið og samið í fjölda ára. Hann hefur áður skrifað tvö leikrit í fullri lengd og öðru þeirra „Á Suðurlandsvaktinni" leikstýrði Jón Stefán einmitt á sviðinu í Sigtúni. Ekki er ég í nokkrum vafa að þessu leikriti verður vel tekið og það á eftir að vekja athygli hér í Flóanum því saga Kambsránsins snertir marga hér um slóðir enn í dag. Bekkirnir voru líka fullsetnir þetta kvöld og greinilegt var að gestirnir nutu sýningarinnar. Einhverja tilfinningu hafði ég þó að það hefði ekki verið létt verk að búa til leikhúsdrama úr sögu Brynjólfs en Sigurgeir fer þá leiðina að velja nokkur markverð atvik í tímaröð atburðanna í sögunni auk þess sem hann skáldar í eyðurnar og býr til nokkrar eftirminnilegar aukapersónur. Útkoman er nokkurs konar harmrænn gleðileikur, þar sem söguefnið og örlög aðalpersónanna eru í eðli sínu dapurleg en líflegar aukapersónur krydda verkið svo oft mátti heyra hlátrasköll og klapp. Þessi leið er líklega nokkuð íslensk því mig minnir t.d. að í Skugga-Sveini sé aukahlutverk grasakonunnar Grasa-Guddu sem er eitt af þeim eftirminnilegri. Hér er það ekki síst húskona Þuríðar „Engla Imba" sem Hrefna Clausen túlkar af mikilli innlifun sem er eftirminnileg og uppsker því bæði klapp og hlátur. Óhætt er að segja að Hrefna fari á kostum í þessu hlutverki. Greinilegt er að Sigurgeir gefur boltann nokkuð listilega upp í þessari kómísku persónu, sem og í hlutverki Sr. Jakobs í Gaulverjabæ sem Davíð Kristjánsson nær einnig að gera eftirminnilegan með sinni listatúlkun þó persóna Sr. Jakobs sé líkleg ívið minni umfangs en Engla Imba. Sama má segja um hlutverk Ara sem Eyjólfur Pálmarsson túlkar á sinn einstaka hátt og nær að persónugera vel og sannfærandi þó hlutverk Ara virðist minna en hinna tveggja. Ekki má heldur gleyma Jóni blinda sem Hermann Dan Másson leikur. Aðrir leikarar í aukahlutverkum stóðu sig með prýði og greinilegt er að leikstjórinn hefur náð að skila góðu verki í leikstjórninni.


Þegar horft er á forsendur verksins þá hlýtur sú ákvörðun leikstjórans að setja þessa reyndu áhugaleikara í vel krydduð aukahlutverk að vera rétt og hún virðist ganga alveg upp. Hann hefur gert sér grein fyrir því að persónur Þuríðar sem og Sigurðar byðu ekki upp á of mikið grín, því þau eru máttarstólpar hins harmræna söguþráðs. Þau Hilda Pálmadóttir og Rúnar Hjálmarsson gera þessum persónum prýðileg skil með skýrri framsögn sinni og lipurri sviðsframkomu. Persóna Þuríðar er líka vel mótuð og djúp af hendi höfundarins. Persóna Sigurðar hefur væntanlega verið höfundinum ívið þyngri í skauti en þeir þættir sem móta hann eru þó sannfærandi. Aðrar aukapersónur eru á mörkum hins harmræna og kómíska en það eru helst persóna sýslumannsins Þórðar Sveinbjörnssonar og Jónsen umboðsmanns sem Erlingur Brynjólfsson og Bjarni Stefánsson leika. Bjarni er greinilega vanur leikari og litar Jónsen skemmtilega. Erlingur ljær persónu Þórðar sýslumanns sannfærandi lit.


Leikmynd verksins er einföld, allt að því Shakespearesk í minimalisma sínum en hún þjónar sínum tilgangi og það er skynsamlegt hjá áhugaleikfélagi að fara þessa leið. Lýsing, hljóð og stjórn þess var leyst vel af hendi, féll vel að söguþræðinum og þjónaði vel því því hlutverki sínu að varpa ljósi á persónur verksins, sérstaklega persónurnar tvær, Sigurð og Þuríði. Búningar voru ágætir og greinilegt að metnaður hefur verði lagður í þá. Leikskráin er vönduð og inniheldur auk venjulegra atriða tímarás Kambránsins, fróðlegan pistil Bjarna Harðarsonar um sögu Brynjólfs af Kambsráninu auk viðtals Sigurðar Jónssonar við höfund verksins. Það er því ástæða til að hvetja alla Flóamenn, sem og Hreppa og uppsveitamenn, jafnvel Höfuðborgarbúa eða fólk úr öðrum sýslum sem þekkir til sögunnar, sem og öllum þeim sem unna alíslenskri leiklist að bregða sér á Selfoss og sjá þessa metnaðarfullu sýningu hjá Leikfélagi Selfoss.


RGB/Heimild:
"Þuríður og Kambsránið", Leikskrá. Útg. Leikfélag Selfoss. 10. mars 2006.

Metanmáninn Títan

Þetta er endurbirt grein sem birtist fyrst í mars 2006 á vefritinu http://www.vina.net/



Á Títan er bálahvasst, fimbulkalt, himininn er appelsínugulur, gosvirkni spýtir metangasi út í loftjúpinn og sumir telja að "hraunið" samanstandi af ammoníaksblönduðu vatni! Yfirleitt er þar þurrt og kalt en á nokkurra alda fresti geisa þar ofboðsleg stórviðri, metanið þéttist og myndar ár og vötn. Hljómar ekki mjög spennandi. Líklega mun seint verða lögð drög að mannaðri för þangað.


Í desember og marsheftum tímaritsins Sky and Telescope eru fróðlegar greinar um niðurstöður rannsókna á Títan - einu af tunglum Satúrnusar.
Þangað til í júlí 2004 var Títan stærsta tungl reikistjörnunnar Satúrnusar hulinn heimur. En síðan þá hefur Cassini könnunarfarið frá NASA beint ratsjánni að tunglinu alls þrisvar sinnum af átta skiptum sem það hefur farið nálægt. Radarmyndir frá Cassini m.a. frá því 7. september ásamt niðurstöðum úr ferð Huygens könnunarfarsins sem Evrópska geimrannsóknarstofnunin sendi þangað eru að ljúka upp nýrri sýn á heim tunglsins. Huygens lenti á Títan hinn 14. janúar 2004. Títan er með lofthjúp og fast yfirborð líkt og t.d. Jörðin og Mars. Hitinn á yfirborðinu var um -180 gráður en hæstur -86 gráður í 250 km. hæð. Loftþrýstingur var um 1,5 loftþyngd við yfirborð. Lofthjúpur Títan samanstendur að mestu af köfnunarefni líkt og lofhjúpur Jarðar, hann er líka „vökvaknúinn" en á Títan er það metan (CH4) sem myndar vökvann en ekki vatn eins og á Jörðinni.



Huygens farið varð vart við spennuhögg í 60 km. hæð sem gæti hafa stafað af eldingum. Vindstyrkur var mikill og á köflum hraðari en snúningur tunglsins, en slíkt þekkist líka á Venusi. Í 120 kílómetra hæð mældist vindstyrkurinn 430 km. á klukkustund. Lofthjúpurinn er lagskiptur og blésu vindar frá vestri til austurs niður í 7 km. hæð en þar fyrir neðan blésu þeir frá austri til vesturs. Í 5 km. hæð mældist lítill vindur eða aðeins um 3,5 km. á klst. Mælingar benda til að upphaflega hafi lofthjúpur Títan innihaldið mun meira köfnunarefni (nitrogen) en núna. Líklegt er talið að það hafi farið út í geiminn. Með því að mæla hlutfall kolefnis-12 á móti kolefni-13 ályktuðu vísindamennirnir að ástæða metansins væri ekki lífræn efnaskipti (biota) heldur gæfi þessi niðurstaða tilefni til að ætla að efnið bættist sífellt í andrúmsloftið, t.d. frá gosvirkni. Í lofthjúpnum fannst einnig ammoníak (NH3), "hydrogen cyanide" (HCN) og líklega nokkur önnur mólikúl með vetni og kolefni. Þetta eru fyrstu beinu vísbendingarnar sem finnast sem benda til að flókið lífrænt efni myndist í efnahvörfum í lofthjúpi Títan. Mælingar gefa til kynna að metan sé þrisvar sinnum þéttara við yfirborðið en uppi í lofthjúpnum en þar niðri þéttist það og myndar vökva.


Birtan á yfirborðinu er svipuð og hún er á jörðinni um 10 mínútum eftir sólarlag. Kvöldroðinn er blár og himininn er appelsínugulur. Yfirborðið er brúnt. Könnunarfarið lenti á stað þar sem gleypni yfirborðsins svipaði til blauts sands.
Radarmyndir Cassini frá 7. september sýna mynstur sem svipar til árfarvega og vatna. Samt greindist enginn vökvi í þessum farvegum. Af þessu hafa menn dregið þá ályktun að ekki hafi rignt nýlega á þessum stöðum. Þar sem aðeins lítið magn af sólarorku berst til yfirborðs tunglsins er talið að mjög lítið magn metans gufi upp á hverju ári - rétt nóg til að þekja tunglið allt með eins sentimeters djúpum metansjó. Því er talið að yfirborðið sé venjulega þurrt en þegar loftið verður mettað af metani myndist ofsaleg veður sem valdi því að mikill úrkomu kyngir niður á stuttum tíma. Ef köfnunarefnið kemur frá ammoníakseldfjöllum þá getur það skýrt fyrirbæri á yfirborðinu sem svipa til hraunlaga en er í raun ammoníaksblandað vatn. Ammoníak virkar sem frostlögur á vatnið og veldur því að þessi efni flæða sem "hraun" um yfirborðið.
Títan er því greinilega athyglisverður staður, en ekki að sama skapi neitt spennandi fyrir okkur mannfólkið að vera á.




RGB/Heimildir:
"Understanding Titan's Terrain", Sky and Telescope, desember 2005. Bls. 18.
"Titan Revisited", Sky and Telescope, mars 2006. Bls. 16

2009-03-08

Angel ráðstefnan 2006 í Louisville í Kentucky

Greinin birtist fyrst á vefsetrinu http://www.vina.net/ 21.6.2006

Angel ráðstefnan 2006 var að þessu sinni haldin í Louisville í Kentucky þriðjudaginn 6. og miðvikudaginn 7. júní. Fyrir þau sem ekki vita þá er Angel heiti á kennsluumsjónarkerfinu sem FSu, MH, FSN og MA nota. Ráðstefnan var haldin á Marriott Louisville hótelinu sem er staðsett í miðju Louisville.


Þar sem dagurinn áður var annar í hvítasunnu var erfitt að komast frá Íslandi með flugi öðruvísi en að missa af stórum hluta fyrsta ráðstefnudagsins. Því tók ég það ráð að sameina ráðstefnuferðina sumarferðinni og fljúga með fjölskylduna til Baltimore og aka þaðan til Róanóke í Virginiu þar sem tengdasystir mín og svili búa. Frá Róanóke ókum við svo til Louisville og tók sú ferð 9 tíma í bílnum. Ég sé ekki eftir að hafa haft þennan háttinn á því býsna mikilvægar nýjungar voru kynntar fyrir hádegi á þriðjudeginum.



Ráðstefnuhaldarar voru auk ANGEL learning Jefferson County Public School og Kentucky Virtual University. Ráðstefnuna sóttu um 350 manns. Umgjörð ráðstefnunnar var metnaðarfull bæði hvað aðstöðu og inntak varðaði og greinlegt er að til að gera henni góð skil í rituðu máli hefðu fimm manns þurft að fara á hana. Ástæðan var sú að hún var nokkuð lík UT ráðstefnunum sem menntamálaráðuneytið hefur staðið fyrir að því leyti að eftir sameiginlegan fund var boðið upp á fimm fyrirlestralínur sem stóðu yfir til loka hvers ráðstefnudags. Tvær fyrirlestralínur voru kennslufræðilegs eðlis, ein var tæknilegs eðlis, ein fjallaði um notendaþjónustu og svo var ein lína flutt af útgefanda kerfisins ANGEL Learning.

Tveir fyrirlestranna frá Angel voru endurfluttir næsta dag svo ég náði að sækja 10 fyrirlestra á þessum tveim dögum auk sameiginlegra funda og hringborðsumræðna. Samantekt á því efni fer hér á eftir.


Áhrif rafrænnar kennslu á efnahagsþróun
Fyrsti sameiginlegi fundurinn hófst á pallborðsumræðum um áhrif rafrænnar kennslu á efnahagsþróun með tilliti til Kentucky. Hjá frummælendum kom fram það álit að áhrif rafrænnar kennslu væru sjöfalt meira virði en þau áhrif sem niðuhal tónlistar yfir netið hefði.
Rafræn kennsla væri einnig byrjuð að umbylta því hvernig hefðbundin kennsla færi fram í stórum áföngum fylkisháskólans og raunar væri hætt að tala um fjarkennslu heldur rafræna kennslu (e-learning). Vöxtur væri mikill í rafrænni kennslu og það skapaði sóknarfæri fyrir litla háskóla.


Staða Angel kennsluumsjónarkerfisins
Næst á mælendaskrá voru stjórnendur ANGEL Learning. Þau skýrðu frá því að vöxtur kerfisins hefði numið um 50% á ári undanfarin ár. Skráðir nemendur í Angel kerfum telja nú um 1,4 milljónir. Kerfið hlaut nýlega hin svokölluðu Codie verðlaun sem besta kennsluumsjónarkerfið fyrir æðri skólastig. Fyrirtækið hefur hafið samstarf við þýðingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í aðlögun kerfa að öðrum menningarsamfélögum og í útgáfu 7.1 kemur spænska sem valkostur. Drifkraftur breytinga í kerfinu er fólk í menntageiranum sem skilja möguleika tækni og miklir möguleikar eru framundan. 50% allra þjónustubeiðna í kerfinu er svarað á innan við klukkustund og 80% er svarað innan sólarhrings. Boðið hefur verið upp á nýjungar svo sem hýsingu kerfisins, uppsetningarþjónustu og þjónustuborð sem svarar þjónustusíma allan sólarhringinn. Við lok eins fyrirlestursins kom David Mills tæknistjóri kerfisins og aðstoðarforstjóri Angellearning til mín og heilsaði mér. Hann sagði mér að FSU á Selfossi hefði verið meðal þeirra 5 fyrstu að nota Angel, en þau samskipti hófust haustið 2001.

Ég spurði hann hvar þeir væru í röðinni á eftir WebCT/Blackboard og hann sagði að þeir deildu öðru sætinu með einu kerfi sem ég man ekki hvað heitir.


Nýjungar í Angel útgáfu 7.1
Meðal nýjunga í útgáfu 7.1 af kerfinu sem þegar er komin í dreifingu er nýtt og endurbætt útlit á þeim hluta kerfisins sem meðhöndlar skýrslur. Boðið er upp á vistun skýrslna. Önnur nýjung er að boðið er upp á tímasetta atburði í kerfinu, t.d. að senda skuli póst á fyrirfram ákveðnum tímum til allra sem ekki hafa klárað tiltekin verkefni svo dæmi sé tekið. Sýndarskrifstofa er nýjung. Hægt er að ‘vera við’ á tilteknum tíma í kerfinu og fara á spjall við þá sem bíða. Nýjungar eru í miðlun hljóðs og er það í samstarfi við Horizon Wimba fyrirtækið. Tungumálapakkar hafa verið þróaðir í samstarfi við Welocalize fyrirtækið og fylgir spænski málapakkinn með kerfinu auk þess enska. Boðið er upp á að setja efni í Macromedia Flash inn í kerfið í samstarfi við Respondus fyrirtækið og er forritið StudyMate notað í þeim tilgangi. Ennfremur er boðið upp á leiki og nýja möguleika á útlitsbreytingum. Respondus býður einnig upp á samnefnt forrit (Respondus) til að flýta fyrir gerð spurninga. Ein nýjung í Respondus er t.d. möguleiki að bæta stærðfræðitáknum inn í spurningar.

Upplýsingar um StudyMate fyrir Flash efni og Respondus fyrir stærðfræðitákn og aukin afköst í gerð spurninga má finna á http://www.respondus.com. Boðið er upp á hjálparglugga og leiki, ný útlitsviðmót hönnuð af grafískum hönnuðum, tímasettar aðgerðir, yfirtöku notendaskjáborðs (desktop sharing) spjall, whiteboard o.fl. Uppfærsla úr 6.3 kerfi er ekki viðamikil. Boðið er upp á nýtt innsetningarviðmót með atvikaskráningu og möguleika á afturköllun. Gagnagrunnstöflum 7.1 kerfisins hefur verið breytt nokkuð frá fyrri útgáfu.


Notkun Angel til prófatöku við Pennsylvania háskólann
Við Pennsylvania háskólann er ANGEL mikið notað við prófatöku í viðskiptadeildinni. Áður var forritið Examiner notað en því hefur verið hætt. Notaðar eru tölvustofur með um 60 vinnustöðvum, vélarnar eru endurræstar í ‘prófaham’ og það eina sem nemendur komast í er ‘secure browser’ frá ANGEL en það forrit gerir í raun ekkert annað en að opna á nettengingu inn í ANGEL kerfið. Notendur komast ekkert annað á netinu og geta ekki opnað nein önnur forrit. Í tölvuverinu er umsjónarmaður í fullu starfi sem sér um vélarnar og um 12-14 próf eru tekin á hverjum degi. Nemendur þurfa að láta skanna einkenniskort sín frá háskólanum til að komast inn í prófið. Við prófið starfa tveir yfirsetar auk umsjónarmanns tölvuversins. Öll prófin eru með satt/ósatt eða fjölvalsspurningum. Um 6500 próf voru tekin á síðustu önn og ekki eitt þeirra glataðist. Þó kom upp vandi vegna endurræsingar netþjóns, ásláttarvillna, sömu spurningar komu fyrir oftar en einu sinni í prófi, vandi sem var þó ekki kerfislægur heldur var um mistök prófgerðarmanns að ræða. Það gerðist einnig að próf sendist inn vegna kerfisvillu, en búið er að breyta þessum þætti kerfisins í útgáfu 7.1 þannig að svar við hverri spurningu fyrir sig er vistað en prófinu er ekki skilað sem heild.


Angel ferliskráin ePortfolio
Auk Angel kerfisins er í boði aukaafurð sem heitir ePortfolio. ePortfolio er ferilskrá sem notendur geta opnað aðgang að frá netinu. Íslenskir framhaldsskólar nota Innu í þessum tilgangi. Um 10% notenda (um 140.000) nýta sér þennan möguleika. Við læknaskóla háskólans í Kansas er þetta t.d. notað og þar er gömlum nemendum sem greiða gjöld útskrifaðra stúdenta (alumni) haldið inni í kerfinu og þeir geta vísað á síður í kerfinu til að birta sem hluta af ferilsskrá sinni.


Utan ráðstefnunnar
Um kvöld fyrri ráðstefnudagsins var ekið með ráðstefnugesti á kappreiðasvæðið í Louisville og þar var boðið upp á léttar veitingar. Ég sleppti þeirri ferð en labbaði þess í stað um miðbæ Louisville með ferðafélögum mínum. Það kvöld og næsta kvöld á eftir borðuðum við á Friday’s og um kvöld síðari ráðstefnudagsins voru hljómleikar í næstu götu, ekta honkey tonk kántrí/rokk sem dró að sér nokkurn fjölda. Veðrið var gott báða ráðstefnudagana. Hótelið var allt loftkælt og aðstaðan þar til fyrirmyndar en dvölin þar var í dýrari kantinum þó ráðstefnugestir nytu góðs afsláttar á gistingunni og morgunverður og hádegisverður væru innifaldir í ráðstefnugjaldinu. Því hafa eflaust fleiri haft þann háttinn á að snæða kvöldverð utan hótelsins. Við morgunverðarborðið síðari ráðstefnudaginn var ég svo heppinn að setjast fyrir tilviljun við hliðina á Zachary Page frá Bedford, Freeman & Worth útgáfufyrirtækinu. Hann hafði verið með kynningu á i> clicker tækinu (sjá lokaorð) daginn áður. Svo skemmtilega vildi til að hann er bassaleikari og spilar jafnt á rafbassa og kontrabassa. Við ræddum aðeins um íslenska tónlist og tónlistarmenn sem hann hafði heyrt um - og eiginleika viðar í kontrabössum og hann gaf mér upplýsingar um stóra kontrabassabúð í New York, davidgage.com við Walker Street. Áður en lagt var í hann heim daginn eftir ráðstefnuna keyrðum við ferðafélagarnir frá Virginiu um St. James og Belgravia göturnar þar sem eru nokkur hús frá síðari hluta 19. aldar í viktoríustíl.
Það að rata var ekki vandamál því við notuðum Garmin StreetPilot 330 leiðsögutæki sem spjallaði við okkur og sagði til vegar á rólegan en ákveðinn hátt.


Nýir hljóðmöguleikar í samstarfi við Horizon Wimba
Í kjölfar hins öra vaxtar ANGEL kerfisins hafa opnast möguleikar á samstarfi við ýmsa aðila eins og áður hefur komið fram. Einn þessara aðila er Horizon Wimba sem sérhæfir sig í miðun hljóðs á netinu. [...Villa felld niður um greiðslufyrirkomulag fyrir Horizon Wimba. RGB...] Með Horizon Wimba býðst notendum kerfisins að setja upp hljóðkennslustofu í rauntíma (synchronous live classroom), sem og að vista kennsluna (asynchronous) og miðla hljóðinu síðar. Boðið er upp á sýndarbekki (virtual classes), sýndarviðtalstíma, sýndarfundi og samnýtingu forrita. Þetta kemur innifalið í útgáfu 7.1 og skiptir út Virtual Emcee forritinu. Meðal nýrra möguleika eru hljóðpóstur, útflutningur/innflutningur MP3 hljóðskráa og hljóðspjallborð.


Efnisgeymslan frá HarvestRoad
Meðal nýjunga sem kynntar voru var efnisgeymsluforritið HarvestRoad (Hive) Digital Repository. Þessir aðilar eru í samstarfi við Angel og bjóða forrit sem getur tekið inn efni úr ýmsum forritum til varðveislu. Meðal viðskiptavina þeirra eru bókasöfn, háskólar, ástralski herinn, Angel og háskólar í Bandaríkjunum. Forritið býður upp á að efni sem fylgir SCORM staðlinum sé dregið inn í efnisgeymsluna. Forritið kemur í veg fyrir margvísanir auk þess að raða tilvísunum. Í efnisgeymslunni er því hægt að taka til varðveislu efni úr ýmsum forritum.


Nýjungar í útgáfu 7.2 af Angel
Stefnt er að útgáfu 7.2 af Angel á 2. ársfjórðungi 2007. Hönnunarforsendur kerfisins og viðmið eru reynsla notenda, útkomunám (outcome based learning), nemendaviðmiðaðar áætlanir, miðlun hljóðs og mynda, endurbættir leitarmöguleikar, endurbættir póstmöguleikar (líkt og outlook eða gmail), möguleikar á póstsendingum milli áfanga, jöfnuritþór fyrir stærðfræðitákn, endurbætt skýrslugerð, aðlögun að stöðlum, frammistöðumat, skipurit stofnunar, endurbættur áfangaritþór (course editor) og podcasting. 7.2 útgáfan á að vera eingöngu forrituð í .NET umhverfinu frá Microsoft og því ætti hún að vera hraðvirkari því síður kerfisins eru forþýddar en ekki túlkaðar á staðnum af vefþjóninum eins og .asp síðurnar.


Vélbúnaður Angel
Þar sem ég er vélgæslumaður Angel kerfisins á Íslandi þá sótti ég fyrirlestur um vélbúnaðarþörf kerfisins. Lögð var áhersla á að skipta upp gagnagrunnsvél og vefþjónsvél. Nota Raid 1/0 diskameðhöndlun, nota skráamiðlara með 64KB klösum, geyma atvikaskrár á öðrum diskum og þegar SAN diskmiðlun er notuð að nota ‘diskpar’ til að stilla geira (offset sector) og laga hliðrunarmál (alingment issues). Lögð var áhersla á að fylgjast með rauntímafjölda samtímanotenda og fjölda samtímatenginga hvað vefþjóninn varðaði. Hvað gagnagrunnsþjóninn varðaði þarf að fylgjast með fjölda færslna á sekúndu, meðaltalsbiðtíma, meðaltalslengd biðraðar, álagi á örgjörva og utanminnissóknir á sekúndu (Page Faults/sec). Finna þarf flöskuhálsa og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir slíkt ástand. Keyra þarf ‘defrag’ á netþjónum, netspjöld verða að styðja 100/1000 full duplex og svissar þurfa að gera það líka. Vefþjónninn á að keyra Angel í eigin ‘appPool’. Í gagnagrunni þarf að klasa stórar indexskrár (cluster large indexes), samstykkja vísanaskrár oft (defrag indexes often) og stilla ‘fill factor’. Angel hýsingarþjónustan notar PerfMon tólið til að fylgjast með. Ef nýtingarhlutfall örgjörvans er hátt þá bendir það til að skipta þurfi upp vefþjóni og gagnagrunnsþjóni. Þetta þyrftum við að taka til frekari athugunar.


Þýðingar á Angel
Hafið er samstarf við Welocalize fyrirtækið sem sérhæfir sig í þýðingum og aðlögun kerfa að sérþjóðlegum aðstæðum. Áður en ég fór hafði ég skráð mig inn á hringborðsumræður um aðlögun kerfisins og síðari dagur ráðstefnunnar hófst á því hringborði að loknum morgunverði. Þar var reyndar frekar fámennt, aðeins þrír gestir utan umræðustjórans sem var Robert Pfremmer frá Welocalize. Hann skýrði frá ýmsum vandkvæðum sem komið geta upp við aðlögun kerfa og ítrekaði nauðsyn þess að hafa sérþjóðlegar forsendur inni áður en hafist væri handa við gerð kerfanna því það kæmi í veg fyrir mikinn aukakostnað sem gæti skapast t.d. vegna stærðar innsláttarsvæða og aukinnar þarfar á textarými sem kæmi gjarnan fram við þýðingar. Ég minntist á íslenska stafrófsröðun og fornafns, eftirnafns vandann og hann sagði að ef búin yrði til íslensk útgáfa kerfisins þá myndi þessi vandi verða úr sögunni, en fyrr ekki. Ég sagði honum frá áhuga nokkurra Íslendinga á að þýða kerfið og erfiðleikum í notkun Resource manager í ANGEL (minntist þó ekki á að okkur hefði verið synjað um styrk til verkefnisins.) Hann benti á að mun einfaldara væri að þýða ef við létum þjónustudeild Angel senda okkur strengjasafn kerfisins og það yrði flutt inn í sérhæft þýðingartól eins og t.d. TRODOS. Með því áhaldi væri hver strengur þýddur aðeins einu sinni og það tryggði samhæfni auk þess að koma í veg fyrir tvíverknað. Pfremmer sagðist oft millilenda í Keflavík og hann hefði áhuga á að sjá Bláa lónið. Reyndar voru fleiri sem lýstu áhuga sínum á að koma til Íslands og ég gerði mitt besta til að upplýsa menn um áætlanastaði Flugleiða í Bandaríkjunum.


Samskipti við önnur kerfi
Angel XEI (extending and integrating) er samheiti yfir forrit sem tengja Angel kerfið við önnur kerfi. Þær upplýsingar sem helst eru fluttar inn í Angel eru skráningarupplýsingar nemenda, upplýsingar um áfanga eða nemendaskrár hvers áfanga. Dæmi um slík samskipti gæti verið að flytja skráningarupplýsingar á hverri nótt úr Innu yfir í Angel. Slík vinna var komin af stað í fyrravor en verkefnið dagaði uppi því fjármagn fékkst ekki til þess hvað Innu varðaði. XEI er svokölluð xml vefþjónusta sem keyrir á Angel þjóninum. Hún skiptist á boðum við MS SQL gagnagrunninn til að tímasetja verk. Það sem gera þarf til að setja upp XEI er að skilgreina upprunagagnagrunn og viðtökugagnagrunn, því næst þarf að ákveða hvort forvinna eigi gögnin eða eftirvinna (eftir að samskiptin hafa átt sér stað). Næst þarf að tengja upprunasvæði í upprunagagnagrunni við viðtökusvæði í viðtökugagnagrunni. Síðast er verkið tímasett. Með XEI er hægt að uppfæra, eyða eða bæta við skráningum. Einnig væri hægt að skilgreina einkunnayfirfærslu úr Angel.


Lokaorð
Við lok síðari ráðstefnudagsins var haldinn sameiginlegur fundur allra ráðstefnugestanna. Þar var gengið um með hljóðnema og salurinn spurði spurninga sem pallborð stjórnenda frá Angellearning svaraði. Meðal upplýsinga sem fram komu þar var: 22% af öllum notendum hýsa kerfið hjá Angellearning og 33% af nýjum notendum gera það. Það býður upp á öryggi og áreiðanleika. Það eru frekar skólar sem eru eingöngu í rafrænni kennslu sem nýta sér þessa möguleika og svo minni stofnanir. Spurt hvar hvort í bígerð væri að smíða grunnskólaviðmót (K12) fyrir foreldra til að fylgjast með árangri barna sinna og var svarið það að það væri í skoðun. Spurt var hvort hægt yrði að prenta út einstök próf, þ.e. prentvæn sýn á spurningar og svarið var að það væri á lista yfir möguleika sem ætlunin væri að taka inn í næstu útgáfur. Spurt var um hvort hægt yrði að breyta um dagsetningar í mörgum áföngum í einu. Svarið var að þetta væri í umræðu en yrði ekki með í 7.2. Spurt var um hvort hægt yrði að setja upp þjónustuborð í Angel og það er í athugun. Spurt var um stærðfræðitákn og var svarið að umræður væru í gangi við WebEq fyrirtækið um að leyfa stærðfræðitákn í útgáfu 7.2. Spurt var hvort hægt yrði að eyða mörgum spurningum í einu og svarið var að það væri verið að skoða þetta í sambandi við 7.2. Spurt var um vefskoðunarforrit (vefsjár) hvort einhver væri best. Svarið var að allar vefsjár ættu að virka en nýja útgáfan af Internet Explorer (7) þyrfti að skoða sérstaklega. Spurt var um XEI þjónusturnar, af hverju þær væru ekki innifaldar í notendaleyfinu. Svarið var að til að halda verðinu á Angel niðri væri aukabúnaður ekki hafður inni. Spurt var um MySpace, hvort hægt væri að bjóða upp á tengingar við það, svarið var að hluti af aðdráttarafli MySpace væri sá að það væri ‘utan kerfis’ og erfitt yrði að bjóða upp á svipað í Angel.
Að því búnu gerðu stjórnendur Angellearning skoðanakönnun með hjálp i>clicker en það er lítið áhald sem hver gestur fékk í hendurnar með tökkum merktum: A,B,C,D,E og ON/OFF.
Þetta er þráðlaust tæki á stærð við fjarstýringu og það hafði samskipti við móttökubúnað sem var USB tengdur við tölvu. Því var hægt að sjá niðurstöður kannannanna birtast jafnóðum á skjá. Tæki þetta var kynnt á sérstökum fyrirlestri sem ég missti af en það er sérstaklega hannað fyrir mannmarga áfanga stóru háskólanna.
Að lokum var næsti ráðstefnustaður og tími tilkynntur. Næsta Angel ráðstefnan verður haldin í Indianapolis, Indiana 15.-16. maí 2007. Staður verður Indianapolis Marriott Downtown hótelið. Undirbúningur fyrir ráðstefnuna hefst daginn áður,14. maí.
Að mínu mati var þetta mjög gagnleg ráðstefna, ekki bara hvað varðaði Angel kerfið heldur líka í kennslufræðilegu tilliti og það var skaði að fleiri skyldu ekki sækja hana frá Íslandi. Vonandi verður bætt úr því í maí á næsta ári.