Færslur

2009-03-10

Um upplýsingatækni í skólastarfi

Föstudaginn 3. mars sl. sótti ég ráðstefnuna UT 2006 sem haldin var í hinum nýja og glæsilega Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Ég hafði bæði gagn og gaman af ferðinni. Umgjörð ráðstefnunnar og framkvæmd hennar var vel heppnuð og eiga aðstandendur hennar þakkir skildar. Boðið var upp á það nýmæli að í aðal ráðstefnusalnum var fartölva á hverju borði og bauðst ráðstefnugestum að varpa athugasemdum upp á tjald í gegnum msn. Þetta stuðlaði að því að losa um málbein ráðstefnugesta og umræðurnar urðu bæði fjörlegri og líflegri en þær hafa verið á undanförnum ráðstefnum. Fjallað var m.a. um kennsluaðferðir, dreifmennt, menningarnet, hefðbundnar og nýjar kennsluaðferðir, hugkort, íslenskunám á netinu, heimanám, verklag og verkstæðiskennslu, hljóðglærur,sveigjanleika og einstaklingsmiðun og námsumhverfi. Boðið var upp á samtal við nemendur og prófun á námsumhverfunum Angel, Námsskjárinn, WebCT, MySchool og Moodle.


Ég er á því að hagnýting upplýsingatækni sé gagnleg og verði að vera
samofin skólastarfi. Þeir eru t.d. fáir í dag sem efast um kosti fjarnáms sem hefur eflst mjög með nýjungum í tækni. Það hefur sýnt sig að fleiri hafa átt möguleika á að sækja sér menntun en ella hefði orðið án tilkomu þess og því hlýtur það að hækka menntunarstigið. Öll þessi beiting tækni í þágu menntunar krefst samt tveggja forsendna. Í fyrsta lagi þá verða tækin að vera til staðar og í öðru lagi þá þarf fólk að kunna að nota þau sér til gagns. Líklegt er að með nýjungum í framleiðslu takist að gera t.d. fartölvur ódýrari, léttari og endingarbetri en verið hefur svo vonandi munu þeir framhaldsskólanemendur sem þess óska geta verið með slíkan grip í sinni umsjón áður en mörg ár eru liðin. Síðari forsendunni eru gerð góð skil í íslenska grunnskólakerfinu svo flestir ættu að geta orðið „tölvulæsir" áður en skólaskyldu lýkur.
Þó að þetta hljómi vel þá þarf nú samt að vera á varðbergi gagnvart því að „menntunargap" myndist milli hópa sem ekki ná að koma til móts við forsendurnar tvær. Hér á Íslandi eru það líklega helst fatlaðir, nýbúar og börn þeirra og svo má gera ráð fyrir að efni skorti í einhverjum tilfellum. Þess þarf að gæta að hanna lausnir og hafa til taks sem koma til móts við þarfir fatlaðra. Einnig þarf að huga að fræðslu á þessu sviði bæði fyrir nýbúana og börn þeirra. Líklega mun það vera þannig um næstu ár og áratugi að hingað flyst fólk sem hefur aldrei notað tölvu. Samfélagið þarf svo að tryggja að efni standi ekki í vegi fyrir nauðsynlegri menntum í neinum tilfellum. Að þessu þarf að huga.



Birtist fyrst 6.3.2006 á vefsetrinu http://www.vina.net/

Engin ummæli: