Færslur

2009-03-08

Fornmannahaugar í Villingaholtshreppi?

Endurbirtur og endurunninn pistill sem birtist fyrst á blogginu mínu 1. maí 2006.

Í Flóamanna sögu er m.a. sagt frá tveim bardögum sem áttu sér stað í Orrustudal í Villingaholtshreppi. Þessir atburðir sem og fleiri sem sem sagan greinir frá hafa verið fólki sem á svæðinu býr hugstæðir eins og gefur að skilja. Einn þeirra sem velti fyrir sér atburðum Flóamannasögu og bardögunum í Orrustudal var Jón Brynjólfsson sem var bóndi í Irpholti og síðar Vatnsholti í Villingaholtshreppi  á öndverðri síðustu öld. Hann velti fyrir sér hvort þrír hraukar við mynni Orrustudals gætu verið haugar einhverra þeirra manna sem létust í umræddum bardögum. Ójöfnur þessar eru ekki mjög áberandi í umhverfinu og ókunnugum gæti virst sem svo að frost síðasta vetrar hefði ýtt jarðveginum upp, en svo virðist ekki vera. Þeir eru búnir að vera þarna og útlit þeirra hefur lítið breyst síðustu áratugina. Örnefnið „þrælaleiðin" hefur fylgt Orrustudal og var hugmynd Jóns sú að þessar ójöfnur gætu hugsanlega átt við þau. Til að sjá þetta er hægt að beygja af Suðurlandsvegi um Flóa niður í Villingaholtshrepp og aka í um 5 mínútur að afleggjaranum að Skagási, skógræktarreit Villingaholtshrepps. Þar er auðvelt að finna hraukana með GPS tæki því GPS-hnit hraukanna eru sem hér segir: Fyrsti: N 63°53'59,3" og W 20°48'05,9". Annar: N 63°54'00,3" og W 20°48'04,6" Þriðji:  N 63°54'00,5" og W 20°48'04,6".

Móðir Jóns Brynjólfssonar hét Valgerður Guðmundsdóttir. Hún var fædd í Önundarholti í Villingaholtshreppi árið 1830 en Önundarholt er kennt við Önund bíld þann sem bjó í Önundarholti skv. Flóamanna sögu. Valgerður ólst upp í Önundarholti og átti þar heimili þangað til hún giftist Brynjólfi Einarssyni á Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi. Irpholt heitir jörð nálægt Önundarholti og var hún erfðahlutur systkynanna á Sóleyjarbakka. Irpholtið kom í hlut Jóns sem bjó þar um tíma. Bæði Jón og móðir hans voru því gjörkunnug á þessum slóðum, en Önundarholt og Irpholt, sem nú er í eyði, eru skammt sunnanvert við Orrustudal. Jón hafði það eftir móður sinni að heimilisfólk í Önundarholti hefði talið sig vita hvar haugur Önundar bílds var á þessum tíma, þ.e. um miðja 19. öld. Þessi haugur var að mestu jafnaður út þegar núverandi tún var rutt líklega fyrir 1930 og sá haugur sem nú er talinn vera haugur Önundar er ekki á þeim stað sem Jón Brynjólfsson taldi hann vera og mun ef til vill vera um ágiskun fólks sem síðar kom á bæinn að ræða. Ef staðnæmst er á þjóðveginum við Önundarholt sést túngarður fyrir sunnan veginn. Á þeim slóðum taldi heimilisfólk í Önundarholti haug Önundar bílds vera á 19. öld. Staðsetningarhnit þessa punkts eru N 63°50'48,4" og W 20°49'20,7".

Skrifað og mælt í apríl/maí 2006 eftir frásögn Brynjólfs Guðmundssonar systursonar Jóns Brynjólfssonar. Brynjólfur ólst upp í Kolsholtshelli í Villingaholtshreppi og bjó síðar á Galtastöðum í Gaulverjabæjarhreppi.

Uppfært og endurbirt 8.9.2012 RGB

Engin ummæli: