Færslur

2009-02-24

Reiðhestur huldukonunnar og móbergshellirinn

Eftir Brynjólf Guðmundsson frá Galtastöðum í Flóa


Vorið 1919 þegar foreldrar mínir hófu búskap í Kolsholtshelli var þeim sagt af fyrri ábúendum um ákvæði sem voru á jörðinni. Þau ákvæði voru tvenn. Í fyrsta lagi átti alltaf að vera auður bás í fjósinu. Móbergshellir er í túninu og dregur bærinn nafn sitt af þessum helli. Munnmæli voru að í hellishólnum væri bústaður huldufólks. Hellishólinn mátti að sögn slá en hey átti aldrei að hrekjast á hólnum. Síðari ákvæðin voru þau að húsfreyjan átti að fara í betri fötin þegar hey væri hirt af hólnum. Þetta gerði móðir mín og aldrei hraktist hey á hólnum á meðan foreldrar mínir voru við búskap.

Sumarið 1926 þegar ég fæddist var kaupakona hjá foreldrum mínum sem Þóra Pétursdóttir hét. Þegar hóllinn var sleginn þetta sumar kom norðan þurrkur. Faðir minn var á engjum fram eftir kvöldi og var að slá út í þurrkinn. Þóra fór þetta sama kvöld að snúa flekknum á hólnum. Um kvöldið þegar allir voru sofnaðir í baðstofunni kallar Þóra upp úr svefni: „Kristinn – Kristinn, taktu kerlinguna!" Faðir minn hét Guðmundur Kristinn og var alltaf kallaður síðara nafninu. Hann vakti Þóru og spurði hana hvað hana hefði verið að dreyma. Þóra sagði að sig hefði dreymt að hún sæti á heysátu á túninu. Til hennar hefði komið gustmikil kerling sem felldi hana af sátunni með þeim orðum að hún hefði vakið sig þegar hún var að snúa flekknum á hellishólnum. Kerlingin hefði spurt og sagt: „Sagði hann Kristinn þér að gera þetta?". Þóra sagðist hafa gert þetta óumbeðin. Nokkrum árum seinna þegar Þóra var komin til Reykjavíkur dreymir hana að til hennar kemur stúlka og spyr hvort hún þekki sig. Þóra kveðst ekki þekkja hana. Þá sagði konan: „Þú hlýtur að muna þegar þú vaktir hana mömmu" og bætti svo við: „Mér þykir vont hvað það er þröngt í fjósinu í Kolsholtshelli. Ég er að reyna að hafa reiðhestinn minn þar." Eins og ég gat um í upphafi var hafður auður bás í fjósinu. Þetta var besti básinn, hann var fyrir miðju fjósi og var alltaf kallaður „huldubásinn." Ég man aðeins eftir því að ég var króaður þar af á meðan verið var að mjólka.

Um 1934 var gamla fjósið í Kolsholtshelli rifið og nýtt fjós byggt á sama stað. Þessi sami bás var áfram fyrir miðju fjósi. Nú var prófað að láta kú á básinn og fyrir valinu varð besta kýrin sem foreldrar mínir áttu, kölluð Laufa. Þegar kýrin kom á básinn fór hún aðeins með framlappirnar upp á básinn og var með naumindum hægt að binda hana. Þetta gekk svona í viku að Laufa lagðist ekki í básinn. Strax og kúnum var hleypt út dag hvern, lagðist hún og beit liggjandi, færði sig svo til á túninu, lagðist og hélt áfram að bíta. Ég heyrði foreldra mína tala um þetta. Móðir mín sagði: „Ég skal reyna hvað ég get gert." Ég elti hana út í fjós. Hún gekk að básnum, krossaði yfir básinn mörgum sinnum og sagði: „Ef eitthvað er hér á básnum þá bið ég að það færi sig á betri stað." Faðir minn skar nýtt torf og tyrfði básinn að nýju. Um kvöldið voru kýrnar sóttar. Laufa þefaði um allt og fór svo sjálf upp á básinn eins og hinar kýrnar gerðu á sínum básum. Hún lagðist strax og búið var að mjólka hana. Eftir þetta varð aldrei vart við neitt óvenjulegt í fjósinu.
Þessi hellir hefur verið mannabústaður.

Öskuhaugur er sunnanvið um 20 metra frá hellisopinu og annar smáhaugur var líka norðan við en honum var ýtt í burtu þegar þýfið var gert að túni. Syðri öskuhaugurinn er um 5 meta breiður og 50 sentimetra þykkur. Á áttunda áratug síðustu aldar var grafið í hauginn af háskólastúdentum. Þegar komið var niður úr öskunni var móbergsmulningur því hellirinn hefur verið höggvinn að hluta, mulningurinn borinn upp og askan síðan sett ofan á. Inni í hellinum sjást axarförin vel í móberginu. Mulningurinn er fyrir neðan öskulag sem kallað er landnámsöskulagið svo líkur eru á að þarna hafi verið búið fyrir árið 871. Nánari lýsingu á Hellinum er að finna í bókinni „Manngerðir hellar á Suðurlandi". Aska úr uppgreftri stúdentanna var tekin og send í kolefnisrannsókn til Svíþjóðar en því miður var ekki tekið nógu stórt sýni til að niðurstaða fengist. Askan er til staðar ennþá og hægt að senda til frekari rannsókna. Aftur var grafið á 9. áratugnum af háskólafólki í tvær lautir sem talið var að væru niðurfallnir hellar. Í annarri lautinni var komið niður á fjóshaug og kúahár, í hinni lautinni var hey. Ég vil að lokum geta þess að hellirinn var notaður sem fjárhús um 20 ára tímabil fyrir um 30 ær á mæðiveikiárunum og aldrei drapst kind úr mæðiveiki hjá okkur. Í hellinum var þurrt og hlýtt og mæðiveikibakterían náði sér ekki á strik þar. Núna er hellirinn í Kolsholtshellistúninu friðlýstar fornminjar.

(2005)

Engin ummæli: