Færslur

2009-04-07

Hestar Jóns í Vatnsholti

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa



Móðurbróðir minn, Jón Brynjólfsson bóndi í Vatnsholti í Villingaholtshreppi var mesti hestamaður sem ég hef kynnst um ævina. Hann gat róað alla hesta sem hann kom nálægt. Hann talaði við þá, sagði alltaf „klárinn minn, því læturðu svona, vertu nú góður!" Marga hesta tamdi ég með aðferð Jóns. Jón átti móalóttan hest, með svart fax og tagl, mjög fallegan sem hann kallaði Mósa, undan Skarðs Nasa. Mósi var ekki stór, tæplega meðalhestur en var eldfjörugur og fallegur. Mér fannst alltaf gaman að sjá Jón á Mósa. Ef hestur og maður geta orðið eitt þá var það Jón og Mósi. Þennan fjöruga hest tamdi Jón fyrir vagn og sláttuvél. Þó Mósi væri rólegur fyrir vagninum var alltaf eitthvert leiftur í augum Mósa. Þegar Kolsholtsvegurinn var lagður var mölin keyrð á hestvögnum, 1-2 vagnar frá hverjum bæ. Venjulega voru hafðir tveir vagnar saman og einn strákur teymdi. Ég fór upp í malargryfju af forvitni, því ég þótti ekki nógu gamall til að vera kúskur eins og það var kallað. Jón kom með Mósa og vagn. Vagnarnir fóru af stað einn af öðrum. Nú var mokað í vagn Mósa. Mér datt í hug að ekki mundi Mósa líka að vera bundinn aftan í annan vagn því hann vildi alltaf vera á undan. Þegar vagninn var fullur sagði Jón allt í einu við mig: „Heyrðu Binni minn, heldurðu að þú viljir ekki teyma Mósa í dag?" Mér brá við, hafði ekki búist við þessu og sagði: „Heldur þú að ég geti teymt Mósa?" „Ég veit að það getur þú alveg örugglega" svaraði Jón. Ég fór til Mósa, tók í tauminn og strauk aðeins um höfuð hans. Hann beygði höfuðið og þefaði af mér frá fótum og upp á höfuð. Þá sagði Jón: „Vertu alveg rólegur drengur minn. Þetta verður allt í lagi hjá ykkur, en þú skalt lofa honum að ráða." Við Mósi fórum af stað og allt gekk vel. Ég hélt bara uppi taumnum. Mósi sá um hitt. Þegar búið var að losa vagninn var Mósi mjög snöggur að snúa sér við. Eins þegar komið var með tóman vagninn í malargryfjuna var enginn hestur eins fljótur að snúa sér við. Hann bakkaði af miklum krafti og snarstoppaði á réttum stað. Eftir þennan dag var það mitt verk að teyma Mósa þegar möl var keyrð í veginn. Það var orðin venja hjá okkur Mósa að byrja daginn. Ég klappaði honum, hann þefaði af mér frá fótum og upp á höfuð. Ég sá að Jón fylgdist með okkur en sagði aldrei neitt, en brosti aðeins.


Gráan hest fékk ég hjá Jóni í skiptum. Hann ætlaði að farga honum. Ég held að Jóni hafi fundist gott að láta mig hafa hann. Gráni var fallegur hestur, með svarta fætur og dökkt höfuð. Grána átti ég lengi. Hann var skapgóður, viljugur og þægur. Ég vandi hann fyrir vagn og sláttuvél. Yfir vetrarmánuðina var oft sleðafæri. Þá flutti ég mjólkina á sleða og oft dró Gráni sleðann. Einu sinni þurfti ég að bíða lengi eftir mjólkurbílnum. Þegar ég fór af stað heim tók Gráni snöggan sprett, ég réði ekki við hann og lét mig renna aftur af sleðanum, mér leist ekki á að vera á honum þegar Gráni tæki beygjuna inn á Kolsholtsveginn á svona mikilli ferð. Gráni hélt sprettinum alla leið heim og stóð rólegur við hesthúsdyrnar með sleðann og allt var í lagi.


Einum hestanna í Vatnsholti ætla ég að segja frá. Hann var bleikálóttur, með dökkt höfuð, fax og fætur og var kallaður Kolur. Sigurbjörg dóttir Jóns átti hann. Hún var ljósmóðir í Villingaholtshreppi. Það kom henni því vel að að eiga góðan hest. Kolur var stærri en Mósi og Gráni. Hann var viljugur hestur og þægur. Stundum sá ég Sigurbjörgu fara hratt yfir þegar hún var að sinna sínum ljósmóðurskyldum.



Þegar Jón hætti búskap og flutti til Kópavogs ásamt fjölskyldu sinni var Kolur á besta aldri. Nokkrum dögum áður en þau fóru kom Jón með Kol til mín og sagði við mig: „Ég ætla að biðja þig að geyma þennan hest fyrir mig á meðan hann getur lifað, ég get ómögulega fargað honum." Ég var undrandi á því trausti sem hann sýndi mér því ég vissi að honum var ekki sma hver var með hans hesta. Hann hélt á svipu og sagði við mig: „Ég ætla að gefa þér þessa svipu sem ég smíðaði sjálfur." Ég sagði við Jón: „Á ég að nota hana á hestinn?" Jón svaraði: „Ég veit að þú notar ekki svipu. Ég væri ekki að gefa þér hana ef svo væri. Svipuna á ég ennþá geymda hjá Ragnari. Kolur reyndist okkur mjög vel. Jón var búinn að temja hann fyrir vagn og sláttuvél, en ég setti hann sjaldan fyrir vagn. Við höfðum nóg af öðrum hestum til þess. Kolur var mjög skemmtilegur hestur, spakur, þægur og börn fóru á bak honum. Hann var ljúfur og góður, en þegar ég fór á bak honum breyttist hann í eldfjörugan hest og var þá oftast eins og mér líkaði best.
Einu sinni vorum við að sæta á engjunum og vorum seint að. Hestarnir voru tjóðraðir og orðnir leiðir að bíða eftir okkur. Sigríður systir mín fór á bak Kol. Marteinn sonur Kristínar systur minnar sem var þá 4 eða 5 ára hafði labbað til okkar út á engjar. Kolur vildi rjúka af stað og var eins og kappreiðahestur. Sigríður ætlaði að reiða Matta fyrir framan sig en Kolur sneri sér í hringi. Hún sagði við mig: „Réttu mér strákinn" Ég sagði: „Ég þori varla að láta hann á bak hjá þér á meðan hesturinn lætur svona." „Láttu hann bara koma" sagði hún. Ég tók Matta og setti hann fyrir framan hana. Þegar Matti var kominn á bak stoppaði Kolur og var alveg rólegur. Hann hætti að ólmast. Þegar þau voru orðin tvö fórum við í rólegheitum heim. Þegar ég sagði Jóni þessa sögu sagði hann: „Ég vissi alltaf að Kolur minn væri skynsamur hestur."


Veturinn 1951-1952 var mesti snjóavetur sem ég man eftir. Það rigndi og svo fraus og snjóaði alltaf ofan á bleytuna. Venjulegar girðingar voru á kafi í snjó. Á vetrardaginn síðasta var skafrenningur. Hrossin stóðu úti við moðbing sem ég henti fyrir þau. Allt í einu tók Kolur sprett, hljóp út á hóla sem heita Engjahólar og stóðu upp úr snjónum. Öll hrossin tóku sprettinn á eftir honum og stóðu þar hjá honum það sem eftir var dags. Um kvöldið kom hann heim og hópurinn á eftir honum. Ég sagði við foreldra mína að nú myndi verða veðurbreyting fyrst Kolur hegðaði sér svona. Daginn eftir var komin hlý sunnanátt með súld. Ég vil taka fram hér að það var til hús fyrir alla hesta sem við áttum.


Að lokum vil ég bæta einni sögu við sem Guðríður systir mín sagði mér. Þetta mun hafa verið vorið 1930. Þá var rjómi fluttur í Rjómabúið við Volalæk. Systur mínar fóru með rjómann. Þær komu við í Vatnsholti, tóku hest með reiðing og brúsum. Kristín sat á hestinum frá Vatnsholti. Hann var léttstígur og kvikur. Guðríður hélt að Stína myndi detta af honum, en all fór vel hjá þeim. Guðríður var 9 ára en Kristín 8.


Aldrei heyrði ég Jón tala um að hann ætti góða hesta. Ég sá að stundum mislíkaði honum ef hann sá aðra fara illa að hestum, en hann sagði samt aldrei neitt. Ég veit núna að ég lærði mikið af Jóni um meðferð hesta en ég gerði mér ekki grein fyrir því á yngri árum.


Í september 2004.

Engin ummæli: