Færslur

2009-03-08

Angel ráðstefnan 2006 í Louisville í Kentucky

Greinin birtist fyrst á vefsetrinu http://www.vina.net/ 21.6.2006

Angel ráðstefnan 2006 var að þessu sinni haldin í Louisville í Kentucky þriðjudaginn 6. og miðvikudaginn 7. júní. Fyrir þau sem ekki vita þá er Angel heiti á kennsluumsjónarkerfinu sem FSu, MH, FSN og MA nota. Ráðstefnan var haldin á Marriott Louisville hótelinu sem er staðsett í miðju Louisville.


Þar sem dagurinn áður var annar í hvítasunnu var erfitt að komast frá Íslandi með flugi öðruvísi en að missa af stórum hluta fyrsta ráðstefnudagsins. Því tók ég það ráð að sameina ráðstefnuferðina sumarferðinni og fljúga með fjölskylduna til Baltimore og aka þaðan til Róanóke í Virginiu þar sem tengdasystir mín og svili búa. Frá Róanóke ókum við svo til Louisville og tók sú ferð 9 tíma í bílnum. Ég sé ekki eftir að hafa haft þennan háttinn á því býsna mikilvægar nýjungar voru kynntar fyrir hádegi á þriðjudeginum.



Ráðstefnuhaldarar voru auk ANGEL learning Jefferson County Public School og Kentucky Virtual University. Ráðstefnuna sóttu um 350 manns. Umgjörð ráðstefnunnar var metnaðarfull bæði hvað aðstöðu og inntak varðaði og greinlegt er að til að gera henni góð skil í rituðu máli hefðu fimm manns þurft að fara á hana. Ástæðan var sú að hún var nokkuð lík UT ráðstefnunum sem menntamálaráðuneytið hefur staðið fyrir að því leyti að eftir sameiginlegan fund var boðið upp á fimm fyrirlestralínur sem stóðu yfir til loka hvers ráðstefnudags. Tvær fyrirlestralínur voru kennslufræðilegs eðlis, ein var tæknilegs eðlis, ein fjallaði um notendaþjónustu og svo var ein lína flutt af útgefanda kerfisins ANGEL Learning.

Tveir fyrirlestranna frá Angel voru endurfluttir næsta dag svo ég náði að sækja 10 fyrirlestra á þessum tveim dögum auk sameiginlegra funda og hringborðsumræðna. Samantekt á því efni fer hér á eftir.


Áhrif rafrænnar kennslu á efnahagsþróun
Fyrsti sameiginlegi fundurinn hófst á pallborðsumræðum um áhrif rafrænnar kennslu á efnahagsþróun með tilliti til Kentucky. Hjá frummælendum kom fram það álit að áhrif rafrænnar kennslu væru sjöfalt meira virði en þau áhrif sem niðuhal tónlistar yfir netið hefði.
Rafræn kennsla væri einnig byrjuð að umbylta því hvernig hefðbundin kennsla færi fram í stórum áföngum fylkisháskólans og raunar væri hætt að tala um fjarkennslu heldur rafræna kennslu (e-learning). Vöxtur væri mikill í rafrænni kennslu og það skapaði sóknarfæri fyrir litla háskóla.


Staða Angel kennsluumsjónarkerfisins
Næst á mælendaskrá voru stjórnendur ANGEL Learning. Þau skýrðu frá því að vöxtur kerfisins hefði numið um 50% á ári undanfarin ár. Skráðir nemendur í Angel kerfum telja nú um 1,4 milljónir. Kerfið hlaut nýlega hin svokölluðu Codie verðlaun sem besta kennsluumsjónarkerfið fyrir æðri skólastig. Fyrirtækið hefur hafið samstarf við þýðingarfyrirtæki sem sérhæfir sig í aðlögun kerfa að öðrum menningarsamfélögum og í útgáfu 7.1 kemur spænska sem valkostur. Drifkraftur breytinga í kerfinu er fólk í menntageiranum sem skilja möguleika tækni og miklir möguleikar eru framundan. 50% allra þjónustubeiðna í kerfinu er svarað á innan við klukkustund og 80% er svarað innan sólarhrings. Boðið hefur verið upp á nýjungar svo sem hýsingu kerfisins, uppsetningarþjónustu og þjónustuborð sem svarar þjónustusíma allan sólarhringinn. Við lok eins fyrirlestursins kom David Mills tæknistjóri kerfisins og aðstoðarforstjóri Angellearning til mín og heilsaði mér. Hann sagði mér að FSU á Selfossi hefði verið meðal þeirra 5 fyrstu að nota Angel, en þau samskipti hófust haustið 2001.

Ég spurði hann hvar þeir væru í röðinni á eftir WebCT/Blackboard og hann sagði að þeir deildu öðru sætinu með einu kerfi sem ég man ekki hvað heitir.


Nýjungar í Angel útgáfu 7.1
Meðal nýjunga í útgáfu 7.1 af kerfinu sem þegar er komin í dreifingu er nýtt og endurbætt útlit á þeim hluta kerfisins sem meðhöndlar skýrslur. Boðið er upp á vistun skýrslna. Önnur nýjung er að boðið er upp á tímasetta atburði í kerfinu, t.d. að senda skuli póst á fyrirfram ákveðnum tímum til allra sem ekki hafa klárað tiltekin verkefni svo dæmi sé tekið. Sýndarskrifstofa er nýjung. Hægt er að ‘vera við’ á tilteknum tíma í kerfinu og fara á spjall við þá sem bíða. Nýjungar eru í miðlun hljóðs og er það í samstarfi við Horizon Wimba fyrirtækið. Tungumálapakkar hafa verið þróaðir í samstarfi við Welocalize fyrirtækið og fylgir spænski málapakkinn með kerfinu auk þess enska. Boðið er upp á að setja efni í Macromedia Flash inn í kerfið í samstarfi við Respondus fyrirtækið og er forritið StudyMate notað í þeim tilgangi. Ennfremur er boðið upp á leiki og nýja möguleika á útlitsbreytingum. Respondus býður einnig upp á samnefnt forrit (Respondus) til að flýta fyrir gerð spurninga. Ein nýjung í Respondus er t.d. möguleiki að bæta stærðfræðitáknum inn í spurningar.

Upplýsingar um StudyMate fyrir Flash efni og Respondus fyrir stærðfræðitákn og aukin afköst í gerð spurninga má finna á http://www.respondus.com. Boðið er upp á hjálparglugga og leiki, ný útlitsviðmót hönnuð af grafískum hönnuðum, tímasettar aðgerðir, yfirtöku notendaskjáborðs (desktop sharing) spjall, whiteboard o.fl. Uppfærsla úr 6.3 kerfi er ekki viðamikil. Boðið er upp á nýtt innsetningarviðmót með atvikaskráningu og möguleika á afturköllun. Gagnagrunnstöflum 7.1 kerfisins hefur verið breytt nokkuð frá fyrri útgáfu.


Notkun Angel til prófatöku við Pennsylvania háskólann
Við Pennsylvania háskólann er ANGEL mikið notað við prófatöku í viðskiptadeildinni. Áður var forritið Examiner notað en því hefur verið hætt. Notaðar eru tölvustofur með um 60 vinnustöðvum, vélarnar eru endurræstar í ‘prófaham’ og það eina sem nemendur komast í er ‘secure browser’ frá ANGEL en það forrit gerir í raun ekkert annað en að opna á nettengingu inn í ANGEL kerfið. Notendur komast ekkert annað á netinu og geta ekki opnað nein önnur forrit. Í tölvuverinu er umsjónarmaður í fullu starfi sem sér um vélarnar og um 12-14 próf eru tekin á hverjum degi. Nemendur þurfa að láta skanna einkenniskort sín frá háskólanum til að komast inn í prófið. Við prófið starfa tveir yfirsetar auk umsjónarmanns tölvuversins. Öll prófin eru með satt/ósatt eða fjölvalsspurningum. Um 6500 próf voru tekin á síðustu önn og ekki eitt þeirra glataðist. Þó kom upp vandi vegna endurræsingar netþjóns, ásláttarvillna, sömu spurningar komu fyrir oftar en einu sinni í prófi, vandi sem var þó ekki kerfislægur heldur var um mistök prófgerðarmanns að ræða. Það gerðist einnig að próf sendist inn vegna kerfisvillu, en búið er að breyta þessum þætti kerfisins í útgáfu 7.1 þannig að svar við hverri spurningu fyrir sig er vistað en prófinu er ekki skilað sem heild.


Angel ferliskráin ePortfolio
Auk Angel kerfisins er í boði aukaafurð sem heitir ePortfolio. ePortfolio er ferilskrá sem notendur geta opnað aðgang að frá netinu. Íslenskir framhaldsskólar nota Innu í þessum tilgangi. Um 10% notenda (um 140.000) nýta sér þennan möguleika. Við læknaskóla háskólans í Kansas er þetta t.d. notað og þar er gömlum nemendum sem greiða gjöld útskrifaðra stúdenta (alumni) haldið inni í kerfinu og þeir geta vísað á síður í kerfinu til að birta sem hluta af ferilsskrá sinni.


Utan ráðstefnunnar
Um kvöld fyrri ráðstefnudagsins var ekið með ráðstefnugesti á kappreiðasvæðið í Louisville og þar var boðið upp á léttar veitingar. Ég sleppti þeirri ferð en labbaði þess í stað um miðbæ Louisville með ferðafélögum mínum. Það kvöld og næsta kvöld á eftir borðuðum við á Friday’s og um kvöld síðari ráðstefnudagsins voru hljómleikar í næstu götu, ekta honkey tonk kántrí/rokk sem dró að sér nokkurn fjölda. Veðrið var gott báða ráðstefnudagana. Hótelið var allt loftkælt og aðstaðan þar til fyrirmyndar en dvölin þar var í dýrari kantinum þó ráðstefnugestir nytu góðs afsláttar á gistingunni og morgunverður og hádegisverður væru innifaldir í ráðstefnugjaldinu. Því hafa eflaust fleiri haft þann háttinn á að snæða kvöldverð utan hótelsins. Við morgunverðarborðið síðari ráðstefnudaginn var ég svo heppinn að setjast fyrir tilviljun við hliðina á Zachary Page frá Bedford, Freeman & Worth útgáfufyrirtækinu. Hann hafði verið með kynningu á i> clicker tækinu (sjá lokaorð) daginn áður. Svo skemmtilega vildi til að hann er bassaleikari og spilar jafnt á rafbassa og kontrabassa. Við ræddum aðeins um íslenska tónlist og tónlistarmenn sem hann hafði heyrt um - og eiginleika viðar í kontrabössum og hann gaf mér upplýsingar um stóra kontrabassabúð í New York, davidgage.com við Walker Street. Áður en lagt var í hann heim daginn eftir ráðstefnuna keyrðum við ferðafélagarnir frá Virginiu um St. James og Belgravia göturnar þar sem eru nokkur hús frá síðari hluta 19. aldar í viktoríustíl.
Það að rata var ekki vandamál því við notuðum Garmin StreetPilot 330 leiðsögutæki sem spjallaði við okkur og sagði til vegar á rólegan en ákveðinn hátt.


Nýir hljóðmöguleikar í samstarfi við Horizon Wimba
Í kjölfar hins öra vaxtar ANGEL kerfisins hafa opnast möguleikar á samstarfi við ýmsa aðila eins og áður hefur komið fram. Einn þessara aðila er Horizon Wimba sem sérhæfir sig í miðun hljóðs á netinu. [...Villa felld niður um greiðslufyrirkomulag fyrir Horizon Wimba. RGB...] Með Horizon Wimba býðst notendum kerfisins að setja upp hljóðkennslustofu í rauntíma (synchronous live classroom), sem og að vista kennsluna (asynchronous) og miðla hljóðinu síðar. Boðið er upp á sýndarbekki (virtual classes), sýndarviðtalstíma, sýndarfundi og samnýtingu forrita. Þetta kemur innifalið í útgáfu 7.1 og skiptir út Virtual Emcee forritinu. Meðal nýrra möguleika eru hljóðpóstur, útflutningur/innflutningur MP3 hljóðskráa og hljóðspjallborð.


Efnisgeymslan frá HarvestRoad
Meðal nýjunga sem kynntar voru var efnisgeymsluforritið HarvestRoad (Hive) Digital Repository. Þessir aðilar eru í samstarfi við Angel og bjóða forrit sem getur tekið inn efni úr ýmsum forritum til varðveislu. Meðal viðskiptavina þeirra eru bókasöfn, háskólar, ástralski herinn, Angel og háskólar í Bandaríkjunum. Forritið býður upp á að efni sem fylgir SCORM staðlinum sé dregið inn í efnisgeymsluna. Forritið kemur í veg fyrir margvísanir auk þess að raða tilvísunum. Í efnisgeymslunni er því hægt að taka til varðveislu efni úr ýmsum forritum.


Nýjungar í útgáfu 7.2 af Angel
Stefnt er að útgáfu 7.2 af Angel á 2. ársfjórðungi 2007. Hönnunarforsendur kerfisins og viðmið eru reynsla notenda, útkomunám (outcome based learning), nemendaviðmiðaðar áætlanir, miðlun hljóðs og mynda, endurbættir leitarmöguleikar, endurbættir póstmöguleikar (líkt og outlook eða gmail), möguleikar á póstsendingum milli áfanga, jöfnuritþór fyrir stærðfræðitákn, endurbætt skýrslugerð, aðlögun að stöðlum, frammistöðumat, skipurit stofnunar, endurbættur áfangaritþór (course editor) og podcasting. 7.2 útgáfan á að vera eingöngu forrituð í .NET umhverfinu frá Microsoft og því ætti hún að vera hraðvirkari því síður kerfisins eru forþýddar en ekki túlkaðar á staðnum af vefþjóninum eins og .asp síðurnar.


Vélbúnaður Angel
Þar sem ég er vélgæslumaður Angel kerfisins á Íslandi þá sótti ég fyrirlestur um vélbúnaðarþörf kerfisins. Lögð var áhersla á að skipta upp gagnagrunnsvél og vefþjónsvél. Nota Raid 1/0 diskameðhöndlun, nota skráamiðlara með 64KB klösum, geyma atvikaskrár á öðrum diskum og þegar SAN diskmiðlun er notuð að nota ‘diskpar’ til að stilla geira (offset sector) og laga hliðrunarmál (alingment issues). Lögð var áhersla á að fylgjast með rauntímafjölda samtímanotenda og fjölda samtímatenginga hvað vefþjóninn varðaði. Hvað gagnagrunnsþjóninn varðaði þarf að fylgjast með fjölda færslna á sekúndu, meðaltalsbiðtíma, meðaltalslengd biðraðar, álagi á örgjörva og utanminnissóknir á sekúndu (Page Faults/sec). Finna þarf flöskuhálsa og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir slíkt ástand. Keyra þarf ‘defrag’ á netþjónum, netspjöld verða að styðja 100/1000 full duplex og svissar þurfa að gera það líka. Vefþjónninn á að keyra Angel í eigin ‘appPool’. Í gagnagrunni þarf að klasa stórar indexskrár (cluster large indexes), samstykkja vísanaskrár oft (defrag indexes often) og stilla ‘fill factor’. Angel hýsingarþjónustan notar PerfMon tólið til að fylgjast með. Ef nýtingarhlutfall örgjörvans er hátt þá bendir það til að skipta þurfi upp vefþjóni og gagnagrunnsþjóni. Þetta þyrftum við að taka til frekari athugunar.


Þýðingar á Angel
Hafið er samstarf við Welocalize fyrirtækið sem sérhæfir sig í þýðingum og aðlögun kerfa að sérþjóðlegum aðstæðum. Áður en ég fór hafði ég skráð mig inn á hringborðsumræður um aðlögun kerfisins og síðari dagur ráðstefnunnar hófst á því hringborði að loknum morgunverði. Þar var reyndar frekar fámennt, aðeins þrír gestir utan umræðustjórans sem var Robert Pfremmer frá Welocalize. Hann skýrði frá ýmsum vandkvæðum sem komið geta upp við aðlögun kerfa og ítrekaði nauðsyn þess að hafa sérþjóðlegar forsendur inni áður en hafist væri handa við gerð kerfanna því það kæmi í veg fyrir mikinn aukakostnað sem gæti skapast t.d. vegna stærðar innsláttarsvæða og aukinnar þarfar á textarými sem kæmi gjarnan fram við þýðingar. Ég minntist á íslenska stafrófsröðun og fornafns, eftirnafns vandann og hann sagði að ef búin yrði til íslensk útgáfa kerfisins þá myndi þessi vandi verða úr sögunni, en fyrr ekki. Ég sagði honum frá áhuga nokkurra Íslendinga á að þýða kerfið og erfiðleikum í notkun Resource manager í ANGEL (minntist þó ekki á að okkur hefði verið synjað um styrk til verkefnisins.) Hann benti á að mun einfaldara væri að þýða ef við létum þjónustudeild Angel senda okkur strengjasafn kerfisins og það yrði flutt inn í sérhæft þýðingartól eins og t.d. TRODOS. Með því áhaldi væri hver strengur þýddur aðeins einu sinni og það tryggði samhæfni auk þess að koma í veg fyrir tvíverknað. Pfremmer sagðist oft millilenda í Keflavík og hann hefði áhuga á að sjá Bláa lónið. Reyndar voru fleiri sem lýstu áhuga sínum á að koma til Íslands og ég gerði mitt besta til að upplýsa menn um áætlanastaði Flugleiða í Bandaríkjunum.


Samskipti við önnur kerfi
Angel XEI (extending and integrating) er samheiti yfir forrit sem tengja Angel kerfið við önnur kerfi. Þær upplýsingar sem helst eru fluttar inn í Angel eru skráningarupplýsingar nemenda, upplýsingar um áfanga eða nemendaskrár hvers áfanga. Dæmi um slík samskipti gæti verið að flytja skráningarupplýsingar á hverri nótt úr Innu yfir í Angel. Slík vinna var komin af stað í fyrravor en verkefnið dagaði uppi því fjármagn fékkst ekki til þess hvað Innu varðaði. XEI er svokölluð xml vefþjónusta sem keyrir á Angel þjóninum. Hún skiptist á boðum við MS SQL gagnagrunninn til að tímasetja verk. Það sem gera þarf til að setja upp XEI er að skilgreina upprunagagnagrunn og viðtökugagnagrunn, því næst þarf að ákveða hvort forvinna eigi gögnin eða eftirvinna (eftir að samskiptin hafa átt sér stað). Næst þarf að tengja upprunasvæði í upprunagagnagrunni við viðtökusvæði í viðtökugagnagrunni. Síðast er verkið tímasett. Með XEI er hægt að uppfæra, eyða eða bæta við skráningum. Einnig væri hægt að skilgreina einkunnayfirfærslu úr Angel.


Lokaorð
Við lok síðari ráðstefnudagsins var haldinn sameiginlegur fundur allra ráðstefnugestanna. Þar var gengið um með hljóðnema og salurinn spurði spurninga sem pallborð stjórnenda frá Angellearning svaraði. Meðal upplýsinga sem fram komu þar var: 22% af öllum notendum hýsa kerfið hjá Angellearning og 33% af nýjum notendum gera það. Það býður upp á öryggi og áreiðanleika. Það eru frekar skólar sem eru eingöngu í rafrænni kennslu sem nýta sér þessa möguleika og svo minni stofnanir. Spurt hvar hvort í bígerð væri að smíða grunnskólaviðmót (K12) fyrir foreldra til að fylgjast með árangri barna sinna og var svarið það að það væri í skoðun. Spurt var hvort hægt yrði að prenta út einstök próf, þ.e. prentvæn sýn á spurningar og svarið var að það væri á lista yfir möguleika sem ætlunin væri að taka inn í næstu útgáfur. Spurt var um hvort hægt yrði að breyta um dagsetningar í mörgum áföngum í einu. Svarið var að þetta væri í umræðu en yrði ekki með í 7.2. Spurt var um hvort hægt yrði að setja upp þjónustuborð í Angel og það er í athugun. Spurt var um stærðfræðitákn og var svarið að umræður væru í gangi við WebEq fyrirtækið um að leyfa stærðfræðitákn í útgáfu 7.2. Spurt var hvort hægt yrði að eyða mörgum spurningum í einu og svarið var að það væri verið að skoða þetta í sambandi við 7.2. Spurt var um vefskoðunarforrit (vefsjár) hvort einhver væri best. Svarið var að allar vefsjár ættu að virka en nýja útgáfan af Internet Explorer (7) þyrfti að skoða sérstaklega. Spurt var um XEI þjónusturnar, af hverju þær væru ekki innifaldar í notendaleyfinu. Svarið var að til að halda verðinu á Angel niðri væri aukabúnaður ekki hafður inni. Spurt var um MySpace, hvort hægt væri að bjóða upp á tengingar við það, svarið var að hluti af aðdráttarafli MySpace væri sá að það væri ‘utan kerfis’ og erfitt yrði að bjóða upp á svipað í Angel.
Að því búnu gerðu stjórnendur Angellearning skoðanakönnun með hjálp i>clicker en það er lítið áhald sem hver gestur fékk í hendurnar með tökkum merktum: A,B,C,D,E og ON/OFF.
Þetta er þráðlaust tæki á stærð við fjarstýringu og það hafði samskipti við móttökubúnað sem var USB tengdur við tölvu. Því var hægt að sjá niðurstöður kannannanna birtast jafnóðum á skjá. Tæki þetta var kynnt á sérstökum fyrirlestri sem ég missti af en það er sérstaklega hannað fyrir mannmarga áfanga stóru háskólanna.
Að lokum var næsti ráðstefnustaður og tími tilkynntur. Næsta Angel ráðstefnan verður haldin í Indianapolis, Indiana 15.-16. maí 2007. Staður verður Indianapolis Marriott Downtown hótelið. Undirbúningur fyrir ráðstefnuna hefst daginn áður,14. maí.
Að mínu mati var þetta mjög gagnleg ráðstefna, ekki bara hvað varðaði Angel kerfið heldur líka í kennslufræðilegu tilliti og það var skaði að fleiri skyldu ekki sækja hana frá Íslandi. Vonandi verður bætt úr því í maí á næsta ári.

Engin ummæli: