Færslur

2009-03-14

Hulduhundurinn

Saga þessi gerist á síðari helmingi 20. aldar á sveitabæ á sunnanverðu Íslandi í héraði því sem stundum er nefnt Flói. Það var á dimmu vetrarkvöldi. Það snjóaði og kyngdi snjónum niður í stórum flyksum. Bóndinn á bænum hafði farið út í fjósið til að mjólka kýrnar ásamt tengdaföður sínum. Á þessum árum rann mjólkin ekki í rörum eins og síðar varð heldur þurfti að bera mjaltavélaföturnar með mjólkinni í út í mjólkurhúsið í hvert skipti þegar þær fylltust. Þar var mjólkinni hellt í gegnum sigti niður í stóra brúsa, svonefnda mjólkurbrúsa. Þannig var það líka þetta tiltekna kvöld. Mennirnir mjólkuðu þegjandi, hlustuðu á útvarpið og skellina í mjaltavélunum. Mjólkurhúsið á þessum bæ lá rétt við útidyr fjóssins og var beygt til hægri inn í mjólkurhúsið strax og komið var út úr fjósinu.


Einu sinni sem oftar fór bóndinn með fulla mjaltavélarfötu út í mjólkurhúsið og hellti úr henni í mjólkursigtið. Þegar hann snýr sér við til að ganga út úr mjólkurhúsinu þá sér hann að í dyrum mjólkurhússins stendur stór og fallegur alhvítur hundur, loðinn með lafandi eyru og horfir á hann. Bóndinn sneri inn í fjósið og kallaði á tengdaföður sinn að koma og sjá hundinn.



Hundurinn bakkaði aðeins á meðan bóndinn fór framhjá honum og hann horfði á bóndann með vinarglampa í augunum. Bóndinn kenndi í brjósti um hundinn sem var einn á ferð. Það snjóaði mikið og honum datt í hug að hundinum hlyti að vera kalt og réttast væri að gefa honum einhverja hressingu. Mjólkurhúsið var lítið og bóndinn þurfti ekki annað en snúa sér við til að teygja sig í mjólkurdreytil í dalli sem þarna var. Við það sneri hann baki í hundinn andartak. Þegar hann sneri sér við aftur var hundurinn horfinn og engin fótspor eða nein önnur ummerki um að þarna hefði dýr verið á ferð var að sjá í nýföllnum snjónum við mjólkurhúsdyrnar. Í því bili kom tengdafaðir hans innan úr fjósinu til að sjá hundinn. Bóndanum og tengdaföður hans þótti þetta að vonum mjög undarlegt en þeir höfðu ekki mörg orð um þetta.


Leið nú tíminn með sínu daglega lífi veturinn og vorið. Engar sýnir né neitt óvenjulegt bar fyrir bóndann þangað til sumarnótt eina. Dreymir hann þá að tengdamóðir hans sem einnig var búsett á bænum kemur til hans og segir honum að maður sé kominn á bæinn sem vilji finna hann. Í því bili vaknaði bóndinn því sonur hans á barnsaldri sem svaf í rúmi við hliðina á bóndanum vakti hann til að fara með sig á snyrtinguna. Bóndinn sinnir barninu og sofnar aftur vært. Dreymir hann þá enn að hann sé á gangi á leið að fjárhúsunum á bænum. Í draumnum kemur þá í veg fyrir hann hvítur hundur. Þá fannst bóndanum að hann þekkti í draumnum hundinn sem hann sá í mjólkurhúsdyrunum um veturinn. Bóndanum finnst hundurinn vilja að hann komi með sér og man hann þá eftir tengdamóður sinni úr fyrri draumnum og að maður sé kominn að finna sig. Fer hann þá heim að bænum. Finnst honum þá að á hlaðinu standi stórvaxinn maður, hörkulegur í yfirbragði með tvo hvíta hesta með sér búna reiðtyjum. „Það er ekki auðvelt að ná í þig" sagði maðurinn. Ég vil biðja þig að koma með mér og hjálpa konunni minni sem ekki getur fætt." „Heldur þú að ég sé rétti maðurinn til þess?" varð bóndanum að orði. Maðurinn svaraði því játandi. „En ég þarf að sinna drengnum og ég er ekki mikið klæddur - er bara á nærskyrtunni" sagði bóndinn. „Þú hefur þegar sinnt drengnum - hann vaknar ekki sagði maðurinn. Það er sumarnótt og þér mun ekki verða kalt." Sá bóndinn þá að best væri að vera ekki með fleiri mótbárur og steig á bak öðrum hestinum. Riðu þeir nú af stað og fóru krókaleið nokkra frá bænum. Bóndanum fannst sem hann hefði aldrei komið á bak eins góðum hesti. Honum fannst reiðleiðin nokkuð dulúðug en áttaði sig þó á því hvar leið þeirra lá. „Ég sé að þú veist hvert þú ert að fara" sagði maðurinn en ég varð að taka áhættuna. Riðu þeir nú sem leið lá að stað nokkrum í sveitinni þar sem ekkert var venjulega nema hóll nokkur. En nú brá svo við að bóndanum sýndist hóllinn vera lítill og snyrtilegur bær.


Gengu þeir inn í bæinn. Þar inni lá kona í rúmi og gat hún ekki fætt. Bóndanum virtist hún nokkru yngri en maðurinn sem sótti hann. Bóndinn var enn undrandi í draumnum yfir því að hann hefði verið valinn til þessa hjálparstarfs og fannst sér nokkur vandi á höndum þar sem hann hafði aldrei aðstoðað við barnsfæðingar þó verið hefði viðstaddur eina slíka. Honum datt því loks í hug að segja við konuna: „Ef þú nærð að slaka á milli hríða þá kemur þetta." Að svo búnu lagði hann hönd á kvið konunnar. Konan reyndi að fara eftir þessu ráði og fljótlega fæddist barnið sem var drengur. Bóndanum fannst sem ósýnilegar hendur tækju á móti því og það var farið með það frá. Eftir það tók konan til máls og sagði: „Ég veit að þú vilt ekkert þiggja fyrir þetta, en ef þér snýst hugur og þú vilt einhvern tíma þiggja aðstoð þá skaltu hengja rúmteppið af hjónarúminu út þrjá daga í röð og þriðja daginn skaltu brjóta teppið saman á sérstakan hátt." En daginn áður en bóndann dreymdi drauminn hafði rúmteppi hjónanna á bænum einmitt verið þvegið og hengt út á snúru. Konan hélt áfram og lýsti fyrir bóndanum hvernig teppið ætti að vera brotið saman á snúrunni. Eftir það kvaddi bóndinn og maðurinn sem hann hafði séð fyrst fylgdi honum heim á hestunum. Morguninn eftir vaknaði bóndinn, mundi hann drauminn og þótti hann all raunverulegur í minningunni.


Liðu nú árin. Ekki kom til þess að bóndinn teldi sig þurfa á því að halda að leita á náðir draumkonunnar með eitt né neitt. Bæði var að hann var vantrúaður á að það breytti neinu en einnig var til staðar efi um að rétt væri að leita á náðir afla sem ef til væru, væru jafn framandi og efni draumsins hafði gefið til kynna. Nokkrum árum síðar ákváðu þau hjónin samt að prófa að hengja rúmteppið út á snúru og brjóta það samkvæmt fyrirmælum draumkonunnar. Skömmu síðar dreymir bóndann að hann sé á gangi á vegi. Mætir hann þá draumkonunni og leiddi hún við hlið sér ungan dreng. Konan snýr sér að honum og sagði: „Ég skal reyna að liðsinna þér í þessu, en ég veit ekki hvort ég get gert mikið." Við svo búið endaði draumurinn en bóndinn mundi hann samt vel þegar hann vaknaði og var fyrst í stað ekki alveg viss hvort þetta hefði borið fyrir í vöku eða draumi.


Lengri er þessi saga ekki. Bóndinn var ófáanlegur að segja frá hvaða úrlausnarefni það var sem hann bar upp við draumkonuna, né heldur hvort liðsinni hennar hefði borið árangur. En hvað hundinn varðar þá hefur hann ekki sést í Flóanum hvorki fyrr né síðar til þessa dags svo vitað sé.

Birtist fyrst 14.02.2006 á vefsetrinu http://www.vina.net/

Engin ummæli: